mánudagur, 27. júlí 2009

Okur á tjaldsvæðinu að Leirubakka

Þar sem líður að verslunarmannahelgi þá langar okkur vekja athygli á mismunandi verði á tjaldsvæðum. Árlega förum við stórfjölskyldan í 10 til 20 daga ferð innanlands. Eftir stutta ferð um Suðurland stoppuðum við á tjaldstæðinu að Leirubakka (Heklusetur) og held ég að það sé dýrasta tjaldstæði sem við fjölskyldan höfum nokkru sinni komið á. Verðskráin þar er þannig að fullorðnir borga 800 og börn 6 - 12 ára borga 450. Við munum ekki eftir að hafa séð að 6 ára gömul börn séu rukkuð um hálft gjald og rúmlega það. T.d. er sonur okkar með 4 börn, 6 mánaða ungabarn, 9 ára, 12 ára og 13 ára. Hann þurfti því að borga 3300 kr. fyrir nóttina. Þar sem með í för var ungabarn þá var búið að kanna að tjaldsvæðið byði upp á rafmagn og var svo. Þegar komið var á staðinn kom í ljós að rafmagnstenglar voru 6 stk. og kostaði 800 kr. sólahringurinn. Var þá nóttin hjá syni okkar komin í 4100 kr. Þar sem framboð af tenglum var aðeins 6 þá tengdu við okkur á milli tjaldvagna með fjöltengi 2 og 2 saman og þá var rukkað tvöfalt fyrir tengilinn þ.e. 1600 kr. Fyrir 1600 kr. fást ca. 133 kílóvattstundir (12 kr. pr. kwst). Við búum í 200 fm einbýlishúsi og skv. Orkuveitunni þá notum við ca. 12 kílóvattstundir á sólahring.
Til samanburðar þá kostaði gisting á tjaldsvæði að Hraunborgum í Grímsnesi (flott, fjölskylduvænt tjaldsvæði) 1400 kr. pr. tjaldvagn (óháð fjölda barna) og rafmagn kostaði 300 kr. pr sólahring, samtals 1700 kr. Almennt verð sem sonur okkar var að borga í þessari ferð var um 2000 kr. fyrir fjölskyldu sína á sólahring.
Látum ekki okra svona á okkur á ferðum okkar um landið.
Kær kveðja,
Yngvi og Gulla,

1 ummæli:

  1. Ég sá hérna í einu okurdæminu að það var verið að benda á að nóttin kostaði 8 evrur á haus í Kerlingarfjöllum eða eins og segir á heimasíðunni "Öll verð eru í íslenskum krónum. Miðað er við gengisvísitölu 160 og áskilinn er réttur til verðbreytinga ef þessi vísitala breytist verulega". Þannig að Kerlingarfjoll eru miklu dýrari en þetta.

    SvaraEyða