miðvikudagur, 1. júlí 2009

Ekki ánægður með Elko

Fyrir tveimur árum keypti ég prentara með skanna hjá Elkó. Hann bjó yfir
frjálsum vilja og skannaði og prentaði rétt þegar honum sýndist, auk þess
sem straumtengið átti það til að slökkva á græjunni ef það var hreyft til.
Ég fór loksins með hann í búðina og vildi skipta honum en við
þjónustuborðið sagði starfsfólkið mér að skoða þyrfti gripinn og lagfæra
ef hægt væri; að ekki væri um nein vöruskipti að ræða nema prentarinn væri
sannanlega ónýtur. Ég lét hann af hendi og beið eftir hringingu. Hana fékk
ég nokkrum dögum seinna. Þá var mér tjáð að prentarinn hefði prentað
fullkomlega, skanninn skannað framar öllum vonum og straumbreytirinn ekki
verið neitt til trafala. Aðspurður sagðist maðurinn á verkstæðinu hafa
prófað öll þessi atriði (einu sinni) og komist að þeirri niðurstöðu að
ekkert væri að honum. Hann fann ekki á sér neina hvöt til þess að gera
neinar nánari prófanir þrátt fyrir að ég ítrekaði við hann að þessi
vandamál kæmu upp öðru hvoru, en ekki endilega í hvert einasta skipti sem
prentarinn væri notaður.
Sökum þess að ég þarfnaðist prentarans ákvað ég að láta þar við sitja og
sækja hann til þeirra. En þá sagði maðurinn í símanum mér að ég þyrfti að
greiða þúsund krónur í „skoðunargjald” vegna þess að ekkert hefði fundist
að honum! Ég átti sem sagt ekki aðeins að láta það yfir mig ganga að
verkstæðisstarfsmaður hefði kastað til hendinni og ákveðið eftir
yfirborðslega sannprófun að ekkert væri að. Ég átti líka að borga sekt
fyrir að hafa ómakað starfsmenn Elkó með raftæki sem var í ábyrgð hjá
þeim! Ég skrifaði ekki undir þessa skilmála þegar ég keypti tækið og mér
var fyrst sagt frá þessari harðlínureglu Elkó EFTIR að hafa skilað tækinu
inn til viðgerðar.
Ég ákvað að fara í búðina og láta reyna á það hversu ósveigjanleg þessi
regla væri. Og viti menn! Hún var eins og meitluð í granítstein. Á meðan
ég beið var manni við hliðina á mér sagt að hann gæti ekki skilað DVD-mynd
sem hann hefði fengið heldur þyrfti fyrst að sannprófa meintan galla
hennar. Hann sagðist ekki búa nándarnærri þessari Elkó-verslun og kvaðst
hafa komið daginn áður við án þess að fá afgreiðslu og spurði hvort
starfsfólkinu fyndist það sanngjarnt að láta hann þurfa að keyra þrisvar í
sömu búð til þess að fá einni skitinni kvikmynd skipt. Jú, það fannst
þeim, og þegar að mér kom fékk ég að mæta sama, dásamlega viðmóti. Daman
við þjónustuborðið sagði mér þvert ofan í öll mótrök að það væri
óhnikanlegur sannleikur hins almáttka Elkós að ekkert væri að tækinu, og
að fyrir þá ósvífni mína að láta óbilað tæki inn til viðgerðar væri ekki
nema sanngjarnt að ég greiddi fyrir það skoðunargjald í sekt; að tveggja
ára ábyrgð Elkó næði ekki yfir örstuttar (og ónægar) prófanir ef enginn
galli fyndist.
Án þess að borga tók ég prentarann upp af borðinu og bjóst til brottfarar
til þess að sjá hvernig hún myndi bregðast við. Hún brosti kalt og sagði
að þau myndu þá bara senda sektina í innheimtu. Þá seildist ég ofan í
vasa, henti tveimur Jónum Sigurðssonum á borðið og kvaðst aldregi aftur
ætla að versla við þessa raftækjakeðju. Mér fannst það ekki mikil hótun en
daman virtist taka hana mjög nærri sér, því hún tók þá aftur til máls um
sanngirni þess að hafa af almúgafólki fé fyrir aðstoð sem það hefur fulla
ástæðu til að ætla að sé fríkeypis. Ég lét fortölurnar mér sem vind um
eyru þjóta og gekk út í bíl með „fullkomlega starfhæfa” prentaraskannann
minn í fanginu. Enn sem komið er hafa forritin sem fylgdu með honum ekki
náð að fá hann til þess að skanna og það er hendingu háð hvort hann
prentar það sem fyrir hann er lagt eða einhverja bölvaða spássíuvitleysu.
Elkó hefur greinilega ákveðið að hætta að koma til móts við viðskiptavini
sína og byrja að gera þeim erfitt fyrir að fá umsamda aðstoð. Kannski er
þetta góð leið til þess að skera niður útgjöld en þetta er líka góð leið
til þess að missa viðskiptavini. Og það er einmitt það sem Elkó á skilið.
Vonandi verða þessir svívirðilegu viðskiptahættir til þess að fólk hættir
alfarið að leggja leið sína í búðir þessarar verslunarkeðju.
kv,
Símon

15 ummæli:

  1. Helduru að þetta sé eitthvað betra hjá öðrum verslunum/tölvuviðgerðaþjónustum ? Þessir ömurlegu viðskiptahættir hafa átt sér stað lengi. Man eftir konu sem keypti prentara í BT fyrir mörgum árum og þegar eitthvað splitti á honum gaf sig með þeim afleyðingum að prentarinn gat ekki prentað þá fékk hún að vita(innan við ár frá kaupum) að ábyrgðin næði bara yfir hugbúnaðinn en ekki galla utan á prentaranum.

    Alveg makalaust finnst mér.

    SvaraEyða
  2. 1. Ath hvort bilun sé í tölvunni.
    2. Ath hvort bilun sé milli lyklaborð og stólbaks.
    3. Ath hvort tæki sé bilað.

    Ef bæði skanninn og prentarinn eru að klikka þá hljómar þetta mjög eins og driver vandamál. Ath
    heimasíðu framleiðandans að uppfærslum.

    SvaraEyða
  3. Þetta er svona voða basic tölvuvesen. Ef þetta virkar ekki við þína tölvu en virkar í ÖLLUM öðrum tölvum er prentarinn ekki bilaður.

    Prófaðu að uppfæra hugbúnaðinn af heimasíðu framleiðanda.

    Þessi regla um skoðunargjald er alls ekki bara bundið við Elko heldur er þetta lögum bundið og ÖLL VERKSTÆÐI FRAMFYLGJA ÞESSU!!!! Hef sjálfur þurft að greiða þetta hjá Tölvulistanum. Getur kynnt þér meira um þetta með því að lesa lagabókstafinn (Sjá 30. gr. laga um neytendakaup nr. 48/2003).

    Þetta hljómar allavega ekki sem bilun í tækinu heldur í notanda. Eða BIN villa. Um að gera að tjékka bara í leiðbeiningarbæklinginn sem fylgir með og uppfæra allan hugbúnað í tölvunni, ég efast ekki um að þú færð hann í gott lag.

    Góðar stundir.

    SvaraEyða
  4. Ásgeir Ólafsson1. júlí 2009 kl. 17:57

    þú hefðir nú bara átt að ganga út með jónana þína ennþá í vasanum og leyfa þeim að reyna að rukka þig um þá, með aðstoð lögfræðinga. Allavega ef að þú hefur ekki kvittað undir eithvað þar sem að þú sammþykkir skilmála þar sem að "skoðunargjald" kemur fram. þetta er nú bara spurning um að hafa smá "balls"

    SvaraEyða
  5. Ég ætla ekki að skrifa undir skilmála um að ég ætli að stoppa á rauðu ljósi.fæ samt alveg sektina.
    hvað er málið þetta er í neytendalögum sem verkstæði og búðir fara eftir,það er ekki elko sem er að rukka þetta heldur verkstæðið.
    Ef þú er að reka verkstæði og það eru alltaf að koma inn vörur sem ekkert finnst að og menn eiða tíma í að skoða vörurnar,mundi maður ekki rukka það.Þú ert bara heppinn að þetta var ekki rukkað sem tími á verkstæði,hann hefði getað kostað um 5-6 þúsund.
    mér finnst bara pirrandi að lesa um fólk sem greinilega veit ekkert um hvað það er að tala.

    Takk fyrir

    SvaraEyða
  6. Þetta er ekkert annað en væl í þér vinur !

    SvaraEyða
  7. Skrifa undir skilmála? Síðast þegar ég vissi þurfti ekki að skrifa undir neina skilmála til að þurfa framfylgja lögu, elsku kúturinn minn!

    Má ég s.s. keyra eins hratt og ég vil af því að ég var ekki látinn skrifa undir plagg eða skilmála?

    Ég hef unnið mjög lengi á tölvuverkstæði og þekki þetta býsna vel. Ef verkstæði myndi ekki bera skoðunargjaldinu fyrir sér myndi það hreinlega fara á hausinn, ekkert flóknara! Enda halda mjög margir að inní kaupunum og inní ábyrgðinni sé ókeypis tölvuhjálp. Það er sennilega hægt að rekja langflestar "bilanir" til notanda en ekki bilunar í tækjabúnaði.

    Hefði ekki tíminn sem fór í að skrifa þessa steypu verið betur varinn í að lesa leiðbeiningarbæklinginn. Bara pæling sko... ;-)

    SvaraEyða
  8. En hvernig stendur á því að svona steypa sleppur hingað inn ?

    SvaraEyða
  9. Ég er starfmaður á verkstæði og kannast vel við þessi vandamál. ég fæ raftæki inn og oft fæst bilun ekki fram.
    EN þær reglur sem við förum eftir er að ef tækið er í ábyrð þá ber framleiðandinn allan kostnað.

    Vill við skemmtilega til að ég er með prenntarann minn í viðgerð hjá EJS, ég fékk bilun fram en þeir ekki og þeir vilja rukka mig um 5.þ kr greiningargjald, sem ég á ekki orð yfir?!

    SvaraEyða
  10. svona hljómar greinin sem heimilar gjaldið:

    Ef ekki reynist um galla að ræða getur seljandi aðeins krafist greiðslu fyrir þær athuganir sem nauðsynlegar voru til að komast að raun um hvort söluhlutur væri gallaður, og greiðslu fyrir lagfæringu á hlutnum ef seljandi hefur gert neytanda það ljóst að hann þurfi sjálfur að bera umræddan kostnað.

    Sé ekki betur en það þurfi að tilkynna fyrirfram að gjaldið sé tekið.

    SvaraEyða
  11. þið aulabárðar sem eruð að vitna í umferðareglurnar þá "skrifaðir" þú svo sannarlega undir skilmála þegar þú tókst bílpróf og sannaðir þekkingu þína á umferðarlögunum....

    Eitthvað mikið að því sem er á milli stóls og lyklaborðs hjá ykkur...

    SvaraEyða
  12. Í elko er risaplagg þar sem stendur, greitt er skoðunargjald fyrir vörur reynist þær ekki bilaðar.

    SvaraEyða
  13. Í Elkó ætti að vera risaplagg þar sem stendur, hér er léleg þjónusta.

    SvaraEyða
  14. Ég hef lengi verslað við Elko og starfaði þar um tíma með námi og það er langt að leyta að betri þjónustu. Þú getur ekki kennt búðinni um vankunnáttu þína á tölvubúnaði.

    Þetta með DVD diskinn er mjög skiljanlegt. Margir reyna að skila DVD diskum sem hafa rispast hjá þeim eða af því að þeir keyptu DVD spilara fyrir 2000kr og er ansi fljótur að verða lélegur enda borgar maður fyrir gæði.

    Elko er tildæmis líklega eina búðin á landinu sem endugreiðir þér flestar vörur innan 30 daga þrátt fyrir að þú sért búinn að taka hana úr umbúðum og prófa hana. Tala ekki um ef hún er enn óopnuð. Allstaðar fær maður bara innleggsnótu sem maður hefur oft ekki neitt að gera við.

    Starfsmönnum í Elko er uppálagt að vera liðlegir. Það er auðvelt að skila vörum hjá þeim en það er ekki hægt að ætlast til að ábyrgð nái yfir þekkingarleysi og vankunnáttu neytanda, sem í þessu tilfelli hefur örugglega verið ,,leiðilegi gaur vikunnar" og enginn getur haldið út að vera liðlegur við svoleiðis lið til lengdar. Hvað þá fólk sem byrjar með persónulegar árásir á starfsmenn af því að það er fúlt út af einhverju.

    Ef hann hefði verið með engan æsing og bara rólegur, þá hefðu starfsmenn í tölvudeild ábyggilega skrifað á disk nýjustu drivera fyrir hann og hjálpað honum í framhaldi með uppsetningu í gegnum síma. Það er nokkuð sem ég gerði oft þó að það sé hundleiðinlegt að leiðbeina um uppsetningu vídeotækis eða segja til í stöðvaleit í gegnum síma þá gerðum við þetta allir og oft.


    Svo hefði líka verið sniðugt að ræða við þá áður en ákveða það að prentarinn væri bilaður. Nánast hvaða ungmenni hefði getað frætt þig um að þetta væri að öllum líkindum drivera vandamál.

    Fyrir utan allt annað, þá eru þeir alltaf ódýrastir, lækka verðið ef þú finnur sömu vöru ódýrari annarsstaðar og endurgreiða þér mismuninn ef þú varst þegar búinn að kaupa vöruna á hærra verði.

    SvaraEyða
  15. Eins og með annað einhliða raus þá les maður þetta og hugsar með sér, úff hvað þessi þarf að slappa af. Margir hérna hafa bent á það og eflaust hefði verkstæðismanneskjan átt að hafa gert það líka, að þetta gæti hafa verið tölvan þín en ekki prentarinn. En þú varst of einstrengingslegur og fastur á því að búðin væri viðbjóður til að átta þig á öðrum lausnum á málinu.

    SvaraEyða