föstudagur, 26. febrúar 2010

Svör Brimborgar við þremur færslum

Hér koma svör Brimborgar við þremur nýlegum færslum:

Færsla: Brimborg - þjónustuskoðun (15. febrúar)

Vegna ofangreindar færslu vill Brimborg koma því á framfæri að ekki er verið að bera saman sömu hlutina, þ.e. samanburður er á tímagjaldi en ekki heildarverði þjónustuskoðunar. Tímaverð á þjónustuskoðun hjá Brimborg byggir á viðmiðun við tímaeiningu framleiðanda á meðan Skipting innheimtir rauntíma. Þar að auki er verðið sem gefið er upp í færslunni hjá Brimborg með virðisauka en verðið frá Skiptingu án virðisauka en Brimborg gefur alltaf upp verð með virðisaukaskatti en annað er ekki lögmætt.

Brimborg selur allar þjónstuskoðanir á föstu verði skv. tíma einingakerfi framleiðanda enda skylt samkvæmt lögum að upplýsa viðskiptavin um kostnaðaráætlun. Það er þá áhætta Brimborgar ef verkið tekur of langan tíma. Ef tekið er dæmi á tveggja ára skoðun á Volvo S40 þá er Brimborg að innheimta 1,2 klst fyrir þjónustuskoðun á Volvo S40. Verð p/klst. er 11.794 kr. en ekki 12.500 kr. eins og kemur fram í færslunni. Vinnuliðurinn er því 1,2*11.794= 14.153 kr. m/vsk.

Skipting notar ekki sömu aðferðafræði við útreikning á verki þar sem rauntími er ekki það sama og einingakerfi framleiðanda. Samkvæmt upplýsingum frá Skiptingu þá eru þeir að innheimta 2,5-3 klst. fyrir skoðun. Gefum okkur það að Skipting innheimti 2,5 klst., þ.e. lægri tímafjöldann, og tíminn hjá þeim á 5000 kr án vsk. Tíminn kostar þá með vask kr. 6.275 og gerir því vinnuliðurinn hjá þeim 2,5*6.275=15.688 með vsk. Niðurstaðan er að Skipting er dýrari en Brimborg.

Hér í þessu dæmi er því vinnuliður hjá Brimborg ódýrari sem nemur 9% heldur en hjá Skiptingu. Mikilvægt er bera saman kostnað við verkið í heild en ekki tímagjald nema vitað sé hve langan tíma verkið tekur. Aðeins er hægt að vita hve langan tíma verkið tekur ef notast er við fastverðskerfi eins og Brimborg vinnur eftir og smíðað er af þeim framleiðendum sem Brimborg er umboðsaðili fyrir.

(svör við kommentum:)
Svar til Nafnlaus
Brimborg treystir sér ekki að svara þessari athugasemd því forsendur eru óþekktar.

Svar til Gullvagnsins
Brimborg hefur ekki áhrif á verðlagningu hjá sínum þjónustuaðilum og verðsamráð af slíku tagi er ólögmætt. Kröfur Brimborgar til sinna þjónustuaðila er að þeir framkvæmi þjónustuskoðanir samkvæmt ferli framleiðenda og að þeir fari að lögum en verðlagning þjónustuaðilans er algerlega á hans ábyrgð.

Kv. Sigurjón Ólafsson, framkvæmdastjóri eftirþjónustusviðs Brimborgar

---------------------------------------------------------------------------------

Færsla: Brimborg – okursaga (12. febrúar)

Brimborg tekur undir það að verð á þessum varahlut er hátt. Því miður er það svo að framleiðandi útvegar þessa vöru ekki nema sem samsettan hlut (ekki hægt að kaupa einstakar einingar sem eru bilaðar), það er að segja allan öxulinn. Verð á öxlinum sem var gefið upp af framleiðanda er sambærilegt við verð í Evrópu hjá Daihatsu því það hefði þurft að panta þennan hlut þaðan. Hátt innkaupsverð frá birgja er ástæðan fyrir háu verði. Við getum skilið óánægju neytandans og fögnum að hann hafi fundið þennan íhlut í öxulinn á lægra verði.

Kv. Sigurjón Ólafsson, framkvæmdastjóri eftirþjónustusviðs Brimborgar

---------------------------------------------------------------------------------

Færsla: Dýr stýrishosusett í Brimborg (22. febrúar)

Vegna færslunnar hér að ofan vill Brimborg koma eftirfarandi á framfæri:

Samkvæmt okkar athugun var skipt um háþrýstislöngu á vökvastýri á umræddum bíl en ekki stýrishosusett eins og Böðvar talar um. Þessar vörur eru ekki sambærilegar. Um er að ræða misskilning því háþrýstislanga er ekki ósköp venjuleg bómullarbundin gúmmíhosa eins og Böðvar vill meina og nipplarnir eru ekki svo einfaldir að hægt sé að búa þá til með handborvél.

Hjá Brimborg er verð á háþrýstislöngu með nippli 38.815 kr. m. vsk. Þegar Böðvar hafði samband við Kistufell hefur hann fengið uppgefið verð á annarri vöru því samkvæmt upplýsingum frá Kistufelli selja þeir ekki háþrýstislöngur fyrir vökvastýri né stýrishosusett í Ford Focus. Við vitum ekki verð á hvaða vöru hann fékk uppgefið en ljóst er að ekki er verið að bera saman verð á sömu vöru og því er þessi samanburður ómarktækur. Þess má jafnframt geta að við gerðum verðkönnun og ekki er hægt að fá háþrýstislöngu á vökvastýri á 3.000 kr hjá neinum aðila hér á landi.

Varðandi reimasettið þá verður alltaf að meta hvert tilvik fyrir sig. Í einhverjum tilvikum er nóg að spreyja olíuhreinsi á reimarnar, skola og þurrka eins og Böðvar nefnir en svo er ekki alltaf. Í þessu tilviki mat bifvélavirkinn að nauðsynlegt væri að skipta um reim en eins og alltaf tekur eigandi ákvörðun um hvort viðgerð verði framkvæmd. Þegar viðskiptavinur kemur með bíl í viðgerð til Brimborgar notar bifvélavirki fagþekkingu sína og reynslu til að gefa ráðleggingar um það sem hann telur nauðsynlegt að gera en lokaákvörðun er að sjálfsögðu eigandans.

Kv. Sigurjón Ólafsson, framkvæmdastjóri eftirþjónustusviðs Brimborgar

5 ummæli:

  1. Ég verð að hrósa Sigurjóni fyrir að svara þeim færslum sem snúa að fyrirtæki hans. að mínu mati eykur það á opin og heiðarleg samskipti um deilumál sem að í mörgum tilfellum snerta marga aðila. Svo er annað mál hvort verð Brimborgar séu sanngjörn, en það verða bílaeigendur að eiga við sína samvisku og hvort þeir hafi fyrir því að gera verðkönnun áður en lagt er af stað í viðgerð.

    SvaraEyða
  2. 38.815 kr fyrir háþrýstislöngu í vökvastýri á bíl er náttúrulega geðveiki. Það er væntanlega hægt að fá þetta í Barka eða Landvélum fyrir brot af þessu verði.

    SvaraEyða
  3. Flott hjá Brimborg að svara þessu skilmerkilega. Og ágætt að hafa í huga að Brimborg er ekki á framfæri ríkissins einsog Hekla og Toyota.

    SvaraEyða
  4. Ég hef aðeins SLÆMA reynslu af viðskiptum mínum við Brimborg.
    Mjög dýrir og einnig fannst mér kvörtunarkerfið meira upp á punt.

    Hef mjög góða reynslu af Toyota.

    SvaraEyða
  5. Egill Jóhannsson7. mars 2010 kl. 17:45

    Til þessa síðasta nafnlausa. Það kemur reyndar ekki fram hvað þú meinar með að kvörtunarkerfið sé bara upp á punt en það er auðvitað alrangt og kannski erfitt að taka alvarlega gagnrýni sem er órökstudd.

    Allar kvartanir eru bókaðar, þær greindar og öllum kvörtunum svarað skriflega með rökstuðningi. Í lok svars er ávallt hvatning til viðkomandi að bera svar og rökstuðning Brimborgar undir óvilhallan aðila t.d. FÍB, Neytendasamtökin eða Neytendastofu. Þetta ferli bætir réttarstöðu neytenda og er því svo sannarlega ekki upp á punt.

    Ég hvet þig til að spyrja FÍB, Neytendasamtökin og Neytendastofu hvort þetta sé ekki rétt og hvort vinnubrögð Brimborgar séu ekki til fyrirmyndar þegar kemur að kvörtunum. Ég er viss um að svarið verður jákvætt.

    Kveðja
    Brimboorg
    Egill Jóhannsson, forstjóri

    SvaraEyða