sunnudagur, 31. maí 2009

Ódýr steik

Ég fór á Gamla Vínhúsið/A-Hansen í Hafnarfirði og fékk mér bestu
steik sem ég hef smakkað lengi. Þetta var nautasteik með frönskum
kartöflum og bearnaise og kostar ekki nema 1500.- krónur. Ég mæli
hiklaust með þessu. Ég á eftir að fara aftur og fá mér svona steik,
ekki spurning.
kv,
Guðríður

Grill á tilboði?

Miðvikudaginn 27. maí festi ég kaup á grilli, Weber Performer í Garðheimum
á tilboðsverði, tæplega 50þ. Á sama tíma er grillið til sölu í Járn og
Gler á tæplega 70þ. Ég asnaðist til að segja sölumanninum í Garðheimum
verðið í J&G, en annars hæstánægður með sparnaðinn við að gera samanburð á
verðum. Tveimur dögum síðar fer ég aftur í Garðheima og rek þá augun í að
grillið góða er enn á tilboðsverði, en hafði nú hækkað í tæp 70þ.
Mér er gróflega misboðið og trúi ekki öðru en að verðlag í öðrum búðum
hafi ráðið þessari skyndilegu verðhækkun í Garðheimum og n.b. grillið er
enn á tilboðsverði eftir þessa 40% hækkun!!

Ömurleg þjónusta hjá Castello Pizzeria á Dalvegi í Kópavogi

Ég er 25 ára og fluttur að heiman. Ég ákvað í gær 30.maí þegar ég og foreldrar mínir komum að austan eftir að hafa tekið hestana með okkur og riðið þar út að bjóða þeim í pizzu enda ekki stemming fyrir því að fara elda eftir þessa ferð. Ég fer inn á Castello á leiðinni heim og panta 16" pizzu og brauðstangir + hvítlauksolíu. Og borga fyrir þetta um 3100kr(frekar dýrt en þetta á jú að vera eldbakað). Svo fer ég heim til mín og í sturtu en þar sem ég bý á efstu hæð í blokk getur rennslið á heita vatninu stundum dottið niður þannig að ég hringi í foreldra mína og bið þá um að sækja pizzuna. Ekkert mál og þau fara og ná í hana. Svo hringja þau á miðri leið og segjast vera með pizzuna og hafa þurft að borga um 3100 fyrir hana. Ég segi nei ég er sko búinn að borga fyrir hana. Þá merkja þeir ekki hvort að búið sé að borga pizzurnar eður ei. Þau fara til baka en svo þegar þau vilja fá endurgreitt þá eru þau beðin um kvittun,þau verða fúl og segja að kvittunin sé hjá aðila sem búi ekki með þeim. Það er hringt í mig og ég beðinn um að segja hvað starfsmaðurinn heitir sem afgreiddi mig(vá eins ég viti það!!!). Þarna eru þau sökuð um að vera að reyna að svíkja út ókeypis pizzu. Látin síðan bíða eins og glæpamenn á meðan þeir fara og skoða í myndavélakerfið hvort þau séu að ljúga. Svo fæst úr þessu skorið en þau krefjast nýrrar heitar pizzu og bera fyrir sig að það sé á ábyrgð þeirra að merkja hvort búið sé að borga pizzurnar.Svo kemur pizzan en ekki var haft fyrir því að biðjast afsökunnar heldur hreytt út úr sér næst munið þið eftir að hafa kvittunina með ykkur. Og að sjálfsögðu sagði mamma ÞAÐ VERÐUR EKKERT NÆST!!!!!!!!!!!
Er það líka svona sem ungir karlmenn í dag haga sér(já bara ungir karlmenn þarna inni að vinna a.m.k.þetta kvöldið)??????
Það má líka fylgja með að hvítlauksolína kom ekki með þegar pizzan var opnuð en við vorum of svöng og þreytt eftir klst bið á pizzunni til þess að gera neitt í því.
Stefán

laugardagur, 30. maí 2009

Ekki er allt sem sýnist...

Síðastliðinn fimmtudag (21. maí) auglýsti Húsasmiðjan/Blómaval Tax Free af sumarplöntum. Þar sem þessar plöntur eru yfirleitt í dýrari kantinum ákvað ég að láta slag standa. Ég var ekki ein um það því verslunin á Akureyri var kjaftfull af fóki. Ég keypti þónokkuð af plöntum í garðinn minn m.a. jarðarberja plöntur og sólboða. Ég borgaði 602 kr fyrir jarðarberjaplöntuna og 682 kr fyrir sólboðann og þóttist nokkuð góð að fá þær með þessum aflsætti. En ekki er allt sem sýnist í fyrstu því 2 dögum seinna sá ég þessar sömu verslanir auglýsa jarðarberjaplöntuna á 399 kr stykkið. Ég verð að segja að það fauk verulega í mig, en ekki nóg með það því tæpri viku eftir að ég keypti plönturnar var sólboðinn líka auglýstur á lægra verði eða 599 kr stykkið. Hvað er í gangi?? Geta kaupmenn endalaust blekkt viðskiptavini sína? Ekki urðu miklar gegnisbreytingar á þessum dögum sem útskýra það hvers vegna plönturnar lækkuðu í verði, eða voru þær kannski hækkaðar í verði áður en Tax Free tilboðið var sett á?? Maður spyr sig...
Bestu kveðjur
Freydís Þorvaldsdóttir

Eldspítnaverð eftir hrun

Langar til að benda á ótrúlega verðhækkun á eldspítustokkum. Útgjöld meðalfjölskyldunnar eru kannski ekkert ofsafengin þegar kemur að eldspítnainnkaupum en þetta er dæmi um ofsahækkun á smávöru. Í 10-11 kostar einn elspítnastokkur núna heilar 69 krónur. Á bensinstöðvum er stokkurinn kominn uppí 35 krónur (fór reyndar á bensínstöð um daginn og bensínafgreiðslumanninum blöskraði svo þegar hann skannaði inn stokkinn og sá upphæðina sem birtist á skjánum að hann seldi mér hann á gamla 15 kalinn. Það var verðið fyrir hrun. Við erum að tala um 460 % hækkun hjá 10-11. Gengið hefur nú ekki hrunið svona svakalega. Það verður líka gaman að sjá, ef einhverntíman réttist úr kúttnum á krónunni, hvað stokkurinn kemur til með kosta þá. Það er grunur minn og trú að fullt af verðhækkunum muni aldrei ganga til baka. En það er kannski önnur saga, seinni tíma umræðuefni og áhyggjuefni.
Kveðja,
Finnur Arnar

Fylgist með afslættinum

Fyrir ca. 1/2 mánuði keyptum við danskar svínalundir, sem verzlunin Krónan hafði auglýst þann daginn með 50% afsl. Þegar heim var komið fórum við yfir kassa strimilin kom þá í ljós að um ræddan afslátt vantaði, hringdi ég nú í verzl.stjóra í Krónunni þar sem umrædd vara var keypt, sagði hann að ég skyldi koma og hann myndi greiða mér til baka mismunin.
Í dag var konan mín að verzla í Krónuni Lindum, Kóp. og keypti lambalæri merkt með stórum stöfum 30% afsl. Þegar að stúlkan við kassa reyndis bara vera 10% afls. og var þá kallað á verzlstjóra til að leiðrétta þetta.
Þetta sýnir hve vel fólk þarf að fylgjast vel með. vöruverði því það er alltof oft ekki sama verð við kassa.
Kveðja,
Jóhann Hákonarson

Um barnabílstóla

Ég sá athugasemd frá konu einni á síðunni þinni um barnabílstóla og tek undir það með henni að það þurfi að skoða þau mál. Þetta er orðin mikil fjárfesting og erfitt að velja sér stól.
Ég er einmitt í þessum hugleiðingum núna og var búin að ákveða að leigja mér stól frá VÍS en þar sem ég er í viðskiptum við þá er leigugjaldið 700 krónur á mánuði. Ég setti kosti og galla niður fyrir mér til að eiga auðveldara með að velja leið og fannst leigan físilegust af þessum ástæðum:
Mér reiknaðist til að það myndi taka mig tæp 5 ár að greiða andvirði stóls sem ég get keypt úti í búð ef leigugjaldið myndi haldast 700 krónur út tímabilið
Ég get alltaf skilað stólnum og þar með sagt leigunni upp, svo ég er ekki að binda mig neitt eins og ég gerði þegar ég tók húsnæðislánið eða bílalánið.
Það er frábært að geta skilað stólnum og fengið annan sem hentaði betur þegar barnið er orðið stærra í stað þess að vera með bílskúrinn fullan af of litlum barnabílstólum á einhverjum tímapunkti.
Mér hafði verið sagt að hver viðskiptavinur fengi nýjan ónotaðan stól svo þá er maður ekki að taka séns á því að stóllinn sé í lagi eins og maður gerir þegar maður fær hann lánaðan.
En svo fékk ég þær upplýsingar hjá VÍS í gær að ég verði að bíða eftir því að einhver annar skili stól til að ég geti fengið – sem sagt ég fæ notaðan stól. Ég get ekki valið hvað hann hefur verið notaður lengi eða hversu mörg börn hafa notað hann. Ég get ekki verið viss um að stóllinn sé „tjónlaus“ og ég veit ekkert um umhirðu stólsins á neinn hátt.
Þetta fældi mig frá því að taka stól á leigu hjá VÍS og ég ákvað að kaupa mér frekar stól og sleppa því að greiða af bílaláninu þennan mánuðinn því hvort vill maður heldur, öryggi barna sinna í umferðinni eða halda fjárhagslegu mannorði sínu.
En mér finnst nauðsynlegt að benda fólki á þetta því stólarnir endast ekki lengi, mig minnir 2 -3 ár og mér er sagt að einungis sé borin ábyrgð á öryggi stólsins fyrir 2 börn. Ég sel þessar upplýsingar ekki dýrari en ég keypti þær.
Vonast til að sjá umræðu um þessi mál.
Anna

Okur á línuskautum

Langaði að deila með þér og öðrum smá sögu. Frændi minn fór í Intersport Lindum að kaupa sér línuskauta þeir kostuðu 29900 fyrir viku síðan. Hann reyndi að prútta en það var ekki möguleiki þar sem að þeir áttu að vera á gamla genginu, (mikið notaður frasi þessa dagana) og því engin smuga að gefa afslátt á þeim. Hann borgaði því uppsett verð og fór út að renna sér. Í gær var ég svo stödd í Útilíf Holtagörðum og sá þar sömu skauta á kr 18900 og ekkert tilboð í gangi. Ég trúði ekki mínum eigin augum og hringdi því í frænda minn og fékk staðfest að um sömu skautana væri að ræða. Hringdi þá frændi minn í Intersport Lindum og sagði þeim söguna og þar sem að þeir eru með verðvernd þá vildi hann fá greiddan mismuninn. Þeir ætluðu nú að reyna að komast undan þessu en ég fékk kvittun frá Útilíf um verðið og fórum við upp í Intersport, eftir mikið þras og vesen, því þeir reyndu allt til að komast undan að borga þá létu þeir hann hafa mismuninn heilar 11000 kr. Við erum ekki að tala um smáaura hér. Ég vona nú að útilíf hækki ekki vöruna hjá sér því nóg er nú að borga 18900 kr fyrir línuskauta. Þegar ég var inni í Intersport að bíða eftir svörum í gær þá sá ég par vera að máta þar línuskauta og ég var snögg að vinda mér upp að þeim og segja þeim frá því að þeir væru 11000 kr ódýrari í Útilíf Holtagörðum, og þau þökkuðum mér kærlega fyrir því að þau ætluðu að kaupa tvö pör sem sagt sparaði þeim 22000 kr.
Annað vil ég benda á að varðandi gengishækkunina þá virðist það vera raunin að þessar stóru búðir hækka allar vörur hjá sér í búðinni óháð því hvort að þær hafi verið keyptar inn á nýju gengi eða gömlu og segja svo að þetta hafi verið að koma í búðina, mjög ótrúverðugt. En það er ein búð í hafnarfirði sem heiti Músik og Sport þar eru vörurnar ekki hækkaðar upp því að í hillunum má sá sömu skóna á mismunandi verði og til dæmis þá eru til Adidas strigaskór þar á krakka og eru þeir á verðinu 5990 til 9990 eftir því hvenær versluninn keypti inn skóna. Þeir verðmerkja vöruna með merkibyssu og það verð stendur, engar stikamerkingar sem eru hækkaða í tölvunni. Ég var í þessari búð líka í gær og starfsmaðurinn lagði sig fram við að finna fyrir mig lægsta verðið sem hann fann, þetta er þjónusta sem á að þakka fyrir. Heiðarlegt fólk á ferð þar.
Mig langaði bara að deila þessum sögum með þér og öðrum og vara aðra við þessum óverðskulduðu hækkunum hér á þessu skeri. Mér líður svo vel að gera góðverk, kemur skapinu í lag.
Kv,
Anna María

Lyfjaver / Lyf og heilsa - verðmunur

Hef keypt lyf sem ég nota reglulega í apotekinu Lyfjaver og keypti það síðast þar í morgun á kr 1980.
Var svo seinna í morgun í Kringlunni og ákvað að kaupa aðra túpu af lyfinu í Lyf og Heisa þar sem ég er að fara af landi brott og vildi hafa nægar byrgðir með.
Þar kostaði sama lyf, sama pakkning 2903 kr.
Þetta er Felden túba gel hlaup 5m 50 grömm.
Ekki lítill munur það.
Er með kvittanir frá báðum apotekum.
Kári H. Sveinbjörnsson.

föstudagur, 29. maí 2009

10-11 í viðskiptabann


Mig langaði bara að benda Okur lesendum á þessa bloggfærslu sem ég gerði. Þar tek ég verðsamanburð á 3 hlutum úr 10-11 og Bónus. Verðmunurinn er alveg út úr kortinu!
http://jonathangerlach.com/2009/05/18/10-11-i-viðskiptabann/
Læt myndina fljóta með að gamni :)

Vodafone og gjald fyrir rétthafabreytingu

Hér er dæmi um lélega viðskiptahætti hjá Vodafone:
Þurfti um daginn að skipta um rétthafa á ADSL tengingu sem ég er með hjá Vodafone
Fékk svo mjög óvænt reikning frá þeim upp á 3.028 fyrir rétthafabreytingunni!!!
Ég ákvað að athuga hvað það hefði kostað mig ef ég hefði bara sagt upp tengingunni og stofnað nýja á nýju nafni. Þjónustufulltrúi Vodafone sagði mér að það hefði ekki kostað neitt. Ég sagði henni þá að hefði ég vitað að þau myndu rukka mig um 3000 kall fyrir að skipta um nafn á reikningnum að þá hefði ég nú valið segja upp gömlu tengingunni og stofna nýja….þjónustufulltrúinn fór þá að tala um að þá hefði ég þurft að bíða í 7-11 daga eftir nýrri tengingu…..why???.....tengingin er til staðar. Nú ég sagði þá að ég hefði bara ekki sagt þeirri gömlu upp fyrr en hin væri farin að virka eftir 7-11 daga.
Málið endaði þannig að í þjónustufulltrúinn bauðst til að fella niður helminginn…út af því að ég hafði ekki verið látin vita um þessa gjaldtöku þegar ég skipti um rétthafa. Ég lýsti óánægju minni en það varð engu tauti við hana komið og ég enda því á að greiða 1500 kall fyrir ekkert!!!!
Skilaboðin eru:
Ekki skipta um rétthafa…betra að segja upp og stofna nýtt!!!!
Margrét

fimmtudagur, 28. maí 2009

Fúll með bílahreinsun Securitas

Ég fór til Danmerkur í síðasta mánuði og fór uppá völl á bílunm. Ég lét
Securitas taka bílinn geyma hann og þrífa. Það kostaði 16þús. Þegar ég
kom heim hélt ég að ég fengi hreinan og fínan bíl en það var nú annað. Á
innan var bíllinn illa þrifinn og að auki vantaði tvær mottur. Á utan
var það sem var svart orðið gráflekkótt og lakkið allt í bónskellum.
Þegar ég kom heim fór ég að heiman í nokkra daga en konan var með
bílinn. En hún sagði mér að bíllinn væri hræðilega illa þrifinn. Þegar
að ég kom aftur heim hringdi ég í Securitas og kvartaði. Ég sagði að
bíllinn væri mjög illa þrifinn og sagði ég honum ástæðuna fyrir því að
ég hringdi ekki fyrr. En þvílikur dóni sem hann var hann sagði að sér
kæmi það ekkert við. Ég varð mjög óánægður og reiður, og sagðist ætla að
láta þetta fréttast. Ég var með heimavörn hjá Securita sem ég lét
fjarlægja strax og fékk nýja hjá Öriggismiðstöðinni. að lokum vil ég
vara fólk við að eiga viðskipti við Securitas
Með kveðju. H. Ólafsson

þriðjudagur, 26. maí 2009

Ruglað verð á rúsínum

Við fjölskyldan kaupum stundum rúsínur til að hafa út á „All branið“ og AB mjólkina. Okkur fannst verðið á rúsínunum svolítið ruglingslegt og fórum því í að skoða hvernig það hefur þróast undanfarið og niðurstaðan er hér fyrir neðan, það skal tekið fram að við höldum upp á alla strimla vegna matarinnkaupa og öll okkar matarinnkaup eru gerð í Krónunni í Mosfellsbæ.

Um er að ræða Champion rúsínur í dós, 500grömm í dósinni.

· 01.Nóvember 2008 189.oo
· 10. nóvember 2008 319.oo
· 21. desember 2008 349.oo
· 15. janúar 2009 229.oo
· 23. maí 2009 349.oo

Þetta er svolítið furðuleg verðlagning, stekkur upp og niður um tugi prósenta og held ég að svona sé með fleiri vörur en það kemur í ljós síðar.
Kveðja, Logi

Hrós hrós og aftur hrós

Mig langar að senda þér hrós til þriggja einstakra fyrirtækja:
Þessi fyrirtæki eru Beco, Langholtsvegi, Pixlar, Skeifunni og Innrammarinn á Rauðarárstíg.
Þau eiga það öll sameiginlegt að veita framúrskarandi þjónustu með bros á vör. Ég hef aldrei komið að tómum kofanum hjá þessum fyrirtækjum. Þetta er fyrirmyndarþjónusta og þau eiga svo sannarlega hrós skilið. Ég mun hiklaust beina viðskiptum mínum til þeirra um ókomna framtíð og láta orðið berast eins og ég mögulega get.
Með bestu kveðju,
Aníta

mánudagur, 25. maí 2009

Reið út í Vera Moda

Mig langaði að koma með ábendingu með skil á vöru.
Ég keypti mér kjól peysu í Vera Moda sem er ekki frásögu færandi.
Ég notaði flíkina í tvígang í góðri trú en vitir menn hún fór að hnökra talsvert mikið. Ég tek það fram að ég þvoði flíkina ekki og notaði ekki belti á hana.
Ég auðvitað fór með flíkina í búðina í Smáralindinni þar sem ég hafði keypt hana og vildi fá eitthvað annað í staðin. Það var mjög augljóst að það var galli í efninu.
Afgreiðslukonan sagðist þurfa að bera flíkina undir saumakonuna þeirra og hún mundi meta hvort þetta væri galli eður ei.
Ég hefði auðvitað viljað fá eitthvað annað strax í staðinn en samþykkti þó að bíða eftir mati saumakonunnar þó ég yrði að gera mér aftur ferð í Smáralindina.
Hún tók því flíkina hjá mér og setti í bréfpoka og skrifaði orðrétt á hann ‘’búið að vera í honum 2x, ekki búin að þvo hann, strax byrjaður að hnökra allur, pottþétt galli í efninu, hvað á að gera’’?
Þegar ég fór svo aftur í búðina til að fá mér eitthvað annað í staðinn fékk ég það í hausinn frá verslunarstjóranum að það væri ekki víst að það væri galli í efninu þar sem engin hafði skilað svona kjól áður.
Á sama miða og afgreiðslukonan hafði skrifað upphaflega um kjólinn svaraði saumakona og þá orðrétt ‘’ Verður að sýna nótu því þetta er vafamál hvort þetta sé galli eða eftir belti sem hefur skemmt efnið. Skiptum ekki nema gegn nótu’’
Ég sagði verslunarstjóranum að ég hefði ekki notað belti á hann og þá datt henni í hug að þetta gæti kannski verið eftir peysu eða eitthvað annað sem ég hefði kannski farið í yfir kjólinn sem átti að hafa þessi áhrif á kjólinn. (Spurning hvort það megi ekki nota belti né aðrar flíkur yfir eða á fatnað frá VERA MODA?)
Til þess að geta fengið einhverja aðra vöru í staðin átti ég að koma með nótu fyrir flíkinni sem ég var auðvitað löngu búin að henda. Hún bað mig þá að redda útprentun á kaupum á kjólnum og var þá farið að fjúka ansi mikið í mig og það gerist nánast aldrei. Ég spurði hvers vegna þar sem það væri mjög greinilegt að ég hefði keypt vöruna í Vero Moda þar sem kjólinn er merktur búðinni. Þá kom hún með þau rök að ég hefði getað keypt kjólinn erlendis en hún væri samt ekki að segja að ég hefði gert það.
Ég varð enn reiðari, tók pokann og sagði henni að ég myndi fara í neytendasamtökin.
Það er ótrúlegt að komið sé fram við viðskipavini á þennan hátt. Komið var fram við mig sem sakamann en ekki sem viðskipaVIN.
Þegar við eigum Vini í viðskiptum (viðskiptavin) þá gerum við allt fyrir hann þegar það er augljóst að flíkin er gölluð, við reynum ekki að gera viðskiptavini okkar reiða.
Ég segi þremur vinkonum frá, þær segja öðrum þrem frá og svo koll af kolli. Margfeldi tapsins er mikið miðað við eina úrelda vöru sem var BARA gölluð.
Kveðja
ViðskiptaVINUR

Ekki ánægð með Toyota

Ég á Toyota Rav4 sem ég fór með í 2 ára skoðun(eða 30.000 km skoðun) mér var sagt að hún kostaði 35.000 kr fyrir utan loftsíu(að mig minnir),ég spurði hvað væri innifalið í því verði sagði Ríkharður þjónustufulltrúi Toyota mér það að bremsur væru teknar í sundur, sandblásnar ofl. En þegar ég kom að sækja bílinn var reikningurinn mun hærri en um var talað, ég borgaði en hringdi aftur í Ríkharð sem brást vel við hann sagði að hún hefði verið rukkuð um bremsuklossa skipti á fullu verði (það var verið að rífa bremsurnar í sundur hvort sem er??? ) en það sem særir mig mest er þegar hann segir að þetta umframgjald sé alltaf rukkað (um 14.000kr bara vinnan) hjá Toyota í þessum skoðunum við bremsuklossa skipti, þess vegna vil ég vara fólk við þessu. Þetta prett á við 30-60-90-120 km skoðanirnar þar sem bremsur eru liðkaðar upp innifalið í verði (hvaða máli skiptir að setja nýja klossa í stað þeirra gömlu???? ).
Ég allavega fékk endurgreitt eftir að ég talaði við þá og hvet alla að ger hið sama, þetta kallast ÞJÓFNAÐUR.
Kv Íris Brynjólfsdóttir

Gulir vinnuvetlingar

Nú er tíminn til að vinna í garðinum og þá þarf maður að kaupa þessa
gulu vinnuvetlinga með gúmmílagi öðru megin. Ég hef verið að athuga
hvað þeir kosta í Býko, Garðheimum og Húsamiðjunni 760-897 kr takk
fyrir svo ég hætti við að kaupa þá, en ég átti leið í N1 (Bílanaust) og
þar eru svipaðir vettlingar á tilboðsverði 119 kr.
Ég byrgði mig upp af þessum vetlingum að sjálfsögðu.
Karl

Til útlanda fyrir 990 kr

Ég má til með að láta vita af hádegishlaðborði sem við „lentum“ á í hádeginu í dag hjá Basil & Lime á Klapparstíg.
Var víst fyrsti dagurinn hjá þeim þar sem opið er í hádeginu eftir endurbætur og gaman að sjá að útitjaldið er aftur komið í gagnið – mjög sumarlegt sumsé.
Nema hvað, á hlaðborðinu var gott úrval suður evrópskra rétta með íslensku ívafi. Dæmi um rétti sem ég man eftir voru spænsk paella, pasta með spínati og tígrisrækjum, pasta með kjötbollum og parmessan, nýbakað brauð, heimalagað pestó og hummus, rocket með buffaló mozzarella, ítölsk grænmetissúpa, nautakjöt í sósu, ofnsteiktar kartöflur með hnetum og hvítlauk, plokkfiskur (sem útlendingarnir sem voru þarna voru sérlega sólgnir í) og fleira sem ég kann ekki að nefna.
Sumsé mjög gott og frískandi en um leið saðsamt.
Fréttirnar eru hins vegar þær að fyrir herlegheitin þurftum við aðeins að borga 990 kr. á mann – sem er eingöngu 260 kr. dýrara en í ISS mötuneytinu í vinnunni!
Ekki mikið fyrir ferð til útlanda (útitjaldið er svona eins og í útlöndum sjáðu til)
Kv.
Ólafur Þór Gylfason

G(r)e(i)ðslag sumra starfsmanna Icelandair

Ég hef ósjaldan, sökum breytilegrar dagskrár, þurft að seinka flugi og breyta farmiðum - auðvitað með tilheyrandi breytingagjöldum. Gott og vel.
Það sem mér hefur þótt áhugavert er að verðið (fast breytingagjald og uppfærsla í dýrara sæti (ef ekkert "ódýrt" sæti býðst)) virðist fara eftir geðþótta starfsmanna Icelandair. Þetta hef ég reynt nokkrum sinnum - og fengið mismunandi niðurstöður þegar ég hef hringt með nokkurra mínútna millibili - og hefur þá munað tugum þúsunda.
Almennilegir og viðmótsþýðir starfsmenn virðast alltaf finna betra verð en þeir sem svara dónalega og eru sennilega löngu kulnaðir í starfi. Merkilegt!
Ég átti bókað flug með Icelandair til Kaupmannahafnar á dögunum. Þegar ég bókaði ferðina var töluvert ódýrara að bóka báðar leiðir en bara aðra.
Við innritun í Leifsstöð kom í ljós að ferðinni hafði verið eytt í kerfinu þar sem ég hafði ekki nýtt fyrri ferðina (hef aldrei lent í slíkum vandræðum hjá Icelandexpress). Mér var bent á að snúa mér á söluskrifstofuna - nokkrum metrum frá innritunarborðinu. Starfsmaðurinn þar sagði að miðinn væri sama sem ógildur og bauð mér að kaupa nýjan miða á rúmar fimmtíu þúsund krónur (í síður en svo fulla vél til Kaupmannahafnar)! Það þótti mér heldur mikið og spurði hvort fleiri vélar færu til Kaupmannahafnar þennan sama dag. Þá kom í ljós að vél keppinautarins átti áætlaða brottfor eftir klukkustund og þegar ég sýndi á mér fararsnið bað starfsmaðurinn mig að bíða þar sem hann vildi athuga hvað "þeir" myndu bjóða og átti sennilega við hærra settari samstarfsmenn sína á hinum enda tölvulínunnar. Eftir stutta stund (innan við mínútu) og lyklaborðsglamur kom í ljós að ég gat keypt nýjan miða (eða endurnýjað - eftir því hvernig á það er litið) á þrettán þúsund krónur. Ég tók auðvitað þessu einstaka tilboði án þess að orða hugsanir mínar sem slíkar til starfsmannsins við hann.
Þrátt fyrir að lenda reglulega í uppákomum sem þessum hef ég lítið aðhafst (fyrir utan nokkur hundsuð tölvuskeyti til Icelandair) vegna anna og samfélagslegs ábyrgðarleysis. Batnandi mönnum er best að lifa og eru skrif þessa bréfs er dauft mjálm en samt vonandi eitthvað.
Þess má geta að starfsstúlkan við innritunarborðið var einstaklega almennileg og sagði næst ætti ég bara að hringja og láta vita að ég myndi ekki nýta mér fyrri ferðina til að koma hugsanlega í veg fyrir svipuð vandræði. Ég held að það verði samt langt í næst.
Ég bendi fólki á að vera vakandi, spyrja spurninga og að kurteisi er dásamleg.
NN - nafnleyndar óskað

Nettó og Hreðavatnsskáli: Ekki að standa sig

Ég vil vara fólk við verðmerkingum í Nettó. Ég varð vitni af því um helgina að vöruverð í hillum í Nettó á Akureyri er ekki það sama og er á kassa. Við vinkonurnar vorun að versla í Nettó á Akureyri á laugardag er það kom í ljós að 3 vörutegundir (af mörgum sem hún var að kaupa) sem vinkona mín var að kaupa voru ekki með sama verð á kassa og hillu. Tæpum 1000 krónum munaði á einni vörunni. Svo var ég í Nettó í Hverafold í morgun og var meðal annars að kaupa tannkrem sem var verðmerkt í hillu á 259 krónur en á kassa var ég rukkuð um 499 krónur.Ég neitaði að borga 499 krónur og fór með starfsmanni að tannkremshillunni. Þá kom í ljós að sama tannkrem var með 3 verð í hillu og eitt á kassa. Hæsta verð var á kassa. Fólk þarf að passa sig á þessu, þetta virðist vera ásetningur en ekki mistök.
Svo vil ég vara fólk við að stoppa í Hreðarvatnsskála. Ég ásamt 35 öðrum vorum að koma frá Akureyri seinnipartinn í gær og ferðuðumst við í rútu. Stoppað var í Hreðavatnsskála og þar átti að fara á klósett (15 börn voru í hópnum) og kaupa eitthvað að borða. Röð myndaðist strax við þessar 2 snyrtingar sem þarna voru svo ég fór og keypti mér mjög dýra kristalflösku og bað um kaffi til að taka með. Kaffi til að taka með var ekki hægt að fá. Engir pappabollar voru til. Þá fór ég í klósett röðina. Pissa fyrst ,kaupa svo ekki satt?
Nei alls ekki.Kona kom strunsandi fram hjá röðinni,illileg á svip og sagðist ekki reka ALMENNINGSKLÓSETT,skellti klósetthurðunum í lás og sagði að þeir sem kaupa ekki fyrst fara ekki á klósett hreytti konan í börnin og rak okkur út. Ég gerði það en fékk samt ekki að nota klósettið þarna. Það var snarlega hætt við að kaupa 35 hamborgara og farið í Baulu. Þar má pissa fyrst og kaupa svo.
Kveðja, Birna

miðvikudagur, 20. maí 2009

Þrældómur áskrifenda Stöðvar 2

Datt í hug að deila þessari lífsreynslu:

Ég er áskrifandi að stöð 2, og mér datt í hug að segja þessari áskrift upp til þess að spara nokkra þúsundkalla á mánuði, reyndar marga þúsundkalla.
En nei, þar sem áskriftin hefur verið sjálfkrafa gjaldfærð á kreditkortið mitt, þá get ég ekki sagt upp áskriftinni nema með meira en mánaðarfyrirvara.
í dag er 19. maí, er það ekki nægur tími til þess að segja upp áskriftartímabili sem hefst 5. júní???
Nei segir stöð 2, það þarf að gera það fyrir 15. því þann mánaðardag er næsti mánuður gjaldfærður á kreditkort áskrifenda.
Gott og vel, en hvers vegna getur þetta fyrirtæki(365) ekki endurgreitt mér þjónustu sem ég vill ekki kaupa, þjónustu sem ég hef ekki hlotið, og mun
ekki hafa neinn áhuga á að hljóta. Hversu erfitt er það að???
Að endurgreiða eina færslu á kreditkort er mjög einfalt mál, en þess í stað er öll mín viðskiptavild eyðilögð og ég mun aldrei snúa mér að þessu fyrirtæki aftur.
Nafnleynd

Kex og Krónan

Er hægt að lágvöruverslunar eru að hækka verð mikið á sumar vörur sem
eru ekki líklegt að lenda í verðkönnunar til að halda verð á algengar
vörur sambærilegt við Bónus?
Ég keypti eitt pakka Merba "Brownie Cookies" kex í Fjarðarkaup í sl.
viku og pakkinn kostaði 238 kr. Kærastinn minn var mjög hrifinn af
kexunum og sagði mér að kaupa meira af þeim. Fyrir tveimur dögum fór
ég í Krónuna í Mosfellsbær og ætlaði að kaupa kex pakka þarna. En
verðið í Krónunni var 398 kr/pakka! Mér brá og ákvað að kaupa ekki
kexin. Svo fór ég aftur í Fjarðarkaup í dag og þá var hægt að kaupa
Brownie Cookies á 238 kr/pakka, sem ég gerði.
Mér fannst líka að verð á First Price musli í Krónu hefur hækkað mikið
í síðasta tveimur víkum, rúmlega 20%. Ég keypti það ekki heldur.
Kveðja,
Lowana Veal

Leyndarhjúpur yfir verði á herraklippingu

Ég pantaði tíma eftir hádegi í dag hjá rakarastofunni Laugavegi 178.
Svo hringdi ég aftur og spurði: "Hvað kostar herraklipping?"
"Það fer nú eftir ýmsu" var svarið.
"Ég meina bara venjulega herraklippingu, snyrta" sagði ég.
"Það er svo breytilegt."
"Eruð þið ekki með neina verðskrá?"
"Ég má ekki vera að því að ræða einhverja verðskrár greinargerð við þig í símann,
vertu blessaður!"
Maður inn á rakarastofunni skellti á mig!
Ég tek fram að þetta er stofan sem ég var vanur að fara á. Ekki lengur.
Ég skora á lesandann að hringja og spyrja hvað herraklipping kostar.
Kveðja, Kári Harðarson


PS: Ég gúglaði þessa stofu og fékk þessa síðu:
http://www.malefnin.com/ib/lofiversion/index.php/t93987.html

þriðjudagur, 19. maí 2009

Undarleg verð á kviðbelti

Ég var að eignast barn og er því að vinna í því að fá magavöðvana aftur og ákvað ég því að fjárfesta í kviðbelti sem sjónvarpsmarkaðurinn er að selja. En það væri ekki í frásögur færandi nema að fyrst þegar ég skoðaði beltið kostaði það 9.900 auglýst sem TILBOÐ-LÆKKAÐ VERÐ. Þetta var fyrir viku síðan, en svo í dag þegar ég ætla að ganga frá þessu kostar beltið 13.900 auglýst sem tilboð lækkað verð, verð áður 19.900. Er þetta leyfilegt ég bara spyr.
Ég hætti við kaupin og fann mun ódýrara belti á ebay
Eygló

Þögnin ein til svara?

Ég ákvað að leggja smá upphæð til ávöxtunar inn á Tvennu reikning hjá
Netbankanum sáluga. Reikningur þessi var verðtryggður með 36 mánaða
binditíma. Bankinn lofaði í skilmálum að í lok hvers árs yrðu vextir
Tvennu reiknings bornir saman við svokallaðan Markaðsreikning
(óverðtryggðan reikning) og skyldi ég hljóta þá ávöxtun er hærri væri
hverju sinni.
Nú þekkja flest allir að Nýja Kaupþing yfirtók rekstur, skuldir og
innistæður á reikningum Netbankans.
Af þessu tilefni hafði ég samband við Nýja Kaupþing til að fá vitneskju
um innistæðu mína. Jú hún var þarna, komin inn á "Stjörnubók" á lægri
vöxtum en áður og þegar ég innti eftir kjörum kom á daginn að
fyrrgreindir samanburðarvextir voru ekki til boða hjá hinu Nýja
Kaupþingi. Sem sagt Nýja Kaupþing hafði hirt peningana mína út úr
Netbankanum, en ekki kjörin mín.
Ég var ekki sáttur við þennan framgangsmáta og bað Nýja Kaupþing um að
aflétta 36 mánaða binditíma af bókinni minni svo ég gæti leitað nýrra
ávöxtunarleiða.
Nýja Kaupþing svaraði ekki beiðni minni og leitaði ég því til
Umboðsmanns neytenda, hann svaraði ekki. Þá hafði ég samband við
Neytendastofu sem benti mér á Fjármálaeftirlitið. Þar liggur kvörtun
mín og beiðni um afléttingu á bindiskyldu um þessar mundir. - Allt er
þetta á eins hendi, RÍKISINS, þar sem hver bendir á annan án þess að
svara réttmætum fyrirspurnum og beiðnum um úrlausnir. - Spurning hvort
við séum á fullri siglingu við að taka upp ekki-úrlausnir kenndar við
hið ágæta Parkinson lögmál?

Kv. G.Geir