mánudagur, 28. mars 2011

Ódýr gleraugu á netinu

Eins og flestir vita, þá eru gleraugu á Íslandi mjög dýr. Þar sem ég þarf gleraugu, þá fór ég í 2 gleraugnaverslanir í RVK, og það ódýrasta sem ég fann, glært gler, og ljót umgjörð - og verðið = 25.000.
Þá að sjálfsögðu stökk ég á netið googlaði - prescription eyeglasses, og upp kom mikið úrval af ódýrum gleraungabúðum.
Þar lagði ég inn pöntun, valdi umgjörð, setti inn upplýsingar af recepti mínu - og bað um gleraugu sem dekkjast í sólgleraugu, þegar sól er.
Er búin að fá gleraugun, og allt stóðst.
Eini aukakostnaður var virðisauki (um 3500 krónur).
Þannig að heildarkostnaður var um 15.000 krónur með virðisauka og flutningi.
Hér er tengill á þau gleraugu sem ég keypti,og þau dekkjast í svart.

http://www.goggles4u.com/detail.asp?Pid=47478

Einnig eru ódýrar verslanir í Evrópu. Googla bara, prescription eyeglasses - eða prescription sunglasses.

Þetta er einnig mun ódýrara en í fríhöfninni.

Varðandi recept, þá er mikilvægt að augnlæknir setji einnig inn PD gildi á receptið - það er fjarlægð milli augasteina. Þetta er yfirleitt autt - og gleraugnabúðir mæla þetta - en læknirinn á að setja þetta inn.

Dóri

Okurverð á Dóru fiskabúrum í Dýraríkinu

Ég fór í Dýraríkið um helgina og varð frekar hissa þegar ég sá Dóru fiskabúr á uppsprengdu verði miðað við hvað er hægt að kaupa þetta á t.d á Amazon.com
Í kjölfarið bloggaði ég um það, en það er hægt að lesa bloggið hér http://www.barbietec.com/subpage2.php?BloggID=3353

En þeir eru að selja:

4 gallon Dóru búr á 19.653 kr. sem kostar 53$ á Amazon
2 gallon Dóru búr á 15.095 kr. sem kostar 24$ á Amazon

Ef við reiknum gróflega gengið (x116) þá erum við að tala um
19.653 kr. - 6.148 kr. = 13.505 kr. mismun!
15.095 kr. - 2.784 kr. = 12.3011 kr. mismun!

Kær kveðja,
Sigrún Þöll

sunnudagur, 27. mars 2011

Krónan - verðmerkingar í rugli


Verðmerkingarnar í Krónunni hafa stundum verið til umræðu hér, og ekki af góðu. Þær mættu vera mun betri. Í gær í Krónunni í Mosfellsbæ rak ég augun í þessar ristuðu kókosflögur í ágætri heilsudeild. Eins og sjá eru verðmerkingarnar í rugli. Sama vara er merkt á tvo vegu, hlið við hlið:

Himnesk Hollusta Kókosfl - 1356 kg - 339 kr.

Himn. Hollus Ristaðar kóko - 1796 kg - 449 kr.

Nú tímdi ég að kaupa þetta á 339 kall en ekki á 449 kall, en þar sem ég nennti ekki því veseni að komast til botns í málinu ákvað ég bara að sleppa þessu alveg. Lélegar merkingar eru því bæði vont mál fyrir framleiðslufyrirtækið og búðina.

Vanda sig! Það getur varla verið svona erfitt að hafa þetta í lagi.

Dr. Gunni

föstudagur, 25. mars 2011

Ódýrara á icelandicmusic.com en tonlist.is

Ég hef nú aldrei skrifað hingað áður en fljótt á litið er þetta svo óeðlilegt að ég varð að senda þetta inn.
Þannig er að ég bý erlendis og get keypt ótakmarkaðan aðgang að tónlist hér fyrir tæpar 900 ISK. á mánuði, þar er einnig innifalið eitthvað af íslenskri tónlist.
Nú í tilefni þess að þeir hjá Stef vilja leggja einskonar "Stefgjöld" á internettengingar Íslendinga kíkti ég til gamans á tonlist.is til að skoða verðin þar og síðan "systur" síðu þeirra icelandicmusic.com, sem virðist vera þýdd útgáfa af íslensku síðunni.
Fljótt á litið er síðan nákvæmlega eins en svo rak ég augun í að upphæðin sem vafrarar staddir erlendis borga fyrir tónlist er 20-30% lægri en er uppgefið verð fyrir Íslendinga.
Sem dæmi kostar vinsælasta lagið á tonlist.is Ísabella með Bubba Morthens 149 ISK en $0.99 á icelandicmusic (115 ISK), vinsælasta platan Kimbabve með Retro Stefson kostar 1599 ISK á tonlist.is en $9.99 a icelandicmusic (1150 ISK).
Það væri fróðlegt að vita hvort það sé einhver eðlileg skýring á þessum verðmun.
Að lokum sé ég að eins mánaðar aðgangur að ótakmarkaðri íslenskri tónlist á icelandicmusic kostar $14.90 (1711 ISK). Á tonlist.is kostar sami aðgangur kr. 1995.
kv.
Nafnlaus

miðvikudagur, 23. mars 2011

Vesen með bakflæðistöflur

Fór til heimilislæknisins vegna bakflæðis og meltingartruflana. Hann skrifar resept á Omeprazol Actavis sem eru 20 milligröm. Borga um fjögur þúsund kr, ok þetta eru 56 töflur. Þegar ég opna pakkninguna er bara ál, þarf á beittuum hníf til að opna fyrir hvert hilki. Hlægilegt, þeir eyða fullt af peningum í pakkningar. Þegar mér loks tekst að opna vantar pillur í pakkninguna! Yes, er að segja sanleikann, það voru 3 hólf tóm. Ótrúlegt og ég veit ekki hvað á að segja, eina orðið er SKÖMM. Eyða peningum í álpakkningar fyrir hvert hilki sem er erfitt að opna (þarf hníf eða skæri) og svo vantar í pakkann. Er orðlaus að þetta sé hægt í dag. Verum vakandi neytendur, annars er létt að fara með okkur eins og hálfvita.
SS

föstudagur, 18. mars 2011

Dýrt kók í Pólís

Ég fór í dag í verslunina Pólís í Skipholtinu til þess að kaupa 2. lítra kók.
2. lítra kók í sjoppunni kostar 450 kr. Kannski er það svona dýrt því ég fékk plastpoka með (var komið gat á hann þegar ég kom heim. Ég hoppaði beint upp í bíl með kókið í pokanum, þannig að ekki var það hnjask sem skemmdi fína hvítglæra pokann).
Ég fattaði hvað ég eyddi í þetta kók þegar ég kom heim, og mig langaði mest til að skila því. Okurbúlla!
Til gamans, þá sá ég fagmannlega útprentaðan miða í hillunni í sjoppunni sem tekur fram að ekki sé hægt að borga með debetkorti sé upphæðin undir 300 kr. Why even bother?
Kv,
Nafnlaus

Munur á verði "gardínurúlla"

Ég þurfti að kaupa gardínurúllur (curtain gliders á ensku, plastdót sem fer í gluggatjalda-brautir (z-brautir)). Fór í Vogue, fékk þar pakka með 100 stk á 1500 kr. Ég þurfti svo að kaupa fleiri rúllur núna í vikunni og fór þá í Z brautir þar sem pakki með 100 stk kostaði aðeins 705 kr. Ég hef reyndar fengið mjög góða þjónustu á báðum stöðum en fannst þetta mikill verðmunur.
Kv, Hulda

fimmtudagur, 17. mars 2011

Dýr flakkari í Eldhafi

Var að skoða flakkara hér á Akureyri og var næstum því búin að kaupa mér einn í Eldhaf á Glerártorgi (sem er með umboð fyrir Apple) á 22.990kr. Ákvað að skoða betur í Tölvulistanum og fann alveg eins flakkara á 12.900kr.

Sami flakkari:

WD Elements 1 TB/To er á 12.990kr. í Tölvulistanum, en er á 22.990kr. í Eldhaf.
WD Elements 2 TB/To er á 21.990kr. í Tölvulistanum, en er á 34.990kr. í Eldhaf.

Kveðja, Karen.

miðvikudagur, 16. mars 2011

Bónus oftast lægst í verðkönnun ASÍ

Nýjasta verðkönnun ASÍ er komin á netið. Niðurstöðurnar eru svipaðar og vanalega, Bónus oftast lægst (Kostur næst oftast), en Samkaup-úrval hæst.

N1 og bílavarahlutaverzlanir

Ég vil sýna fram á okrið sem viðgengst hjá N1 (Bíldshöfða, gamla Bílanaust). Nú stendur þetta fyrirtæki ansi tæpt og verðin eru löngu komin upp fyrir alla hófsemi í álagningu.

Fyrra verðdæmið er aðal-ljósaperur í bíl (t.d. H4, H7). Þessar perur voru i kringum 3500 kr. í Bilanaust (stk.), en um leið og við fórum í t.d. ET vörubila þá var möguleiki að fá perurnar á í kringum 800 kr. stk. (Báðar perur eru frá Osram, svo sama tegund hér).

Seinna verðdæmið er að ég keypti dempara i Mercedes Benz sem eg á, verðið sem ég fekk uppgefið hjá Bílanaust var 15 þús kr. stykkið, en svo skrapp ég í Bíla-Doktorinn (nýlegt verkstæði sem er að flytja inn varahluti og gera við Benza). Þar fékk ég þá báða saman á 17 þús. kr.
Semsagt næstum helmingi ódýrara.

kv. Hlynur Stefánsson

Ódýr ís í 10-11!!!

Langar bara að vekja athygli á einu. Fer stundum sérferð í 10/11 til að kaupa ís.
Ekki það að 10/11 sé ódýrasta búllan í bænum en þar er seldur ís frá Kjörís í
nokkrum bragðtegundum; bananasprengju, tromp, konfekt og piparmyntuís. Mig minnir að dollan sé á 290 kr til eða frá sem er nokkuð gott fyrir ís og það í 10/11. Það er ekki eins og þetta sé e-ð tilboð hjá þeim, þetta verð er búið að vera síðan allavega í sumar. Ég er sko með puttana á ísnum ;)
Var svo stödd í ísbúðinni Ís-landi um helgina og rak þar augun í nákvæmlega sama ísinn í dollu á 700 krónur. Ok, en mér finnst þetta alveg muna slatta, verð ég að segja, og mig munar alveg um aurana mína. Maður fær því 2 dollur á sama verði og ein í Ís-landi. Er þetta ekki aðeins of mikið?
Kv. Ís-Hildur :)

laugardagur, 12. mars 2011

Ný fjáröflunarleið Símans

Ég er viðskiptavinur Símans. Ég er með heimasíma, internettengingu, GSM og sjónvarp Símans. Stuttu eftir að ég fékk sjónvarp símans datt myndlykill út. Ég fór eftir leiðbeiningum þeirra sem sett höfðu upp þjónustuna og kippti blessuðum lyklinum úr sambandi, beið í 30 sekúndur stakk í samband og fór eftir leiðbeiningum sem birtust á skjánum. Ekkert samband náðist og upp komu skilaboð um að hringja í þjónustuver Símans, sem ég og gerði. Þeirra ráðleggingar voru að taka úr sambandi, bíða í 30 sek og setja aftur í samband sem var og gert en virkaði ekki. Beðið var um mann á staðinn, en þar sem þetta var á laugardegi var ekki hægt að fá mann fyrr en eftir helgi. Seinna um kvöldið datt sjónvarpið inn aftur án þess að nokkur hefði reynt að laga það. Á mánudegi var hringt frá Símanum og spurt hvort ég vildi enn fá mann á staðinn. Ég afþakkaði, enda sjónvarpið farið að virka. Þessi prósess gerðist nokkrum sinnum, þ.e. að myndlykill datt út og ekki virkaði að endurræsa og því hringt í símann í kjölfarið. Í öll þau skipti var afþakkað að fá mann heim. Svo gerist það snemma í desember að hringt er í mig frá Símanum og mér tjáð að vegna tíðra kvartana frá mér hafi þeir fylgst með systeminu og það væri greinilega eitthvað að og hvort þeir mættu senda mann á staðinn til að líta á þetta. Auðvitað samþykkti ég enda var ekkert nefnt að þessi þjónusta væri í minn reikning. Maður mætti á staðinn og fiktaði í einhverri tengingu í vegg, sem var nýbúið að leggja af rafvirkja. Myndlykillinn batnaði ekkert við þessa "viðgerð". Amk eru allir heimilismenn orðnir vel sjóaðir í prósessnum. Það næsta sem ég veit er að það kemur reikningur frá Símanum fyrir þessa "þjónustu". Ég var ekki sátt og bað um útskýringar og sagði sögu mína en Síminn segir fullum fetum að ég hafi beðið um "þjónustuna" og því standi reikningurinn. Ég bað um að fá heyra upptöku símtalsins þar sem ég á að hafa beðið um þessa þjónustu og hef eftir það ekkert heyrt frá Símanum. Ég hef sent athugasemdir mínar 4 sinnum til þjónustuvers og tvisvar til upplýsingafulltrúa, sem er eina netfangið sem gefið er upp á heimasíðu Símans en fæ engin svör. Einu viðbrögðin sem ég hef fengið er að "skuldin" er komin í innheimtu hjá Momentum.
Best af öllu er síðan að reikningurinn er sendur á manninn minn, sem er alls ekki skráður viðskiptavinur Símans.
Mér finnst persónulega alveg svívirðilegt að hringja í viðskiptavin, tilkynna bilun og fá að koma og "laga" og senda svo reikning fyrir viðvikið.
Ragna

fimmtudagur, 10. mars 2011

Karlakór Reykjavíkur rukkar fyrrverandi styrktarfélaga

Fyrir mörgum árum gerðist ég styrktaraðili Karlakórs Reykjavíkur og greiddi árlega í nokkur ár eftir það fyrir tvo miða á tónleika hjá þeim og naut þess árlega að hlusta á stórkostlegan söng þeirra.
Árið 2007 breyttust aðstæður og sagði ég þá þessari áskrift upp með tölvupósti og fékk ég staðfestingu um móttöku frá þeim.
Árið 2008 fékk ég senda miða ásamt tilkynningu um að andvirði miðana yrði dregnar af kreditkortinu mínu. Ég sendi þá aftur uppsögn og fékk staðfestingu um móttöku ásamt afsökunarbeiðni og að þetta myndi ekki endurtaka sig.
Stóð ég nú í þeirri meiningu að þetta væri allt frágengið en sú var ekki raunin.
Í síðustu viku fékk ég senda miða ásamt tilkynningu um að 4000 kr yrðu dregnar af kortinu. Í þriðja skiptið fór ég af stað og sagði upp áskriftinni og fékk um hæl afsökunarbeiðni og að þetta myndi ekki endurtaka sig.
Mér datt í hug að skoða færslur á kortið mitt aftur í tímann. Þar var færsla frá maí 2010 frá Karlakórnum að upphæð kr 4000 sem hafði einhvern veginn farið framhjá mér.
Þetta er því miður ekki eina tilfellið sem ég hef lent í varðandi aðild að styrktarfélögum, og þetta er ekki til þess að hvetja mig í að styðja þau í framtíðinni.
Nafnlaus

Er Krónan vísvitandi að reyna að blekkja neytendur?


Eftirfarandi mynd er úr blaði Krónunnar sem kom til mín í morgun (10.03.2011)
Ég bara spyr: Er krónan vísvitandi að reyna að blekkja neytendur?
(Skoðaðu myndina með því að smella á hana)
HHH

miðvikudagur, 9. mars 2011

Afsláttur bensínfyrirtækjanna

Ég er að spá með þessa blessuðu dælulykla og afsláttarkort sem olíufélögin eru að bjóða. Nú er ég búinn að vera með bílpróf í 7 ár og bensínverðið hefur stökkbreyst á þessum 7 árum. Man eftir því í 90 kallinum minnir mig um það leiti sem ég fékk bílpróf.
Þannig þetta hefur hækkað alveg ógeðslega mikið. EN! Þessi afsláttarkort og dælulyklar sem olíufélögin eru að bjóða uppá eru náttúrlega bara einn brandari. Ég fékk þessar sömu 2 kr í afslátt fyrir 7 árum síðan þegar bensínverðið var um 90 kr á lítrann. Enn þann dag í dag þegar verð á líternum er búið að hækka um 140 kr síðan þá er ennþá verið að bjóða uppá 2 kr afslátt af lítranum. Hvað halda olíufélögin að við almenningur séum? Hvernig væri nú að olíufélögin myndu nú hækka þennan afslátt hlutfallslega jafn mikið og líterinn hefur hækkað?


Kveðja

Er Gott kort gott kort?

Er með smávegis nöldur út af Góðu Korti. Gott Kort er vel auglýst á Kananum
FM 100,5 þá af Einari Ágústi. Ég ákvað að fá mér svona kort út af
tilboðunum. Ég fékk mér fyrirframgreitt kort. Ég legg inná það 5000 kall
og ætla að versla hlut sem kostar 3.990 krónur en sorry ekki heimild. Ég
hringi niður í Gott kort til að fá útskýringar. Þar stóð ekki á svörunum,
árgjaldið væri 7.900 krónur og væri dregið af fyrstu innborgun á kortið.
Einar Ágúst minnist hvergi á þetta, bara á tilboðin og sparnaðinn. Ég
sagði upp kortinu hið snarasta. Þetta þykir mér lélegt að minnast ekki á
árgjaldið í auglýsingunum. Hef einnig heyrt um fólk sem hefur ekki lagt
inn á þetta en hefur fengið svona kort og fengið reikning í netbankann
fyrir árgjaldinu.

Nafnlausi nöldrarinn

Tékkland ódýrast

Athyglisvert er að skoða verð á bifreiðaskoðun. Þetta er þjónustu sem er sambærileg alls staðar, þ.e. það er ekki "betri" skoðun á einum stað en öðrum.

Verð á venjulegum bíl (undir 3500 kg):

Aðalskoðun: 8.680 kr
Frumherji: 8.400 kr
Tékkland: 7.495 kr

Tékkland
kom nýlega inn á markaðinn og er með þrjár stöðvar, Reykjavíkurvegi 54, Hafnarfirði; í Holtagörðum; og nýja stöðin er í Borgartúni 24.

Aðalskoðun og Frumherji hafa ekki lækkað sig við þessa ódýru samkeppni, amk ekki ennþá.

Dr. Gunni

laugardagur, 5. mars 2011

Dýr áskrift - fær sér frekar gervihnattardisk

Það ætti að leggja þessa stofnun niður!

Stöð 2 - 7.235 kr
Stöð 2 Sport - 6.400 Kr
Stöð 2 Sport 2 - 6.295 Kr
HD Myndlykill - 1.200 Kr (Fast gjald á mánuði þó þú sért með áskrift)
Sport HD - 595 Kr (ótrúlegt að þetta skuli vera viðbótarverð þegar þú ert þegar að borga fyrir báðar sport rásirnar og aukaverð fyrir HD lykil!)
Samtals 21.725 fyrstu 4 mánuðina.

Stöð 2 - 7.235 kr
Stöð 2 Sport - 6.400 Kr
Stöð 2 Sport 2 - 6.295 Kr
Cam-kort - 4.000 Kr (start kostnaður)
Leigugjald - 500 kr (Fast gjald á mánuði þó þú sért með áskrift)
Sport HD - 595 Kr
Samtals 25.025

Ég held að ég noti þetta mánaðargjald frekar til að henda gervihnattardisk á svalirnar.
Kv, Magnús

föstudagur, 4. mars 2011

Bestu bollu-kjörin?

Nú styttist í bolludaginn.
Ég fór í smá leiðangur áðan og fyrst var leiðinni heitið í Krónuna, en í nýja
bæklingnum þeirra auglýsa þeir 2 vatndeigsbollur á 319 krónur, sem er fínt
verð, hins vegar voru þær ekki til.
Þá fór ég í bakaríið Kornið sem er nánast hliðin á Krónunni í Hafnarfirði, þar
var mér ofboðið. Ein lítil og ræfilsleg vatnsdeigs bolla í Korninu kostaði 380
krónur!
Ég fór næst í Fjarðarbakarí í Hafnarfirði og þar kostaði ein vatnsdeigs bolla
320 krónur sem er nú skömmini skárra miðað við bakarí og sú bolla var líka
stærri.
P.s Ég hvet fólk til þess að koma með fleiri verðdæmi af bollum :)
Kv. Haraldur Arnarsson

miðvikudagur, 2. mars 2011

100 kr. að fá sent email frá Arion Banka

Það kostar 100 kr. að fá senda kvittun um millifærslu rafrænt í emaili þegar maður millifærir hjá Arionbanka.
Það er okur.
Kvittun á pappír, send heim til manns kostar einnig 100 kr. Þetta er eini staðurinn sem ég hef átt viðskipti við þar sem kostar að fá kvittun.
-Kolbeinn Hugi