laugardagur, 12. mars 2011

Ný fjáröflunarleið Símans

Ég er viðskiptavinur Símans. Ég er með heimasíma, internettengingu, GSM og sjónvarp Símans. Stuttu eftir að ég fékk sjónvarp símans datt myndlykill út. Ég fór eftir leiðbeiningum þeirra sem sett höfðu upp þjónustuna og kippti blessuðum lyklinum úr sambandi, beið í 30 sekúndur stakk í samband og fór eftir leiðbeiningum sem birtust á skjánum. Ekkert samband náðist og upp komu skilaboð um að hringja í þjónustuver Símans, sem ég og gerði. Þeirra ráðleggingar voru að taka úr sambandi, bíða í 30 sek og setja aftur í samband sem var og gert en virkaði ekki. Beðið var um mann á staðinn, en þar sem þetta var á laugardegi var ekki hægt að fá mann fyrr en eftir helgi. Seinna um kvöldið datt sjónvarpið inn aftur án þess að nokkur hefði reynt að laga það. Á mánudegi var hringt frá Símanum og spurt hvort ég vildi enn fá mann á staðinn. Ég afþakkaði, enda sjónvarpið farið að virka. Þessi prósess gerðist nokkrum sinnum, þ.e. að myndlykill datt út og ekki virkaði að endurræsa og því hringt í símann í kjölfarið. Í öll þau skipti var afþakkað að fá mann heim. Svo gerist það snemma í desember að hringt er í mig frá Símanum og mér tjáð að vegna tíðra kvartana frá mér hafi þeir fylgst með systeminu og það væri greinilega eitthvað að og hvort þeir mættu senda mann á staðinn til að líta á þetta. Auðvitað samþykkti ég enda var ekkert nefnt að þessi þjónusta væri í minn reikning. Maður mætti á staðinn og fiktaði í einhverri tengingu í vegg, sem var nýbúið að leggja af rafvirkja. Myndlykillinn batnaði ekkert við þessa "viðgerð". Amk eru allir heimilismenn orðnir vel sjóaðir í prósessnum. Það næsta sem ég veit er að það kemur reikningur frá Símanum fyrir þessa "þjónustu". Ég var ekki sátt og bað um útskýringar og sagði sögu mína en Síminn segir fullum fetum að ég hafi beðið um "þjónustuna" og því standi reikningurinn. Ég bað um að fá heyra upptöku símtalsins þar sem ég á að hafa beðið um þessa þjónustu og hef eftir það ekkert heyrt frá Símanum. Ég hef sent athugasemdir mínar 4 sinnum til þjónustuvers og tvisvar til upplýsingafulltrúa, sem er eina netfangið sem gefið er upp á heimasíðu Símans en fæ engin svör. Einu viðbrögðin sem ég hef fengið er að "skuldin" er komin í innheimtu hjá Momentum.
Best af öllu er síðan að reikningurinn er sendur á manninn minn, sem er alls ekki skráður viðskiptavinur Símans.
Mér finnst persónulega alveg svívirðilegt að hringja í viðskiptavin, tilkynna bilun og fá að koma og "laga" og senda svo reikning fyrir viðvikið.
Ragna

31 comments:

  1. Úff, finnst þetta ömurlegt. Ekki láta undan, þeir segjast taka upp símtöl svo að þeir ættu að geta séð sjálfir hvort beðið var um þjónustuna.
    Hætti að versla við símann um leið og ég hafði eitthvað val sjálf og hef svo sannanlega ekki séð eftir því!

    SvaraEyða
  2. Þetta eru mjög sérkennileg vinnubrögð og alls ekki sanngjörn gagnvart viðskiptavini í áskrift. Eigum við ekki bara að segja: "Argasti dónaskapur og ófagmennska" ? Dónaskapur að svara ekki. Ófagmennska að láta þig axla allan kostnaðinn af búnaði sem er hugsanlega bilaður hjá þeim. Af þeirra eigin sauðshátt. Viðgerðin skilaði engum árangri. Kanski er eitthvað að tengingunni að þeirra völdum ? Það að þeir hringdu að eigin frumkvæði má túlka á tvo vegu. Afbragðs eftirfylgni eða að það má líta þannig á að Síminn eða "verktakinn" sé að mjólka viðskiptavinina. Vantar verkefni.
    Gefa út reikning á rangan aðila, telst ekki löglegt. Sá reikningur er ógildur og því ekki hægt að innheimta hann. Var kvittað gegn móttöku heimsóknar viðgerðamanns ? Er viðgerðarmaður með réttindi ? Kannaðu þetta ?
    Ég ráðlegg þér að hætta hjá Símanum og fara yfir í Vodafón. Ég veit að Vodafón kæmu aldrey svona fram (við mig) allavega. Hin leiðin er að hringja í lögmann og fá ráðleggingar um viðbrögð við innheimtunni og láta hart mæta hörðu. Það eru alltaf leiðir !

    Kveðja, Hákon

    SvaraEyða
  3. Sammála þeim sem skrifa hér. Þú átt ekki að borga fyrir viðgerðina sem þú baðst ekki um. Mér finnst þessi saga samt mjög klassísk fyrir Símann. Þetta fyrirtæki virðist þrífast á óheiðarlegum vinnubrögðum. Margdæmt fyrir samkeppnislagabrot og nú síðast voru starfsmenn staðnir að því að breyta áskriftarleiðum viðskiptavina til að skara eld að eigin köku.

    Hættu bara viðskiptum við fyrirtækið og slepptu því að borga reikninginn. Láttu lögmann í málið og þá fella þeir þetta niður - enda er réttlætið ekki þeirra megin í þessu.

    SvaraEyða
  4. Ég hef átt í rosalegu veseni með (af)ruglara frá Símanum. Endalaust lent í því að allt frýs, afruglarinn svarar engu og svo fr.v. Þeir sem hafa svarað mér í þjónustuverinu hafa alltaf látið eins og ég sé sú eina sem lendi í þessu þangað til um daginn að ég lenti á einum heiðarlegum starfsmanni sem viðurkenndi að þetta væri "útbreitt vandamál" þeir sem lentu verst í þessu væri fólk sem hefði haft breiðbandið sem hefði verið stabílt og aldrei klikkað en lenti svo í þessu endalausu veseni

    SvaraEyða
  5. Nákvæmlega það sama er að gerast hjá mér, mun segja upp allri þjónustu við símann á mánudaginn.Hef síðustu 14 daga síðan ég fékk afruglarann verið meira og minna sjónvarpslaus.

    SvaraEyða
  6. Sama hjá mér. Þessir afruglarar þeirra eru algert rusl. Ef maður ætlar ekki að missa af fréttunum á kvöldin þarf maður að ræsa draslið allavega korteri fyrr, því þó að kveikt hafi verið á boxinu allan daginn þá er það mjög oft frosið á þeirri rás og ekkert dugan nema að endurræsa draslið. Og það getur tekið ansi margar mínútur.

    Þeir verða að bæta þjónustuna annars er ég farinn.

    SvaraEyða
  7. Sama trikkið með Internetið. Netið dettur út. Maður hringir í þjónustuver Símans. "Við verðum að senda mann til að athuga línurnar". (Securitas var nýbúið að yfirfara símalínurnar hjá mér, allt í fína lagi). Ég sagði þeim að línurnar væru í fullkomnu lagi og benti þeim á að ég væri með TVÆR internettengingar, en bara önnur virkaði. Þá datt sú seinni út og þjónustufulltrúinn vildi aftur senda mér mann til að athuga línurnar. Þessu mótmælti ég harðlega Þá hringdi einhver frá Símanum og bauð mér betri tengingu, eitthvert ljósnet. Ég sagðist sjá í gegn um þessa helvítis þvælu og svindl hjá Símanum!
    Viti menn þá duttu báðar tengingarnar inn og hafa síðan virkað fullkomlega.
    Er þetta í lagi? Er ekki eitthvað að hjá Símanum?

    SvaraEyða
  8. Ein spurning, hvers vegna skiptið þið við símann ef þið eruð svona óánægð með hann. Sannast hér ekki hið fornkveðna, þangað leitar hundurinn sem hann er kvaldastur
    Guðmundur

    SvaraEyða
  9. Alveg magnað hvað fólk nennir að skipta við þetta lið hjá símanum,ég var þar en gafst upp vegna endalausra truflana í sjónvarpinu þegar ég var með ADSL, eftir að ég fékk ljósleiðara hætti ég hjá þeim og færði mig til Vodafone og ekkert hefur kilkkað síðan

    SvaraEyða
  10. Ég lenti í því að sjónvarpið datt út og eftir að hafa farið að leiðbeiningum gegnum þjónustuver símans og ekkert gekk,var mér sagt að það þyrfti að senda mann. Ég var orðinn nokkuð viss um að vandamálið væri routerinn og sagðist geta komið með hann og hvort ég fengi ekki bara nýjan. Svarið var nei, það væri ekki leyft að fólk væri að koma með þessa hluti í viðgerð. Þar með lauk því samtali og maðurinn væntanlegur. Ég fékk þá lánaðan eldri router sömu tegundar og ég var með, og viti menn þá virkaði sjónvarpið. Ég hringdi aftur í sama mann í þjónustuverinu og sagði honum frá þessu og spurði hvort ég fengi ekki nýjan router fyrst þetta væri augljóslega vandamálið og hann væri orðinn nokkura ára gamall. "Nei notaðu bara þennan gamla sem þú fékkst lánaðan, hann er bara betri ef eitthvað er, þú þarft bara að "upgraida" hann á netinu. Já, og ertu svo til í að koma með hinn og skila honum?" Ég svaraði að hann gæti sent mann á kostnað símans að sækja hann það væri víst ekki leyfilegt fyrir mig að þvælast með þessa hluti milli húsa. Svo sagði ég upp "þjónustunni" og hef ekki séð eftir því.

    SvaraEyða
  11. Vandamálið er, að þó að Síminn noti Sikileyjarvörn á viðskiptavini sína þá nota hin fyrirtækin enn lúmskari brögð í tafli.

    SvaraEyða
  12. Sæl Ragna.
    Sem fyrrverandi starfsmaður hjá Símanum þá veit ég hvernig þetta virkar þarna, eða a.m.k virkaði.
    Þegar svona bilanir eins og hjá þér koma upp, þá eru tengingar settar í eftirlit (monitoringu).
    Oft kemur í ljós bilun miðlægt í símstöð, stundum einfaldlega skipt um prófíl á þeirri tengingu sem á við.
    Ef það virkar ekki, þá er oft horft til þess að tengipunktar hjá viðskiptavini geti verið bilaðir.
    Samkvæmt þinni lýsingu er málið verið sett í þennan feril, því að bilanatilkynningin þín var haldið áfram "lifandi" í CRM kerfi Símans.
    Það er rétt hjá Símanum, að þegar maður er sendur heim til viðskiptavinar, þá er það alltaf á reiking viðskiptavinar svo fremi að línur að inntaki séu ekki bilaðar.
    Ef hinsvegar málið leystist hvort sem er ekki, og að Símanum hefur ekki tekist að sýna fram á beiðni þína um að þú hafir pantað téðan mann fyrir fyrrgreinda heimsókn, þá ber þér ekki að greiða. Sönnunarbirgðin er Símans þarna.
    Sendu línu á framkvæmdastjóra Einstaklingssviðs hjá Símanum ( hún heitir Anna Björk) eða talaði við Lögfræðisvið Símans. Þessir aðilar ætti að stoppa málið enda hallar of mikið á Símann þarna til þess að málinu verið haldið áfram til streitu.
    Gangi þér vel

    SvaraEyða
  13. Tilkynnti um bilaðan afruglara á fimmtudaginn en hann datt út og var málið sett í vinnslu, hringi nokkru sinnum á fimmtudeginum og var sagt að það kæmi maður daginn eftir, þ.e. á föstudeginum, hringdi þá, þegar liðið var á daginn og var sagt að þeir gæfu sér einn til þrjá virka daga í þetta og ég yrði bara að bíða en þeir myndu skoða þetta á morgun, þ.e. í dag laugardag, hringdi í dag og var sagt það sama að þeir gæfu sér einn til þrjá virka daga og ég yrði að bíða fram á mánudag þar sem þeir væru ekki að vinna á laugardögum. Er sem sagt búinn að vera sjónvarpslaus frá fimmtudegi og þá fram á mánudag en það verður fimmtidagurinn sem við erum án sjónvarps, er að sjálfsögðu búinn að óska eftir tilboði frá OV en finnst þetta bara léleg þjónusta fyrst af öllu. Enda svo sem ekki við öðru að búast. Ekki geðslegar fréttirnar af þessu fyrirtæki.
    arnars

    SvaraEyða
  14. Sagði mig frá Símanum fyrir 6 árum og hef verið hjá Tal og Vodafone síðan.
    Tal eru fínir. Vodafone eru frábærir.

    Fyrirtækið mitt sagði líka upp stórum þjónustusamningi við Símann eftir endalaust vesen og færði sig yfir til Vodafone, ekkert klikkað síðan nema algjör smáatriði og þeir eru eldsnöggir að redda því.

    Munurinn á þjónustustigi er ótrúlegur.

    SvaraEyða
  15. Bý svo vel að eiga kunningja sem vinnur hjá símanum og kíkir á mig þegar eitthvað rugl er.

    Yfirleitt er vandamálið í þessum blessuðum router sem þeir skaffa.
    Hef alltaf fengið annan router hjá kunningja mínum og þá hverfa vandamálin.
    Taktu routerinn og farðu í næstu símaverslun og fáðu skipt.

    SvaraEyða
  16. leitaðu til talsmann neytenda, Gísli Tryggvason. Sendu líka á morgunblaðið og segðu þeim hvað er í gangi, þeir hafa verið með fréttir af svona starfsháttum að undanförnu. þeir gætu haft áhuga á þessu

    SvaraEyða
  17. Ég er búinn að vera með ADSL net Símans og er staðsettur á höfuðborgarsvæðinu síðan í júní 2008 og það hefur dottið tvisvar út í samtals innan við sólarhring. Hef heyrt sögur frá öðrum símafyrirtækum þar sem netið dettur mun oftar út.

    En að borga 11 þús fyrir heimasíma+notkun,ADSL 60GB pakka(20 of lítið fyrir mig þyrfti 40),leigu á router(veit á að kaup mér hann ætla að gera það enda búinn að vera með þann sama allan tíman og ekkert klikkað og væri núna og hefði greitt hann upp á 18 mánuðum eða svo) + að vera með gsm síma í Ring og borga 2000 þús í fyllingu á mánuði er bara klikkun.

    Er að spá í að hætta með heimasíma því 90% allra símtala eru í gsm og kaupa 2klst á 2000 kall í GSM hjá TALI og fá mér 50GB internet hjá hringdu og kaupa mér svo router sjálfur.

    6000 kall samtals og sparnaður upp á 5000 kall á mánuði.

    Hefur einhver hérna reynslu af Hringdu ?

    SvaraEyða
  18. Það munu allir geta komið með mismunandi sögur um öll símafélögin, stór og smá.

    Síminn er samt fyrirtæki sem fólk elskar að hata einhverra hluta vegna.

    Fáðu að tala við yfirmann, það er það sem virkar alltaf.

    SvaraEyða
  19. GSM inneign mín hvarf hjá Símanum. (Nei, hún var ekki útrunnin eða óvirk, bara hvarf!). Eftir mikið japl endurgreiddi Síminn upphæðina án skiljanlegrar skýringar. Það er ekki svo merkilegt. Hið merkilega var, að ég gat alls ekki fengið að tala við yfirmann þjónustufulltrúa og gat ekki einu sinni fengið að vita hver hann var. Paranoid lið? Er ekki eitthvað bogið við starfsemi Símans?

    SvaraEyða
  20. Svar hefur borist frá Símanum:

    Sæl

    Ég kom skilaboðum þínum um leið og þau bárust mér áfram til þeirra aðila hér hjá Símanum sem geta afgreitt það. Mér þykir leitt að heyra af þessu fálæti. Ég svaraði póstinum þínum ekki á miðvikudag vegna þess að ég var farin í vetrarfrí með fjölskyldunni en áframsendi póstinn þess vegna.

    Mér er sagt að málið hafi verið klárað á föstudag með niðurfellingu en ekki hafi náðst í þig til þess að láta þig vita.

    Ég biðst velvirðingar á þessu.

    Kveðja,

    Margrét Stefánsdóttir
    Upplýsingafulltrúi Símans

    Ég þakkaði að sjálfsögðu fyrir þó mér finnist það svolítið merkilegt að fjarskiptafyrirtæki sem er með allar upplýsingar um mig á skrá, s.s. símanúmer, gsm-númer, netfang osfrv. geti ekki náð í mig. Öðrum sem vildu og reyndu að ná í mig um helgina tókst það með miklum ágætum.

    SvaraEyða
  21. Síminn fær samt plús í mína bók fyrir sð svara þér.

    SvaraEyða
  22. Úff. Er það allt í einu orðinn plús að svara svona löguðu? Heimur versnandi fer.

    Mínus í mína bók.

    P.S.
    Ein manneskja fer í frí og það fer allt í steik. Það er síminn.

    SvaraEyða
  23. Ég var með nettengingu hjá símanum (ekki heimasíma) og var að borga fyrir það rúmar 9 þúsund krónur á mánuði sem er ekki manni bjóðandi (ekki með mínar tekjur allavega). Ég ákvað að skoða önnur fyrirtæki og flutti mig yfir til HRINGDU og þar borga ég 7 þúsund fyrir nettengingu (100gb niðurhal) og heimasíma og hringi frítt í alla heimasíma. Mæli með að fólk skoði það!

    SvaraEyða
  24. Ótrúlegt hvað síminn þykist líka ekki getað fylgst með þeirri þjónustu sem þeir bjóða. Var í leiguhúsnæði og með samtengt við leigusala. Væri ekki frásögu færandi nema að verktaki á vegum Símans tengdi þetta svo það væri mögulegt. Borgaði honum og hann borgaði símanum, síðan ákvað ég að hafa sjalfur og sjá um þetta sjálfur og allt fór í fokk. Hafði fengið 4 mánuði fría af heimasíma vegna bilana hjá þeim. Síðan fékk ég reikning um þá mánuði sem ég hafði eþgar verið búinn að borga og frímánuðir heimasíma töldu frá 2 mánuðum sem ég hafði líka þegar borgað leigusalanum fyrir þetta. þeir neituðu bara öllu og sögðu mig ekki getað sannað í hvað hann lét peninhgana fara. Afhverju eru þeir að bjóða uppá þetta? Samtengja milli hæða ef þeir geta ekki fylgst með notkun hvors fyrir sig og reyna bara rukka tvöfalt? Allavega ekkert sem ég gat gert.

    Þeir eru víst með einhverjar óljósar reglur um hvenær viðskiptavinur þarf að borga fyrir verktaka sem koma í heimsókn, engar upplýsingar um það á heimasíðu símans. Það var t.d hringt í ömmu mína og sagt að svona kall ætlaði að koma með nýjan ráter, hún spurði hvort hún þyrfti að borga, hann sagði nei. Vojla, reikningur kom til hennar fyrir þetta.

    SvaraEyða
  25. Ég efast um að fyrirtæki séu með menn á launum um helgar til að eltast við viðskiptavini. Held að svona mál séu kláruð á skrifstofutíma.

    Ef vandamálið er innanhúss, á viðskiptavinur alltaf kostnaðinn fyrir að fá mann á staðinn.
    Ég hef haft myndlykil frá Símanum síðan 2004. Fyrst var þetta nú ekki böggalaust. En nánast síðan 2006 hefur þetta verið böggalaust.
    Vandamálið getur verið svo margþætt.
    Lélegar innanhúslagnir, biluð snúra, bilun í inntaki, bilun á línu, bilaður búnaður, bilun í kerfi símafyrirtækis.
    Það eru margir sem hata að elska Símann já. En það er ekkert símafyrirtæki sem hefur gert eins mikið fyrir viðskiptavini úti á landi. Á meðan fría hin fyrirtækin sig af þjónustu við fólk úti á landi. Þetta er bara mín skoðun, sem fyrrverandi starfsmaður fjarskiptafyrirtækis.

    SvaraEyða
  26. Svo neyðist maður til þess að hringja í Símann svo þeir leiðrétti sín eigin mistök og þá er það að kosta pening þegar maður er t.d. í viðskiptum við Nova. Þarna græða þeir hellings pening með því að senda reikinga "óvart" á fólk. Ég veit um of fáa sem hafa ekki lent í þessu. Persónulega myndi ég ekki versla við Símann þótt ég fengi borgað fyrir það.

    SvaraEyða
  27. Ég lenti í mjög leiðinlegri reynslu með Símann um daginn, þegar ég fékk 130þús símareikning eftir 10daga dvöl erlendis. Svo stóð á að Síminn var ekki með Reikisamning við USA á því tímabili sem ég var úti. Ég hafði slökkt á símanum megnið af tímanum, en í hvert skipti sem hringt var í talhólfið mitt borgaði ég samtals 600 ISK. Ég bara saman öll gjöld símafyrirtækjanna og Síminn kom út LANG dýrastur.

    Í framhaldi af þessu vildi þetta skítans fyrirtæki ekki játa neitt á sig né semja.

    Ég hef ákveðið að taka alla mína notkun frá Símanum og hvet ykkur til að gera hið sama.

    Kv.
    Óli

    SvaraEyða
  28. ertu að segja að Síminn hafi ekki verið með reikisamning í USA akkúrat þegar þú varst úti??? hljómar undarlega.
    Fyrst þú gast náð sambandi og látið talhólfið hringja heim, þá hlýturu að hafa verið í reikisambandi??
    það er alltaf mælt með að slökkva á talhólfi þegar maður fer út.
    kv
    einn sem notar símann sinn reglulega í usa.

    ps.. það er kaninn sem rukkar feitt fyrir notkun á símkerfinu sínu í USA ekki símafyrirtækið þitt. oft er rukkað þó þu svarir ekki.

    SvaraEyða
  29. Bara allt sama draslið ,er hjá Vodafone og er ánægð,en munið þetta kallast Hepni ,því þessi fyritæki er sama súpan

    SvaraEyða
  30. Tók mig 6 mánuði að fá Símann til að leiðrétta tvítekna reikninga. Já, reikninga í fleirtölu.
    Tók mig 5 mánuði að fá Vodafone til að leiðrétta tvítekna reikninga. Já, reikninga í fleirtölu.

    Miðað við ofangreint er Vodafone ekki alveg jafn lélegt og Síminn. Ekki alveg, bara svona næstum því.

    Ef þú borgar reikninga frá þessum félögum án þess að lesa vandlega yfir hvern einn og einasta þá er ég með land á tunglinu til að selja þér, á spes verði.

    SvaraEyða
  31. Búinn að vera með tvo afruglara í mörg ár án þess að vera í nokkrum vandræðum. netið uber fínt. nota annan þeirra mun minna en hinn og þarf stundum að endurræsa hann þar sem hann er frosin. tekur sirka 2 mín. böggar mig ekkert. Sáttur við Símann og þjónustuverið (sem ég tala mjög sjaldan við)

    Nonni

    SvaraEyða