sunnudagur, 31. október 2010

Ekki okur - ódýr föt á börnin í kreppunni

Barnafatabúðin Blómabörn opnaði þann 14. mars á síðasta ári, að Bæjarhrauni 10, en er nú flutt í glæsilegt húsnæði að Bæjarhrauni 2, spölkorn frá gamla staðnum. Það hefur verið nóg að gera og jákvæð viðbrögð frá byrjun, ekki síst vegna kreppunnar.
Einnig er opið suma Laugardaga en það er nánar auglýst á Facebook undir nafninu Blómabörn Barnafataverslun.
Arnbjörg kaupir notuð barnaföt af fólki á kílóverði og hafa viðtökur verið mjög miklar og góðar.
Nú er hægt að kaupa ódýr og falleg föt á börnin fyrir jólin.

Opnunartími:
MÁNUDAGA - FIMMTUDAGA FRÁ 12-17 EN FÖSTUDAGA FRÁ 12-15.

Blómabörn er með landsbyggðarþjónustu.

Verslunin er á Facebook undir nafninu Blómabörn Barnafataverslun.

Nánari upplýsingar í síma 6161412.

Þriðjudagstilboð hjá Skalla upp í Árbæ

Vildi segja frá tilboði:

1 liter af ís (hvitur-venjulegur) + köld sósa + ein ný mynd og + ein gömul mynd = 890 kr. Þetta er þriðjudagstilboð hjá Skalla upp í Árbæ.
kv.
Linda Björk

föstudagur, 29. október 2010

Út að borða með krakkana

Hvað gerir veitingahús að fjölskylduvænum stað? Er það ekki helst það að gert sé ráð fyrir börnum á staðnum? Að þangað sé þægilegt og gaman að fara með krakkana? Nú bjóða nokkrir veitingastaðir upp á ódýran – jafnvel ókeypis – mat fyrir yngstu fjölskyldumeðlimina, auk þess að leggja metnað í leikhorn og afþreyingu. Kíkjum á tíu dæmi af Stór-Reykjavíkursvæðinu. Það mætti jafnvel kalla þetta Topp 10 af fjölskylduvænum veitingahúsum í höfuðborginni. Þessi listi er þó auðvitað langt því frá tæmandi.

Græni risinn
Græni risinn á Grensásvegi er með létta og holla rétti. Staðurinn er sérlega hagstæður fyrir fjölskyldufólk til 15. nóvember því réttir af barnamatseðli fylgja frítt fyrir allt að tvö börn þegar foreldrar kaupa rétti af matseðli.

Hamborgarabúllan
Búlla Tómasar Tómassonar er traustur staður. Barnaskammtur: Borgari eða samloka, franskar og gos fyrir 12 ára og yngri kostar 790 kr. Í útibúinu á Bíldshöfða er boðið upp á barnahorn.

Lauga-ás
Veitingahúsið Lauga-ás var fyrst íslenskra veitingastaða til að taka í notkun sérstakt barnahorn. Sjö réttir eru í boði fyrir börn (yngri en 12 ára) á verðbilinu 695 – 995 kr.

Piri – Piri
Allir barnaréttir á Piri-Piri, Geirsgötu, kosta 710 kr. Í Piri-Piri er Piri-land. Það er 30 fermetra leiksalur fullur af leikföngum, og inniheldur þar að auki brúðuleikhús, víkingaskip, risakubbahorn og sjónvarpsherbergi.

Potturinn og pannan
Í Pottinum og pönnunni í Brautarholti er rúmt til veggja og barnahorn. Ýmsir réttir fyrir 12 ára og yngri eru í boði á verðbilinu 980 – 1.390 kr.

Ruby Tuesday
Þægilegt er að fara með krakka á Ruby, nóg pláss og mikið á veggjum sem dreifir athyglinni. Börnin fá bók og liti og geta valið um ýmsa rétti á bilinu 590 – 790 kr.

Saffran
Saffran hefur slegið í gegn síðustu misserin með létta og holla rétti. Dags daglega eru í boði fimm réttir fyrir börn á bilinu 450 – 600 kr. Á sunnudögum til 15. desember fá svo krakkar að 10 ára aldri fría rétti af barnamatseðli þegar foreldrar kaupa rétti af matseðli.

Shalimar
Séu krakkarnir tilbúnir í framandi kost er gaman að fara með þá í krydduðu réttina í Shalimar í Austurstræti. Þar er boðið upp á nokkra bragðsterka rétti fyrir 12 ára og yngri á verðbilinu 890 – 1.290 kr.

Super Sub
Í Super Sub er eitt metnaðarfyllsta barnahorn landsins, rennibraut og boltaland í fjörutíu fermetra plássi. Barnasamlokur má fá á 499 kr., en vinsælast meðal barnafólks er að fá sér fjölskyldutilboð: Tvær pítsur með tveimur áleggstegundum og 2 L af gosi á 2.990 kr. Í eftirrétt er tilvalið að fá sér ís á Yo Yo ís, nokkrum húsum neðar á Nýbýlaveginum.

T. G. I. Fridays
Í Smáralindinni er Íslandsdeild þessarar amerísku keðju og þar má fá ýmsa rétti fyrir 12 ára og yngri á bilinu 395 – 965 kr. Börnin fá litablað og liti. Á fimmtudögum er fjölskyldutilboð. Þá fást allt að tvær fríar barnamáltíðir með hverjum aðalrétti. Og til að gera kjörin enn betri eru ókeypis Buffalo vængir með öllum aðalréttum á fimmtudögum.

Dr. Gunni (birtist í Fréttatímanum 29/10/2010)

sunnudagur, 24. október 2010

Enn um prentarablekhylki

Þótt ég prenti ekki mikið með tölvuprentaranum mínum finnst mér hann alltaf vera að senda mér þau skilaboð að það þurfi að skipta um blekhylki. Þetta er auðvitað hið versta mál því með falli krónunnar hafa þessi prentarablekhylki orðið rándýr.

Prentarinn minn heitir Canon Pixma IP4000. Það eru fimm blekhylki í honum, tvö svört, blátt, rautt og gult. Kaupi ég öll þessi hylki af upprunalegu framleiðslutegundinni Canon þarf ég að punga út í kringum 10.000 krónum. Það er smávægis munur á verðinu á milli búða, þegar ég hef gáð hafa Tölvutek, Elko og Grifill verið með bestu verðin.

Annar möguleiki er að kaupa „samhæft“-blekhylki, þ.e.a.s. ekki orginal Canon hylki heldur ódýrari hylki frá öðrum framleiðendum. Hér eru nokkrir möguleikar í stöðunni. Prentvörur heitir póstverslun sem einnig er með verslun að Skútuvogi 1. Þar get ég keypt samhæfð hylki í prentarann minn fyrir helmingi minna, eða á um 5.000 krónur fyrir hylkin fimm. Enn ódýrari möguleika fann ég hjá Myndbandavinnslunni, Hátúni 6b. Þar eru seld samhæfð blekhylki frá hinu aldna þýska fyrirtæki Agfa fyrir ýmsar gerðir prentara. Verðin eru glettilega góð. Ég get fengið öll fimm hylkin sem ég þarf í einum pakka á 3.190 kr.

En eru samhæfð hylki eins góð og orginal? Kemur ekki sparnaðurinn niður á gæðunum? Auðvitað eru til bæði góð og slæm samhæfð hylki. Ekki kaupa hylki þar sem nafn framleiðanda kemur hvergi fram. Ég keypti einu sinni eitthvað hræbillegt kínverskt blekhylki sem reyndist algjör martröð, það míglak og var næstum því búið að eyðileggja prentarann minn.

Það skiptir mestu í hvað þú notar prentarann þinn. Ef þú prentar mikið og aðallega myndir í lit þá er affarasælast að splæsa í orginal hylki. Ef þú prentar mest texta og skjöl eru samhæfð hylki góður kostur. Því eldri sem prentarinn er, því auðveldara er að finna samhæfð hylki. Ef þú ert með glænýja týpu af prentara er séns á að engin hylki séu í boði nema upprunaleg hylki frá framleiðanda.

Það er hundrað prósent öruggt að þú fáir það besta út úr prentaranum með blekhylki frá upprunalega framleiðandanum. Samhæfð hylki eru hinsvegar ódýrari – geta verið meira en 200% ódýrari – en þú getur verið að taka óþarfa sénsa. Ef þú vandar hinsvegar valið og notar góðan pappír til að prenta á, þá er allt eins líklegt að þú sjáir engan mun.

Dr. Gunni (birtist í Fréttatímanum 22.10.10)

laugardagur, 23. október 2010

Er eðlilegt að ferðamenn borgi meira en innfæddir?

Mikið og frábært húllumhæ er nú yfirstandandi vegna friðarsúlu Johns Lennons í Viðey. Boðið er upp á kvöldferðir út í eyjuna. Lagt er af stað öll kvöld kl. 20. Leiðsögumaður tekur á móti gestum og gengur með þeim að verkinu og fjallar um það sem fyrir augum ber. Naustið, skáli við hlið súlunnar, seldur léttar veitingar. Gjald í þessar ferðir er kr. 5.000 fyrir fullorðna og kr. 2.500 fyrir börn, 7-15 ára. Þetta þótti Birni heldur dýrt. Hann hafði samband: „Alls verða þetta kr. 17.500 fyrir mína fjölskyldu. Mér finnst það nú vægast sagt blóðugt!“

Björn hefur ekki tekið eftir smáa letrinu. Ef grannt er skoðað má lesa: „Allir handhafar greiðslukorta í íslenskum bönkum njóta sérstakra kjara og býðst að kaupa tvo miða á verði eins.“

Með öðrum orðum: Ef þú ert Íslendingur borgar þú helmingi minna en ef þú ert útlendingur. Friðarsúluskoðunin lýtur þar með svipuðum lögmálum og verðlagningin í Bláa lónið: „Fram til 1. apríl 2011 fá handhafar greiðslukorts frá íslenskum banka sérkjör í Lónið; 1.500 kr. á mann. Aðrir borga 28 Evrur eða 4.500 krónur.“ (af heimasíðu Lónsins).

Tvær skoðanir eru uppi um þessa tvöföldu verðlagningu. Sumir segja að þetta sé plebbaleg mismunun, jafnvel siðlaus, enda sé bannað að mismuna fólki eftir þjóðerni (eða uppruna greiðslukorta í þessu tilfelli). Aðrir segja að ferðamennirnir geti bara vel borgað meira en heimamenn, enda hafi þeir ekki tekið þátt í uppbyggingu ferðamannastaðanna. Starfsemin í Viðey er til að mynda niðurgreidd af skattfé sem aðeins Íslendingar hafa lagt til. Þar að auki tíðkist svona tvöfalt kerfi víða í útlöndum.

Hvað segir Einar Örn Benediktsson, formaður Ferðamálaráðs Reykjavíkur, um málið?
„Þessi tvöfalda leið er það sem mörg ferðaþjónustufyrirtæki hafa farið þegar gengi krónunar er lágt. Auðvitað virkar þetta tvímælis, en ég var í Istanbul í vor sem leið og þá voru þrjú verð í gangi: námsmenn, innfæddir og ferðamenn. Reykjavíkurborg niðurgreiðir almennar ferðir út í Viðey og er frítt fyrir börn að 6 ára aldri, 6-18 ára 500 kr., fullorðnir 1000 kr. og eldri borgarar 900 kr. Mér finnst alveg athugandi að hafa hærri verðskrá, ef þjónstuaðili telur það innan marka þess sem þjónustan sem hann býður þolir. Það er líka til dæmis umhugsunarefni að Reykjavíkingar borga niður ýmsa þjónustu sem við notum. Til að nefna eitt þá kostar rúmar 2 evrur í sund. Hvar í Evrópu kostar 2 evrur inn á háklassa sundstaði sem sundlaugar Reykjavíkur eru? Má biðja útlendinga sem heimsækja okkur að borga meira?

Dr. Gunni (Birtist fyrst í Fréttatímanum 15.10.10)

föstudagur, 22. október 2010

Hvað kostar að fá kvef?

Nú er kjörtími kvefs. Horið byrjar að leka úr nösunum, beinverkir herja á og hitavella, hósti og almenn leiðindi. Engin lækning er til við kvefi og allt kemur fyrir ekki sama hvað fólk belgir sig út af náttúrulyfum. Þar til kvefið rjátlast af manni af sjálfum sér má reyna að gera sér kvefið sem þægilegast. Til þess eru ýmis hjálparmeðöl.

Hver býður svo best í kvefvörum? Ég gerði verðkönnun á 10 kveftengdum vörum. Fór í sex apótekum á höfuðborgarsvæðinu og tók niður verðin. Hér koma niðurstöðurnar.



Garðsapótek kemur best út úr þessari könnun. Það munar 1.376 krónum á verði tíu vara hjá þeim og dýrasta apótekinu, Lyfju. Garðsapótek hefur verið einkarekið apótek í 50 ár og tekur fram á heimasíðu sinni að það tengist hvorki lyfjakeðjum né eignarhaldsfélögum. Lyfja er hins vegar með meira en 30 útibú um allt land. Það væri hægt að áætla á að markaðsstærð fyrirtækisins myndi skila sér í einhverju öðru en að það væri dýrasta apótek höfuðborgarsvæðisins. Svo er þó ekki.

Dr. Gunni (birtist fyrst í Fréttatímanum 08.10.10)

miðvikudagur, 20. október 2010

Byr rukkar fyrir pappírslaust

Núna er þau hjá Byr byrjuð að rukka um pappírslausar færslur. Ef maður biður um að fá sent í tölvupósti yfirlit eða færslutilkynningu í heimabankanum þá þarf maður að borga 6 kr. fyrir hvern tölvupóst, varla fer sá peningur í frímerki !
Það er segin saga ef maður getur sparað t.d. með því að biðja um pappírslaust þá finnur bankinn alltaf leið til að ná þessu krónum af þér.
Kveðja,
Hafsteinn

þriðjudagur, 19. október 2010

Brjáluð verð á minniskortum

Ég hef verið að bera saman verð á minniskortum í myndavélar og fleiri tæki,
svokölluð "compact-flash" kort, bæði hér á íslandi og á netinu. Verðið hér á klakanum er BRJÁLÆÐI!
16GB kort með les/skrifhraða upp á 30mb/sek eru frá 23.000 til 28.000 krónur.
Nákvæmlega sömu kort eru nú seld á 50 DOLLARA erlendis sem gerir sirka 6.000 kall!
Neytendur (og sérstaklega smásöluverslanir) mega endilega átta sig á því að
verð á geymslumiðlum hefur allt að helmingast miðað við stærð á tveimur árum eða svo.
Jón G

föstudagur, 15. október 2010

Furðuleg ákvörðun hjá Birtingi

Mig langaði að segja frá frekar furðulegum viðskiptaháttum hjá útgáfufélaginu Birtíngi. Fyrir rúmu ári síðan fóru þeir að gefa út unglingatímaritið Júlíu.
Ég ákvað að vera áskrifandi fyrir dóttur mína. Upphaflega átti blaðið að koma út einu sinni í mánuði, og var tekið út af vísakortinu mínu tæpar 1000 kr mánaðarlega, svo fer ég að taka eftir því að allt í einu er farið að taka út tæpar 2000 kr annanhvern mánuð og tæpar 1000 kr hinn mánuðinn.
Ég hringi að sjálfsögðu í Birtíng og bið um útskýringu á þessu, svarið sem ég fékk var, Útgáfufélagið ÁKVAÐ að fjölga blöðunum úr 12 á ári í 17 og þar af leiðandi hækkar áskiftin, ég sagði þeim að ég hefði ekki skráð mig fyrir því og enn síður verið spurð hvort ég vildi þessa aukningu og hækkun. Sama svar útgáfufélagið ÁKVAÐ þetta.
Ég ÁKVAÐ að sjálfsögðu að segja upp áskrift að blaðinu!
Óskar nafnleyndar

Kreppugler eða bara ný aðferð við að hafa pening af fólki fyrir litla eða enga vinnu?

Ég var að athuga með að fá mér gleraugu og var bent á kreppugler.is en þar sem
að ég er skeptískur á allt sem að ég versla hérna heima að þá prufaði ég að taka
lýsinguna á gleraugunum og setja inn í google og viti menn þar er bara síða sem að er nánast alveg eins og kreppugler.is en heitir zennioptical.com með mun betri verð en Kreppugler.
Það sem að þeir eru að gera er að scrape'a (http://en.wikipedia.org/wiki/Web_scraping) þar sem að þú slærð inn pöntun inná síðuna hjá þeim sem að þeir senda síðan áfram á zennioptical.com sem sína eigin pöntun.
Ok maður er að fá mun betra verð þarna (kreppugler.is) en útí búð, samt alveg
búinn að fá mig full saddan af þessu eylífa kroppi í budduna mína af íslendingum.
Enda ætla ég mér bara að versla beint af zennioptical.com og spara mér slatta
þannig.
Hægt er að koma með rök eins og 2 ára ábyrgð sem að á svo sem rétt á sér en það
sem að ég er að spara mér er það mikið að ég get keypt mér 2 gleraugu í staðinn.
Vona að þetta sé ekki rétt hjá mér þar sem að ég vona að menn séu ekki að stunda
svona viðskipti.

http://www.kreppugler.is/

http://www.zennioptical.com/

Einn að missa trúnna á Íslendingum.

mánudagur, 11. október 2010

Slæmir viðskiptahættir - Vodafone

Þetta er nú ekki okur en ég missti af góðum díl og finnst þetta alveg til skammar. Það er greinilega stórt stjórnunarvandamál hjá þessu fyrirtæki.

Málið er að ég færði mig yfir í áskrift á fimmtudegi, þá var sprengiafsláttardagur hjá þeim: "Sprengjuafsláttur í Vodafone Kringlunni til miðnættis í kvöld!! Sony Ericsson W205 á 1 KRÓNU, gegn 6 mánaða árskriftarsamningi. Fleiri frábær símatilboð og kaupaukar í boði. Takmarkað magn svo kíktu til okkar sem fyrst;)". Ég sá þetta á facebook síðu þeirra á sunnudeginum.

Ég var frekar ósátt við að fá ekki að vita af þessu, ég hefði pottþétt nýtt mér þetta. Ég sendi tölvupóst (gat ekki hringt því ég var símasambandslaus í boði þeirra). Þeirra svar er: "Málið er að sprengjutilboðið var ákveðið svo seint að það gleymdist að tilkynna starfsfólkinu um það, ég t.d. frétti ekki af þessu fyrr en næsta dag. Það er búið að tala um þetta við þá sem stjórna þessu um að það verði að láta okkur vita með fyrirvara svo að mál eins og þitt komi ekki upp. Mér þykir mjög leitt að sölumaðurinn hafi ekki vitað af þessu og biðst afsökunar á því fyrir hönd fyrirtækisins en það er búið að lofa okkur að þetta komi ekki fyrir aftur.".

Ég spurði hvort það væri ekki hægt að bjóða mér eitthvað tilboð út af þessu. Nei það er ekki hægt.

---

Annað sem hefur truflað mig:

- Þeir flytja þig líka yfir til fyrirtækisins áður en SIM kortið kemur (ég var símasambandslaus í rúman sólarhring).

- Þeir rukka meira fyrir vef sms en Síminn (8 kr vs 5 kr).

- Þeir eru með stafsetningavillur og asnalegt orðaval á "Mínar síður".

- "Mínar síður" eru mjög hægar og virka ekki alltaf.

---

Ég er frekar fúl yfir þessu og er alvarlega að íhuga að skipta um símafyrirtæki aftur. Mér finnst ekki vera mikill metnaður hjá þessu fyrirtæki.

Óskar nafnleyndar

fimmtudagur, 7. október 2010

Dýrt neftóbak á Akureyrarflugvelli!

Á flugvellinum á Akureyri kostar neftóbaksdollan 850 kr, sem að mér vitandi er
dýrasta dollan á Íslandi. Fyrir sunnan hef ég verið að kaupa dolluna á 720 kr og allt niður í 690. Ég spurði manninn í sjoppunni afhverju neftóbaksdollan væri svona dýr. Hann bar fyrir sig sendingarkostnað. Mæli ég því með því ad þú kaupir tóbakið þitt
annars staðar því 850 kr er hreint okur!
S. Á.

mánudagur, 4. október 2010

Gamlar myndir eru sem nýjar í 107 Videó

Vek athygli á því að myndir sem voru í kvikmyndarhúsunum um 1990 (t.d. Beethoven myndirnar) eru flokkaðar sem nýjar á 107 Reykjavík videoleigunni í Vesturbænum. Þó að maður bendi þeim góðfúslega á að þetta sé ekki alveg eðlilegt þá eru þeir óhagganlegir varðandi þessi mál. Það er í rauninni varla hægt að leigja gamlar barnamyndir hjá þeim. Þeir eru með númerkerfi en það virðist vera í algjöru rugli.
Nafnleyndar óskað

Vesen með Byko

Mig langar að segja frá viðskiptum mínum við Byko. Fyrirtæki mitt hefur verið í
viðskiptum við BYKO í mörg ár. Ég keypti fyrirtækið af öðrum sem virðast hafa
verið líka í viðskiptum við BYKO.
Núna nýlega fór skuld mín hjá BYKO í innheimtu til lögfræðings. Þar sem ég gat
ekki greitt.
Og núna nýlega hafði fyrri eigandi míns fyrirtækis samband. Hann hafði skrifað
uppá ábyrgð í upphafi viðskipta sinna við BYKO.
Nú var þessi ábyrgð allt í einu notuð! Samt samdi ég við BYKO sjálfur þegar ég
hóf viðskipti og skrifa upp á mína ábygð. Þar fyrir utan þekkja allir hjá BYKO
mig og vita allt um mitt fyrirtæki og vita líka að ég á fyrirtækið en sá sem
átti það kemur ekki nálagt því.
Þarna fór BYKO yfir mörkin!! Vissulega greiði ég þessa ábyrgð! Svo aðrir lendi
ekki í að þurfa að greiða. En mitt fyrirtæki kemur aldrei til með að versla þarna
aftur.
Ég vil minna fólk á að ganga úr skugga um að það taki öll frumrit af pappírum
sem það hefur skrifað upp. Þessi maður hafði hringt í BYKO og beðið um að þeir
yrðu sendir til sín en hafði svo gleymt þessu.
Óskar nafnleyndar

föstudagur, 1. október 2010

Europris: Mikil verðhækkun á garni


Ég hef verið að prjóna, eins og fleiri og datt ofan á garn hjá Európris, sem var á þokkalegu verði, keypti nokkrar hespur 16. Maí 2010, þá kostaði 100 gramma hespa 462 krónur. Fór svo 22, sept. og sá að það voru komnir fleiri litir af þessu garni, en eitthvað fundust mér hespurnar orðnar léttari, svo að ég ákvað að kaupa eina og bera saman við það sem ég átti heima. Viti menn nýja hespan er 50 grömm á 599 krónur, sem sagt helmingi léttari en þær sem ég keypti í maí. Látum það vera, en verðið núna er krónur 599 var 462, sem sagt 137 krónum dýrari og helmingi léttari. Lauslega útreiknað telst mér, að þetta sé um 135% hækkun. Ef að þetta er ekki okur þá veit ég ekki hvað er okur. Læt fylgja hér mynd af garninu.
Kveðja Sóley Ingólfsdóttir