sunnudagur, 24. október 2010

Enn um prentarablekhylki

Þótt ég prenti ekki mikið með tölvuprentaranum mínum finnst mér hann alltaf vera að senda mér þau skilaboð að það þurfi að skipta um blekhylki. Þetta er auðvitað hið versta mál því með falli krónunnar hafa þessi prentarablekhylki orðið rándýr.

Prentarinn minn heitir Canon Pixma IP4000. Það eru fimm blekhylki í honum, tvö svört, blátt, rautt og gult. Kaupi ég öll þessi hylki af upprunalegu framleiðslutegundinni Canon þarf ég að punga út í kringum 10.000 krónum. Það er smávægis munur á verðinu á milli búða, þegar ég hef gáð hafa Tölvutek, Elko og Grifill verið með bestu verðin.

Annar möguleiki er að kaupa „samhæft“-blekhylki, þ.e.a.s. ekki orginal Canon hylki heldur ódýrari hylki frá öðrum framleiðendum. Hér eru nokkrir möguleikar í stöðunni. Prentvörur heitir póstverslun sem einnig er með verslun að Skútuvogi 1. Þar get ég keypt samhæfð hylki í prentarann minn fyrir helmingi minna, eða á um 5.000 krónur fyrir hylkin fimm. Enn ódýrari möguleika fann ég hjá Myndbandavinnslunni, Hátúni 6b. Þar eru seld samhæfð blekhylki frá hinu aldna þýska fyrirtæki Agfa fyrir ýmsar gerðir prentara. Verðin eru glettilega góð. Ég get fengið öll fimm hylkin sem ég þarf í einum pakka á 3.190 kr.

En eru samhæfð hylki eins góð og orginal? Kemur ekki sparnaðurinn niður á gæðunum? Auðvitað eru til bæði góð og slæm samhæfð hylki. Ekki kaupa hylki þar sem nafn framleiðanda kemur hvergi fram. Ég keypti einu sinni eitthvað hræbillegt kínverskt blekhylki sem reyndist algjör martröð, það míglak og var næstum því búið að eyðileggja prentarann minn.

Það skiptir mestu í hvað þú notar prentarann þinn. Ef þú prentar mikið og aðallega myndir í lit þá er affarasælast að splæsa í orginal hylki. Ef þú prentar mest texta og skjöl eru samhæfð hylki góður kostur. Því eldri sem prentarinn er, því auðveldara er að finna samhæfð hylki. Ef þú ert með glænýja týpu af prentara er séns á að engin hylki séu í boði nema upprunaleg hylki frá framleiðanda.

Það er hundrað prósent öruggt að þú fáir það besta út úr prentaranum með blekhylki frá upprunalega framleiðandanum. Samhæfð hylki eru hinsvegar ódýrari – geta verið meira en 200% ódýrari – en þú getur verið að taka óþarfa sénsa. Ef þú vandar hinsvegar valið og notar góðan pappír til að prenta á, þá er allt eins líklegt að þú sjáir engan mun.

Dr. Gunni (birtist í Fréttatímanum 22.10.10)

11 ummæli:

 1. Komdu sæll Gunnar,
  Ég hef nú áður haft samband við þig vegna greinaskrifa um ekta Canon blek vs samhæft og/eða falsað blek.
  Vil nú bara benda þér á sem Canon notanda að þú færð ekki eingöngu nákvæmari og fallegri liti ef þú notar ekta Canon blek ásamt því að fá ljósmyndir sem endast ævilangt. Þú stuðlar einnig að hámarks líftíma á prenthausnum.
  Þá vil ég benda þér á að ábyrgð framleiðanda og umboðsaðila gildir ekki ef endurgert blekhylki eða samheitablekhylki skaðar Canon prentara.
  Kv.
  Halldór Jón Garðarsson
  Vörustjóri Canon

  SvaraEyða
 2. Sæll vertu Gunnar.
  Ég sá skrifin þín í Fréttatímanum í dag um blekhylki. Mig langar að benda þér á frábæra lausn hvað það varðar. Á Glitvöllum 9 í Hafnarfirði er rekið lítið fyrirtæki sem heitir Blekáfylling (http://blekafylling.is). Þarna er s.s. fyllt á hylkin og er bæði ódýrt og umhverfisvænt :) Ég fór með hylki úr mínum HP prentara, að vísu einungis svart en það kostaði 1 900 kr. Það sem vakti líka ath.var að á hylkinu stóð að það tæki 10 ml en á það fóru nú samt 20 ml. Hylkin eru s.s. sum hver þannig gerð að megnið af þeim er tómarúm og trúlega ein af þessum dásamlegu sölubrellum nútímans.
  Kær kveðja.
  Ásta Steingerður Geirsdóttir.

  SvaraEyða
 3. Sæll Gunnar

  Við hjá Prentvörum ehf höfum selt þúsundum viðskiptavina endurgerð og samhæfð blekhylki í á annað ár. Viðskiptavinir okkar koma aftur og aftur og eru mjög ánægðir með gæði vörunnar og þjónustuna. Þessi markaður er ört vaxandi og það er eðlilegt að frumframleiðendur reyni að berjast gegn þessari þróun, þá aðallega með hræðsluáróðri.

  Prentvörur ehf er ný orðinn meðlimur í samtökum um endurgerð prenthylki www.etira.org. Þar segir meðal annars um markað endurgerðra blekhylkja í Evrópu:

  The European inkjet cartridge market Of the 300 million inkjet cartridges sold in West-Europe in 2003, around 45 million were remanufactured. This represents a market share of 15%, predicted to grow to 40% in 2008. This growth rate is ased on developments in the USA, where remanufactured market share is already around 40%. (sjá nánar: http://www.etira.org/w/key-facts/21).

  Af öllum þeim fjölda viðskiptavina okkar hafa eðlilega komið fyrir þau tilvik þar sem prentarinn virkar ekki sem skildi. Þau tilvik eru innan við 1% af allri sölu félagsins. Þá er mikilvægt fyrir viðskiptavin okkar að hann snúi sér fyrst til okkar og við leggjum metnað okkar í að leysa öll slík mál farsællega.

  Bestu kveðjur

  Jón Sigurðsson
  Framkvæmdastjóri

  SvaraEyða
 4. 200% ódýrari? Sum sé ef orginal hylkið kostar 1þúsund þá hlýtur maður að fá samhæfða hylkið 200% ódýrara sem þýðir að maður fær það ókeypis, og þúsund kall í bónus frá búðinni.

  Trúverðugleiki svona greina fer út í veður og vind þegar greinahöfundur virðist ekki ráða við einföldustu prósentu útreikinga. Það að hlutur A sé 200% dýrari en hlutur B þýðir ekki að B sé 200% ódýrari en A, þvert á móti er hann einungis 50% ódýrari.

  SvaraEyða
 5. Já já góði minn. Allt í lagi, ég skal vanda mig með prósenturnar.

  SvaraEyða
 6. Sæll

  Það vill svo til að ég á lita-laser prentara. Í hruninu sjálfu (2008) kostaði hylkið í prentarann rétt rúmlega 10.000,-

  Svo vantaði mig gulan og bleikan í prentarann þannig að ég ákvað að slá til og skellti mér í A4, þegar að ég var komin á kassann var ég rukkuð um rúmar 64.000,- kr. Þegar að ég spurði hví í ósköpunum þetta væri búið að hækka svona gífurlega. þá fékk ég það vingjarnlega svar frá starfsmanninum "Krónan er búin að falla svo mikið" Það þýddi nú ekki að diskútera þetta við aumingjasstarfsmanninn þannig að ég afþakkaði pent, leið eins og öryrkja að hafa ekki efni á dufthylki í prentarann minn og henti svo prentaranum ...........

  Í ofanálag þá keypti ég prentarann á 26.þúsund árið 2007 með 4 hylkjum svörtu-bleiku-bláu-gulu

  SvaraEyða
 7. Ég lét fylla á Canon-hylkin mín og örfáum mánuðum síðar var prentarinn minn 2-3 ára gamall dæmdur ónýtur vegna þess bleks. prenthausinn sem sagt ónýtur vegna stíflu úr eimitt þeim lit sem áfyllingin var í. Dýr sparnaður það!

  SvaraEyða
 8. Ég fór og keypti mér þetta ódýra blek í Myndbandavinnslunni og prentarinn er búinn að láta eins og kjáni síðan. Prentar annað hvort allt með klessum, eyðum eða gruggugum litum.

  Ég sé hálfpartinn eftir þessum gífurlega sparnaði (keypti tvö sett af öllum litum).

  Held að ég geri þetta ekki aftur :-(

  SvaraEyða
 9. Sæl/l nafnlaus nr. 4.

  Þetta sem þú lýsir þarna eru sjúkdómseinkenni á stífluðum prenthausum og hafa lítið með blektegundir að gera. Svona lét prentarinn minn eftir að hafa staðið óhreyfður of lengi og var þó fullur af ekta Canonbleki.

  Hér er meðal annars síða sem ég studdist við þegar ég var að spá í mínum prentara. Svínvirkaði

  http://www.castleink.com/_a-clean-canon-print-heads.html

  Hef líka prófað Agfa blekið frá Myndbandavinnslunni og það virkar prýðilega.

  SvaraEyða
 10. Ég var að panta mér blekhylki í canon ip4300 prentara, hann notar 1 svart hylki númer 5 og 4 númer 8. Í staðinn fyrir að kaupa þetta hér á Neskaupstað á 2.999.- krónur (hylki nr 8, spurði ekki hvað nr 5 kostar), þá pantaði ég þetta sett hér:

  http://inkredible.co.uk/Default.aspx?View=Offers&OffersView=OfferView&OfferID=4138&CategoryID=2425

  þá var það reyndar á tilboði upp á 25 pund, en er nú á 35. Þetta eru semsagt 4 sett af öllum litum í prentarann, 20 hylki í allt. Ef ég hefði keypt 20 hylki hérna í bænum hefði það kostað mig 60.000 kall, ca. 45.000 hefði ég pantað hjá elko.

  25 pund eru ca. 4500 kall, með tollum og vörugjöldum mætti þetta tvöfaldast en væri samt stjarnfræðilega mikið ódýrara en hér á landi.

  SvaraEyða
 11. Ég kaupi allt mitt blek af www.eldflaug.is

  SvaraEyða