fimmtudagur, 13. maí 2010

Vodafone okur í Ameríku


Í kjölfar fréttar um verðskrár á farsímamarkaði þá sendi ég póst á fréttastofu RÚV um samskipti mín við Vodafone í kjölfar ferðalags til Bandaríkjanna, en verðskrá félagsins í Bandaríkjunum er alveg svívirðileg. RÚV hefur ekki gert neitt með þetta, en ég tel þetta eiga erindi til almennings.
Ég átti í samskiptum við Jóhann Másson framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs hjá Vodafone vegna þessa, en hann hafði lítinn áhuga á því að breyta stöðunni.
Samskipti okkar hófust eftir að ég fékk reikning vegna farsímanotkunar í Bandaríkjunum. Mér þótti fátt um skýringar Jóhanns, einkum þegar litið er til samanburðar á verði viðskiptavina Vodafone á Íslandi og viðskiptavina Vodafone í Bretlandi, en þar munar rösklega 150 krónum á mínútu á verðskrá notenda á ferðalagi í Bandaríkjunum.
Vodafone Ísland 2,24 Evrur mínútan, Vodafone Bretland 1,35 Evrur mínútan, hringt innan eða frá BNA.
Þá leitaði ég að dýrustu símtölum landsins. Þar lá beinast við að leita að svokölluð virðisaukandi númerum, 900 númerum. Dýrustu símtölin eru ýmis söfnunarnúmer, en þau hafa það sammerkt að ein tilgreind upphæð er gjaldfærð á símareikning þess síma sem hringt er úr. Geta upphæðir numið frá kr. 1.000 allt að kr. 5.000.
Dýrustu símanúmer sem ég fann sem innheimt eru samkvæmt tímamælingu eru 900 númer með kynlífsspjalli hjá Rauða torginu, en dýrustu símtölin þar samkvæmt verðskrá á vefsíðu þeirra eru kr. 299 á mínútu.
Sammerkt með öllum 900 númera þjónustum er að tilgreint er áður en símtal hefst hvað það kostar. Er það gert samkvæmt 5. mgr. 38. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003:
„Ef símtöl bera yfirgjald skal þjónustuaðili ávallt geta þess í upphafi símtals hver fjárhæð gjaldsins sé. Áskrifandi skal eiga þess kost að læsa fyrir símtöl í númer þar sem tekið er yfirgjald. Nánar skal kveðið á um símtöl og aðra virðisaukandi þjónustu í [tal- og farsímanetum]1)með yfirgjaldi í reglugerð.“
Samkvæmt skilgreiningu 3. gr. laga nr. 81/2003 - Yfirgjald: Gjald fyrir virðisaukandi þjónustu sem er hærra en almennt símtalagjald.
Hér má vitaskuld fara í hártoganir um skilgreiningu á virðisaukandi þjónustu, en ég lít svo á að það sé virðisaukandi þjónusta að sjá um greiðslumiðlun fyrir erlend símafélög, því fæ ég ekki betur séð en að lögum samkvæmt þurfi símafélögin að geta í upphafi hvers símtals í útlöndum hver fjárhæð gjaldsins sé. Það dugi ekki að geta þess einhversstaðar djúpt á heimasíðu, þar sem mínútuverð er gefið upp í Evrum, sem mig grunar að sé ólöglegt, en það er önnur saga.
Að lokum, það var vegna okurs eins og þess sem kemur fram hér að neðan sem Evrópuþingið setti lög sem takmarka verðskrá símafélaga á milli landa innan sambandsins. Ekki hefur verið tekið á þessu gagnvart Bandaríkjunum, en engar líkur eru á því að símafélögin ríði á vaðið með þetta sjálf á meðan skepnan verpir gulleggjum.
kk,
Sigurður Ingi Jónsson

7 ummæli:

  1. Það hefur verið vitað í mörg ár hverskonar viðskiptahættir eru stundaðir hjá Vodafone. Glæpamenn og ekkert annað. Því fyrr sem fólk fer úr viðskiptum við þá því betra.

    SvaraEyða
  2. Verðskrá Símans er líka svona. Þar reyndar kostar alveg heilan 600kr/mín að hringja frá Bandaríkjunum, og 99kr/mín að hringja frá Evrópu. Þetta eru hefðbundnar áskriftaleiðir. Síminn bíður uppá afsláttaleiðir, ég veit ekki með Vodafone.

    SvaraEyða
  3. Mér sýnist Jón Frímann verðskrá Símans ekki vera svona. Hún er ódýrari miðað við það sem ég sé.

    Ertu viss um að þú sért að skoða rétt ?

    SvaraEyða
  4. Er eitthvað við símafyrirtækin að sakast, þegar fyrirtækin leggja ofan á þetta úti??
    T.d hef ég heyrt af símafyrirtækjum í USA sem rukka erlenda notendur um umferðina. Bara það að hringja í þig og þú svarar ekki, x kr.

    SvaraEyða
  5. Bandaríkin eru afskaplega slæmt dæmi um útlandanotkun þar sem að Bandaríst fjarskiptafélög eru mjög ósveigjanleg og dýr þegar kemur að hleypa öðrum inná kerfin sín.

    Þar er rukkað fyrir móttekin símtöl, stundum móttekin sms og alltaf reynt að finna dollara og cent fyrir eitt og annað. ef það er hægt að rukka fyrir það gera þeir það. þeir hafa viðskiptamodel sem evrópubúar myndu ekki vilja sjá.

    Plús að gengið er ekki að hjálpa neinum hér.

    Meirihlutinn af tekjum varðandi notkun GSM síma í útlöndum fer til fjarskiptafélagsins sem að skaffar kerfið, það er erlenda símafélagið.

    SvaraEyða
  6. Sparnaðarráð: Ef menn eru erlendis lengur en 2-3 daga getur borgað sig að kaupa frelsiskort (auðvelt í flestum löndum - kostar t.d. 5 pund með 5 punda inneign í Bretlandi).
    Smá vesen að láta alla vita af nýja númerinu, en getur borgar sig á 2-3 símtölum.
    Það er margfalt ódýrara að hringja úr því númeri, og það kostar ekkert að svara (en dýrara fyrir þann sem hingir í mann).

    SvaraEyða
  7. Við hjónin höfum líka lent í svipuðu í USA. Fékk yfir 50 þús kr reikning fyrir nánast enga notkun. Við höfum eftir þetta keypt okkur farsíma með frelsi t.d. í WalMart á um $30 með 300 mín. inneign.
    Sjá þennan tengil: http://www.walmart.com/ip/NET10-LG300-Bundled-w-Bonus-Phone-Case-Hands-Free-Headset-and-Car-Charger/10714716

    SvaraEyða