sunnudagur, 30. janúar 2011

Ódýrustu sígaretturnar í bænum?

Í Smáralindinni, í ganginum við kassana í Hagkaup, er nú komin tóbaksbúðin Júbí. Þar eru seldar rafsígarettur, vatnspípur og allskonar framandi tóbak til að setja í þær. Í óspurðum fréttum tjáði starfsmaðurinn mér svo að þarna fengjust ódýrustu sígaretturnar í bænum: 810 kall pakkinn af Marlboro, Camel o.s.frv., og eitthvað ódýrara af Gold coast og slíku. Getur einhver toppað þetta?
Dr. Gunni

laugardagur, 22. janúar 2011

Ódýr rör

Nú er mikið auglýst allskonar ávextir og safar til að búa til (skyr)boost heima hjá sér í blandara. Eiginlega er nauðsynlegt að sjúga boostið upp með röri. Bestu kaupin eru hjá Tiger: þar fást 100 rör í poka á 200 kall. Þetta eru svört rör og alveg passlega breið til að sjúga upp heimalagað skyrboost. Til samanburðar eru 36 breið rör í pakka hjá Megastore á 298 kr.
Dr. Gunni

Ódýrt gos á Reykhólum

Ég sé mig eiginlega tilneydda að hafa samband við þig. Málið er að ég vinn á Reykhólum í Reykhólasveit og hef verslað við verslun hér á staðnum sem ber nafnið Hólakaup. Þegar ég fer í Hólakaup þá versla ég mér stundum Pepsi eða Appelsín. Fyrst þegar ég verslaði mér þessa gosdrykki í Hólakaupum þá tók ég eftir verðinu á 1/2 líter Pepsi og Appelsíni ... aðeins 119 kr. flaskan í dag ( var 129 kr í haust ).. Ég spurði verslunarstjórann og eiganda Hólakaups hverju þetta sætti, svona verð sæi ég aldrei í Rvík eða á höfuðborgasvæðinu. Eyfi svaraði, en svo er verslunareigandinn nefndur hér á staðnum ... ,, til hvers að hafa hærra verð þegar mér nægir að hafa þetta verð og tapa ekki á því?
Hvernig stendur á þessum mikla verðmun í Reykjavík og hér á Reyhólum ? Mér ofbýður þessi verðmunur, það er ekki að byrja neitt núna þetta ódýra verð á gosi hérna, ég kom hingað í fyrsta sinn í júlí í fyrra og þá var þetta verð eða 129 kr. sem er 100 kr. minna en á samskonar gosi í bænum.
Með bestu kveðju,
Guðbjörg Elín

Að borga fyrir að borga

Hér er smá ábending.
Hér á heimilinu var að detta inn um lúguna Álagning vatns- og fráveitugjaldayfirlit.
Ég rak augun í eitt atriði sem ég er alls ekki sáttur við en þar sem um OR er að ræða ætti það ekki að koma á óvart.
Á seðlinum stendur: „Ofan á mánaðarlega greiðslu leggst tilkynningar- og greiðslugjald kr. 87,- þar af er vsk. kr. 18,-“
Ef við reiknum með 100 þúsund heimilum í viðskiptum við OR er þetta dágóð summa sem verið er þarna að rukka neytendur um mánaðarlega og það fáránlega er að það er ekki hægt að túlka þetta öðruvísi en svo að nú eigi almenningur, neytendur, að borga fyrir að greiða reikningana frá OR! Reikninga sem í flestum tilfellum fara sjálfsagt í heimabanka og áreiðanlega drjúgur hluti í greiðsluþjónustu. Mér reiknast svo til að þarna geti verið um 100 milljónir á ári að ræða. Og ef þetta er ekki að koma aftan að neytendum þá veit ég ekki hvað á að kalla þetta.
Er þetta heimilt?
Allavega er þetta ekki í lagi. Það er að minsta kosti klárt að ef OR þarf einhverntímann að kaupa þjónustu af mér þá hlýtur mér að vera heimilt að skella svona 10 þús kall ofan á reikninginn svo þeir allra náðarsamlegast fái að borga.
Vildi vekja athygli á þessu.
Með kveðju,
Þorsteinn Úlfar Björnsson

Siliconhosur fyrir Ford Transit

Mig vantaði síliconhosur fyrir tvo Ford Transit Connect bíla sem ég á.
Þessar hosur eru fyrir "intercoolerinn" og eru 2 stk í hvorum bíl.
Þannig að mig vantaði 4 hosur. Þetta eru ekki stórar hosur, lengd:
13-14cm og 5,1cm í þvermál:
http://cgi.ebay.co.uk/BLACK-2-51mm-ID-Silicone-BELLOW-HUMP-HOSE-Turbo-/270685361766?pt=UK_CarsParts_Vehicles_CarParts_SM&hash=item3f061ad666#ht_1996wt_905

Ég hringi í Brimborg og fæ upplýsingar um verð og þeir segja að
stykkið kosti tæpar 18.000- krónur. Sem sagt rúmar 70.000- krónur fyrir 4 stk.
Ég þakka bara fyrir upplýsingarnar og fer á Netið þegar heim er komið.
Eftir smá leit og eftir að hafa skoðað nokkur spjallborð þar sem
umræðuefnið er um Ford, þá finn ég þessar hosur (ekki original) heldur
frá framleiðanda sem heitir VIPER Performance. Mikið var mælt með þeim
á síðunum og meira að segja sagðar mun betri en þessar frá Ford. Ég slæ
til og kaupi þær á eBay UK og fékk þær sendar heim að dyrum nú í dag.
Heildarkostnaður með öllum gjöldum og VSK fyrir 4 stk... og haltu
þér: 26.400-ISK, s.s. stykkið til mín á um 6.600- kr.

Álagning bílaumboða og annara smásala hér á landi er að drepa alla
verslun í landinu. Ekki dettur mér í hug að versla varahluti í bílinn
minn framar hér á landi. Sest bara fyrir framan tölvuna og panta þetta
og bíð svo bara rólegur í sófanum eftir að pósturinn kemur með þetta
heim til mín.

Kveðja,
Arnar

mánudagur, 17. janúar 2011

Blue Lagoon vörur í Danmörku

Ég er búsett í Danmörku og var að versla í súpermarkaði þegar ég rakst á Blue Lagoon vörurnar. Full af hinu íslenska þjóðarstolti fór ég að skoða vörurnar nánar en vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta þegar ég sá verðmiðann; 50 kr. Skv. Myntbreytu Íslandsbanka eru það 1.022 íslenskar kr. Ástæða þess að ég brást svona við er að um jólin keypti ég kísilmaskann frá þeim heima á Íslandi og borgaði 6.500 isk. fyrir hann. Ég er bara ekki að skilja hvernig stendur á því að ég fái íslenska vöru svona miklu ódýrari í Danmörku?! Er svona mikil álagning á þessu eða hvað er eiginlega í gangi? Þess má geta að á vefsíðu Bláa lónsins er gefið upp verðið 60 Evrur á kísilmaskanum, en það eru rúmar 9000 kr!
Bestu,
Hrefna Rós

Dorothy Perkings - Ísl vs. UK

Ég var á rölti í Smáralindinni á dögunum og kíkti inn í tuskubúðina Dorothy Perkins sem er hluti af breskri keðju (í eigu Baugs ef ég man rétt). Þar voru bolir með breskri merkingu "2 for 12£" sem á gengi dagsins í dag gera 2215 kr. Íslenska verðið: 2495kr fyrir EINN bol!
Flutningskostnaður? Tollar? Gengi? Þætti fróðlegt að heyra útskýringuna á þessum rosalega verðmun.
Anna

laugardagur, 15. janúar 2011

Strákarnir okkar í HD

Stöð 2 náði útsendingarrétti af HM í handbolta eins og þekkt er orðið.
Auglýsa grimmt þessar útsendingar og klikkja svo út að þeir sendi út
íslensku leikina í HD. Ég kaupi aðgang að Stöð 2 Sport til að fylgjast
með strákunum okkar. Þetta er eina stöðin sem ég kaupi af 365 miðlum. Svo
byrjar þetta og þá sé ég að útsendingin er ekki í HD. Hringi daginn eftir
(laugardaginn 15. janúar) og er þá sagt að ég þurfi að kaupa Stöð 2
Sport 2 til þess að sjá leikina í HD. En ég hef hvergi séð þetta
auglýst svona, skoðaði heimasíðuna þeirra og þetta kom ekki fram þar,
nema þá vel falið í ósýnlega smáaletrinu þeirra. Mér finnst þetta
vera til háborinnar skammar en lýsir kannski viðskiptasiðferði
þessarar stofnunar.
Kjartan Þór Guðmundsson

Dónaskapur á verkstæði Pfaff

Ástæðan fyrir því að mig langar til að setja inn innlegg hérna er sú að fyrir stuttu keypti ég Sennheiser heyrnatól í Elko, ekkert merkilegt með það annað en að mánuði seinna þá var snúran við jackinn orðin ber sem þýddi að eftir örlitla notkun í viðbót færi hún í sundur og það þyrfti að skifta um jack (sem er ekkert mál og ég myndi bara gera það sjálfur en vírarnir voru þannig að það reynist erfitt.)
Allavegana þá fer ég niður í elko og bið um annaðhvort viðgerð eða ný heyrnatól þar sem ég var bara búinn að eiga þau í mánuð. Starfsmaður Elko segir að það þurfi að senda þau í Pfaff þar sem þeir eru með umboðið fyrir Sennheiser og segir að ég get farið með þau sjálfur niður eftir svo þetta taki styttri tíma. Ekkert mál, ég geri það og bíð eftir afgreiðslu í Pfaff og þegar kemur af mér er ég sendur niður á verkstæði (orðin dálítið pirri pirr á að skutlast út um allt.) Ég geri það og á verkstæðinu mætir mér starfsmaður sem veit ekkert og segist þurfa að spyrjast fyrir um þetta. Ég bíð eftir öðrum starfsmanni sem kemur til baka og horfir í augun á mér og segir "Nei við tökum ekki við þessu" ég segi undrandi "nú? afhverju ekki, ég er búinn að eiga þau í mánuð og snúran er ber.." Varstu í flugvél? segir hann með dónalegum tón.
Nei. svara ég og segi að ég nota þau bara í vinnuni.
Þá rífur starfsmaðurinn upp snúruna og opnar hana enn frekar og þar afleiðandi ekki nokkur leið fyrir mig að reyna að halda þessu saman með teipi sem var plan B hjá mér. Hann segir "þetta er það sem þú ert búinn að vera að gera og þar afleiðandi er þetta þér að kenna og við lögum þetta ekki."
Ég segi nú bara satt að ég er búinn að vera í víðum vinnubuxum og enginn óvenjulegur tegjanleiki eða óvenjuleg notkun á tólunum. Hann segist ekki trúa mér og tekur dæmi um það að ef hann kaupir bíl og klessir hann á vegg þá á hann engan rétt á að láta gera við hann.
Sem er svo sem rétt en þetta dæmi er bara ekkert í samanburði við heyrnatól og í þokkabót er hann með dæmandi augnaráð og dónaskap allan tímann.
Þetta gerði mig mjög reiðann og ég strunsaði út og núna eru heyrnatólin bara uppí hillu.
Ég hefði bara sætt mig við það allt saman með engum pirring hefði hann sagt "við getum gert við heyrnatólin fyrir þig fyrir þetta verð ..bla bla bla..
en því miður getum við ekki gert það frítt þar sem ábyrðin nær ekki yfir svona skemmd." Sem myndi bara láta mig segja "léleg heyrnatól þar sem það er bara hægt að nota þau í mánuð og svo þarf að gera við, takk og bless."
Ultimate niðurstaða er sú að ég versla aldrei við Pfaff þar sem bara dónaskapur mætir manni þar.
-Aron

fimmtudagur, 6. janúar 2011

Dýr skyndibiti í Hafnarfirði

Mér er farið að ofbjóða hvað sjoppur bæjarins eru farnar að rukka fyrir sveittan skyndibita. Í gær var ég seint á ferðinni og ákvað að kaupa 2 hamborgaratilboð í einni af sjoppum Hafnarfjarðar. Ég byrjaði á Holtanesti, þar kostaði þessi týpíski pakki, hamborgari, franskar og 0,5 ltr. gos rétt undir 1000 kr. Ég gat ekki ímyndað mér að þessir borgarar væru 2000 kr. virði, svo ég fór á Jolla í Hafnarfirði, þar kostaði alveg eins tilboð yfir 1000 kr. og mér hreinlega ofbauð. Ég endaði á Snælandsvídeó þar sem nákvæmlega eins samsett tilboð er á 650 kr. Þetta er nánast orðið jafndýrt og á veitingahúsum og engan veginn þess virði.
Hafdís

miðvikudagur, 5. janúar 2011

Innleggsnóta eða endurgreiðsla?

Kveikjan af þessum skrifum eru kaup sem ég gerði í ónefndri tækjaverslun
útí Ameríku í sumar. Ég var beðinn um að kaupa ljósgrænan ipod touch af
systur minni. Mér varð á og keypti óvart bláan ipod touch. Þegar ég kom í
búðina sem seldi mér vöruna var mér sagt að því miður ættu þeir ekki til
ljósgrænan ipod. Andskotinn, hugsaði ég með mér. Sit ég þá uppi með 30.000
króna inneignarnótu í einhverri tækjabúð sem ég get ekki notað á næstunni.
(ATH: Þetta var ekki apple store heldur önnur búð).
Þegar ég hafði bitið í vör mína og ætlaði að sætta mig við tapið spurði
afgreiðslumaðurinn hvernig ég vildi fá endurgreiðsluna. Ég var hvummsa og
spurði hvort ég hefði val. Já sagði hann. Þú getur valið hvort þú vilt fá
peninginn til baka, inneignarnótu, aðra vöru eða endurgreitt inná
greiðslukort. Ég valdi peninginn og fór þarna út sæll og glaður.
Þegar ég kom heim ákvað ég að gera smá tilraun. Ég fór í nokkrar verslanir
á höfuðborgarsvæðinu eingöngu í þeim erindagjörðum að versla vörur til að
skila næsta dag. Ég sé ekkert athugavert við þetta, vörurnar voru í
upprunalegum umbúðum og ég var með kvittun með mér í öllum tilvikum.
Niðurstöður voru sláandi. Allar verslanir nema tvær bjóða eingöngu uppá
innleggsnótu. Ég ætla ekki að segja hvaða búðir bjóða uppá innleggsnótu en
þær búðir sem bjóða uppá endurgreiðslu eru verslanir Elko og Toys r us.
(Mér skilst að Ikea geri það líka ef þú ert með kvittun og varan er í
upprunalegum umbúðum)
Hver hefur réttinn hérna? Auðvitað ætti neytandinn að hafa réttinn og
valið um það hvernig hann vill fá endurgreitt ef hann hefur ekki þörf eða
not fyrir vöruna og uppfyllir öll skilyrði fyrir vöruskilum. En því miður
er það ekki svo á Íslandi í dag. Það virðist hafa skapast sú hefð í
íslenskum verslunum að skikka neytendur til að versla við ákveðnar
verslanir einkum ef viðkomandi fær hlutinn að gjöf þá ertu neyddur til að
versla við ákveðið fyrirtæki. Þú átt að hafa val um það hvar þú vilt
versla og hvað þú vilt versla en því miður er það ekki svo á Íslandi í
dag.
Er ekki kominn tími á breytingar?
Nafnleysingi

Óánægð með skóviðgerð

Ég hef nú ekki skrifað hér áður en verð að koma því á framfæri sem ég upplifði um daginn, október 2010. Þurfti að láta setja nýja rennilás á leðurstígvél sem ég er búin að eiga í nokkur ár og var bent á skóvinnustofu Hafþórs í Garðastræti. Fór þangað og maðurinn sem afgreiddi mig sagði að það kostaði 7000 kr að setja rennilás í bæði stígvélin. Fannst þetta svoldið dýrt en sló til þar sem mikið var eftir stígvélunum, ég var beðin um að borga fyrirfram helming eða allt sem ég og gerði. Kom svo c.a. viku seinna og náði þau. Tveimur viku seinna tek ég eftir að rennilásin er að losna frá leðrinu á smá bút greinilega verið of grunnt saumað. Fór með þau og sá sami og ég hafið talað við áður lagaði þetta eins og skot. En þar með byrjaði ballið þegar ég er búin að vera í þeim í 1-2 vikur tek ég eftir að rennilásin er að byrja að rifna á sama stigvéli og var áður til vandræða. Fór með þau eins og skot og fékk vægast sagt ömurlegar mótttökur, dylgjur um að þau hlýtu að vera of þröng. Mátaði þau á staðnum og þar með var það úr söguni. En að þeir vildu taka ábyrð á að rennilás sem var settur í mánuði áður af þeim væri gallaður, kom ekki til mála. Buðu mér að laga þetta fyrir 6000 kr, þar sem að setja rennilás í kostaði nú 8400 kr - sem sagt, hafði hækkað um 1400 kr á einum mánuði, góð verðhækkun það. Eftir þras og rifildi þar sem ég vildi láta þá bera ábyrgð á sinni vinnu og laga þetta mér að kostnaðarlausu, sem kom ekki til mála, strunsaði ég út og var illilega misboðið og mun ekki eiga viðskipti við þá aftur og reyni að segja sem flestum frá þó ekki væri nema frá verðhækkununi.
Bestu kveðjur, Ingibjörg