þriðjudagur, 10. nóvember 2009

Okurbúllan Hagkaup

Vildi vekja athygli á okurbúllunni Hagkaupum. Þeir eru núna að selja vorlauk (innfluttan frá BNA) á tæpar 2000 krónur kílóið. Svo þykir það fréttnæmt að kílóverð á á fiski á fiskmörkuðum sé í hæstu hæðum og meðalverð í október hafi verið tæpar 278 krónur! Ég sé ekki betur en hérna sé komin lausn á efnahagsvanda þjóðarinnar: Garðyrkjubændur ættu að stökkva á þetta og byrja að rækta vorlauk til útflutnings - við værum ekki lengi að greiða upp skuldir þjóðarinnar miðað við þetta verð sem Hagkaup býður. Annars er smásöluverð á 120 g búnti af vorlauk í Bretlandi á 1300 krónur en þó virðist þessi verðlagning Hagkaupa algerlega út úr kortinu. Læt hér fylgja með tengil inn á breska heimasíðu (http://www.mysupermarket.co.uk/Shopping/FindProducts.aspx?Query=spring+onions) - það fer að verða spurning hvort ekki borgi sig að panta sitt grænmeti beint frá Bretlandi til að sleppa við okrið hér heima. Ég er líka viss um að gæði þess grænmetis eru miklu betri en þess svínafóðurs sem íslenskum innflytjendum þóknast að bjóða aumum Íslendingum. En þjóðin vandist snemma á maðkað mjöl og þótti barasta gott og því kannski engin ástæða til að gera miklar breytingar þar á.
En þar fyrir utan má vara sig stórlega á Hagkaupum: Ég keypti þar í sumar 150 g af furuhnetum, innfluttum frá Hollandi í loftþéttum umbúðum. Ég þurfti að nota 100 g í rétt sem ég ætlaði að hafa en þegar ég vigtaði úr pakkanum voru ekki nema 98 g í honum. Ég hringdi í Hagkaup og fékk uppgefið póstfang hjá innkaupastjóra og lét hann vita - hann hafði aldrei fyrir því að svara mér. Nokkrum vikum seinna tók ég eftir að búið var að breyta merkingum á umbúðunum og nú stóð að þær innihéldu 100 g. Ég brá nokkrum pökkum á vogina í greinmetisdeildinni í Hagkaupum og viti menn, þar voru nokkrir pakkar sem vigtuðu innan við 100 g (með umbúðum!). Ég vil skora á fólk að láta ekki Hagkaup komast upp með svona helvítins glæpamennsku og vigta þessar innfluttu vörur á voginni í grænmetisborðinu og staðfesta þannig magnið áður en það greiðir á kassanum.
Jón

11 ummæli:

 1. Þarna átti að sjálfsögðu að standa "að miðað við smásöluverð á 120 g búnti af vorlauk í Bretlandi þá væri kílóverð þar um 1300 krónur" og leiðréttist það hér með.

  Jón

  SvaraEyða
 2. Glæpamennska - ja hérna, Hells Angels bara farnir að stjórna Hagkaup.

  SvaraEyða
 3. jahh það er nú ekkert nýtt að hagkaup sé viðbjóðsfyrirtæki, það sem ég skil ekki hinsvegar er af hverju fólk sem líkar það illa heldur áfram að versla þar, það er hægt að fá flestallt sem þar fæst annarsstaðar og restin er eitthvað sem hægt er að lifa án.

  SvaraEyða
 4. Svona til að leiðrétta allan misskilning, þá ERU Hell's Angels farnir að stjórna Hagkaupum.

  ...og leiðréttist það hér með.

  SvaraEyða
 5. Passaðu blóðþrýstinginn kæri maður!

  Það er væntanlega ekki Hagkaup sem framleiðir þessar furuhnetur heldur eitthvað fyrirtæki út í bæ og það hlýtur að vera á þess ábyrgð að selja rétt uppgefið magn í pakkningunum. Fráleitt að Hagkaup eða aðrar verslanir geti farið að vigta hverja einustu vöru sem þangað kemur í hús. Einnig glatað að taka Hagkaup eitt og sér fyrir í þessu dæmi enda furuhneturnar líklega einnig seldar í fleiri búðum.

  SvaraEyða
 6. Sammála síðasta ræðumanni, ekki hægt að ætlast til að verslanir vigti alla pakka sem inn koma til að tékka hvort framleiðandinn fari með rétt mál um magn í umbúðunum, þótt ég viti reyndar til þess að lagerfólk taki stikkprufur, þá er það samt frekar í kjötvöru eða öðru með breytilegri vigt, að tékka hvort umbúðavigtin sé ekki örugglega dregin frá.

  Lélegt samt af innkaupastjóranum að svara ekki póstinum, þótt ekki væri nema bara með "takk fyrir ábendinguna".

  SvaraEyða
 7. nei auðvitað er það ekki fréttnæmt að fiskur skuli vera dýrastur í evrópu, á íslandi. Það þykir ekki fréttnæmt að Fiskur hafi hækkað hér undanfarið án skýringa!!

  ég kaupi mikið af Fiski og hef keypt hann í Hagkaup því ótrúlegt en satt þá eru þeir með ódýrasta verðið á frosni línuýsu. Einnig Sá ég í síðustu viku frosinn þorsk á 799 kr kg.
  Mínar kistur eru fullar af fisk og þakka ég og mín fjölskylda þeim fyrir það.
  Vona að þeir haldi þessu áfram að bjóða ódýran fisk á meðan Fiskverð hækkar!

  SvaraEyða
 8. Ef formúlan fyrir gróðavænlegum rekstri væri jafn einföld og margir virðast halda (útsöluverð - innkaupsverð = hagnaður), þá væri lífið nú einfaldara .. og vorlaukurinn trúlegast ódýrari, get vel trúað því að afföll í svona viðkvæmri c-vöru séu alveg geigvænleg ...

  SvaraEyða
 9. ..og vel á minnst, fiskurinn hefur ekki hækkað án skýringa. Skýringin er sú að evrurnar eða dollararnir sem útlendingarnir bjóða í hann tvöfölduðust skyndilega í verði, og því þurftu innlendir kaupendur að hækka sín boð í krónum til að eiga séns á að fá einhvern fisk..

  SvaraEyða
 10. Ég rambaði hingað inn aftur eftir að hafa lesið úttekt eyjunnar á síðu Doktorsins. Það sem mér finnst skondið varðandi sumar athugasemdirnar við þessa grein sem ég sendi inn fyrir margt löngu síðan er að sumum finnst greinilega í góðu lagi að fyrirtæki eins og Hagkaup selji gallaða vöru. Þetta er svona svipað og ef farið er á besnínstöð og keyptur 5 ltr. brúsi af bensíni og í honum væru síðan 4 ltr. af bensíni og 1 ltr. af vatni. Sumir væru væntanleg barasta ánægðir með það og rökin: auðvitað eru slík vörusvik ekki þeim að kenna sem seldi viðkomandi brúsa heldur þeim aðila sem fyllti á brúsann. Það er þá væntanlega ekki nema sjálfsagt fyrir bensínstöðina að halda áfram að selja svona brúsa enda ekki þeim að kenna að varan er gölluð?

  Nei, fólki sem sættir sig við svona viðskiptahætti er einfaldlega ekki við bjargandi og þá ekki nema sjálfsagt að það haldi bara áfram að láta svína á sér fram í rauðan dauðann. Það er líklega vant því (eins og ég minntist á í greininni) enda er fýsn í maðkað mjöl og rotnað grænmeti sennilega innprentað í gen þess.

  SvaraEyða
 11. Held það hafi nú enginn verið að segja að það væri í lagi að selja þessar vitlaust merktu furuhnetur, bara verið að benda á að það væri ekki verið að vigta hvern einasta pakka sem kemur inn í búðina til að staðfesta að það sem fram kemur á umbúðunum frá framleiðanda sé satt og rétt, enda færi tími starfsfólks þá varla í annað..

  SvaraEyða