miðvikudagur, 29. desember 2010

Í stappi við Eymundsson

Þannig vildi til að sonur minn fékk tvö stykki af sömu bókinni í
jólagjöf. Önnur var keypt norður í landi en hin hjá Eymundsson. Þar
sem við búum í Reykjavík var það augljóst að við myndum skila bókinni
sem keypt var í Eymundsson. Sú bók var reyndar ekki með skilamiða en
var þó með verðmiða merktum Eymundsson upp á 3990,- .
Í gær, fyrsta opnunardag eftir jól fór ég í Eymundsson í Kringlunni.
Þar átti ég að fá inneignarnótu upp á 3190,-. Ég var ekki sátt við það
þar sem verðmiði sýndi að bókin var keypt á 3990,-. Ég fékk þau svör
að núna væri bókin á tilboði og að þessi bók hefði örugglega verið
keypt á því tilboði þótt það væri enginn miði á henni sem gæfi það til
kynna. Enn var ég ekki sátt við þessi vinnubrögð því ég taldi að
verðmiðinn hlyti að gilda en þá var mér sagt að það væri ekkert hægt
að gera því afgreiðslukerfið byði ekki upp á annað en tilboðsverðið.
Ég tók því bókina.
Í dag hringdi ég í fyrirtækið og fékk samband við mann sem ég fékk að
kvarta við. Hann tók vel í erindi mitt og sagði það vera alveg ljóst
að ég ætti rétt á að fá inneignarnótu samkvæmt því verði sem á bókinni
væri. Hann sagðist ætla að hafa samband við Eymundsson í Mjódd, bað
mig um að senda kveðju frá sér til verslunarstjórans og sagði að hún
myndi leysa úr þessu fyrir mig.
Ég fór því seinnipartinn og bað um að fá að tala við verslunarstjórann
í Eymundsson í Mjódd. Þá kom í ljós að hún hafði ekki fengið nein
skilaboð og þegar á reyndi náði hún ekki í þann mann sem hafði lofað
mér úrlausn mála fyrr í dag. Hún sagðist einnig ekki geta látið mig fá
rétt verð á bókinni þar sem hún hefði ekki heimild til þess, þeim væri
hreinlega bannað að setja annað verð en tilboðsverðið.
Þetta var því tilgangslaus ferð fyrir mig í annað skiptið á tveimur
dögum. Ég sé því fram á að þurfa enn og aftur að hringja í Eymundsson
á morgun til þess að kvarta. Og væntanlega þarf ég þá í þriðja skiptið
að fara í Eymundsson bókabúðina til þess að skila einni bók.
Það sem upp úr stendur er þetta:Í fyrsta lagi hugsa ég til allra
þeirra sem fengu bækur í jólagjöf keyptar í Eymundsson og eru að skila
þeim núna. Þeir eru væntanlega flestir með skilamiða á bókunum sínum
en ekki verðmiða sem þýðir það að Eymundsson kemst upp með að láta
fólk fá inneignarnótur fyrir lægri pening en var hugsanlega eytt í
jólagjöfina. Í öðru lagi hef ég ekki mikinn áhuga á að versla meira
við Eymundsson eftir að hafa lent í þessu enda hafa þeir ekki mikinn
áhuga á að koma á móts við mig sem viðskiptavin. Sumir hugsa kannski
að þetta sé skitnar 800,- kr. en safnast þegar saman kemur. Fyrir mér
er þetta prinsipp mál. Rétt skal vera rétt.
Kveðja, Ástríður M. Eymundsdóttir

9 ummæli:

  1. Þetta er auðvitað skattur almennings til bankabókabúðarinnar.Þetta vandamál verður ekki til staðar mjög lengi því þessar búðir sofna innan tveggja ára.

    SvaraEyða
  2. Þegar vörur eru að hækka og lækka í verði, af hverju finnst fólki sanngjarnast að viðskiptavinur fái hæsta verðið sem hefur verið á vörunni? Er það ekki líka ósanngjarnt?

    SvaraEyða
  3. Nei, að sjálfsögðu á verslun að greiða til baka það sama og þeim var uphaflega greitt fyrir bókina... Hvaða tegund af blindu meinar fólki að sjá það ?!

    SvaraEyða
  4. 'Astríður,þessir snúningar hafa kosta þig meir
    en verðið sem stendur á bókinni,gefstu upp.

    SvaraEyða
  5. Nei ekki gefast upp,þú átt rétt að fá það sama sem borgað var fyrir bókina.

    SvaraEyða
  6. Í framhaldi af færslunni þá langar mig til að þetta komi fram. Ég hafði samband við fyrrnefndan mann hjá Eymundsson í morgun. Hann margbaðst afsökunar á þessu, lofaði að ég fengi inneignarnótu fyrir því sem bókin kostaði og bauðst til þess að senda mann með hana til mín svo ég þyrfti ekki að fara eina ferðina enn í bókabúð.

    Ég sagði það óþarfa enda þyrfti sonur minn að velja sér bók í stað hinnar. Ég fór því í Hallarmúla í dag og fékk bókinni skipt án nokkurra vandræða.

    Ég er því sátt við niðurstöðuna þótt mér finnist undarlegt hversu erfitt reyndist að fá það sem að mínu mati er rétt og sanngjarnt.

    Kv. Ástríður M. Eymundsdóttir

    SvaraEyða
  7. Þegar keyptar eru gjafir er góð regla að borga sérstaklega fyrir hverja gjöf og setja kvittunina með gjöfinni í lokuðu umslagi.

    SvaraEyða
  8. og þú ert nú þegar búin að eyða meiri pening í bensín og símakostnað

    SvaraEyða
  9. Skil prinsippið, en ég hef unnið í bókaverslun(Eymundson þar á meðal) og veit það fyrir víst að þegar bækurnar koma í hús eru allar bækurnar verðmerktar á fullu verði. þegar tilboðin fyrir jólin fara á fullt er settur áfsláttarmiði á sýniseintakið, þetta er gert til þess að þurfa ekki að eyða tíma í að endurverðmerkja hverja einustu bók aftur. Annaðhvort hefur sá sem verslaði bókina, keypt hana á fullu verði eða ekki, en þar sem hann hefur ekki beðið um skiptimiða eða tilkynnt um að þetta væri gjöf þá var verðmiðinn ennþá á. Eitt sem neitendur verða að gera sér grein fyrir er að það eru enginn lög varðandi skil á vörum. Það eru til reglugerðir frá neitendasamtökunum og hvetja þau verslanir til að fara eftir þeim og sem betur fer gera flestar það. En það er algerlega í höndum verslana að ákveða sínar skilareglur.

    SvaraEyða