Sýnir færslur með efnisorðinu kaffi. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu kaffi. Sýna allar færslur

þriðjudagur, 26. júlí 2011

Dýrt kaffi á hálendinu

Hálendismiðstöðin í Hrauneyjum selur kaffibolla úr pumpu á 400 kr. Bolli úr samskonar pumpu nokkrum km neðar í Árnesi kostar 200 kr. Þar sem poki af ágætis kaffi kostar um 800 kr finnst okkur þetta nokkuð vel í lagt hjá Hálendismiðstöðinni.
Jeppamaður

miðvikudagur, 20. apríl 2011

Dýrt kaffi hjá N1

Eftir að hafa lesið um kostaboðið á bensíni hjá N1 fór ég að pæla í því að 1 lítri af bensíni kostar nokkurnveginn það sama og einn kaffibolli hjá þeim (sem kostar orðið 220 krónur). Kaffibollinn er nota bene ca 200 ml. Lítrinn af uppáhelltu kaffi kostar þannig hjá þeim u.þ.b. 1100 krónur. Og svo köllum við bensínverðið okur?!?
Held að verð á kaffibolla sé eitthvað svipað á hinum stöðvunum, ekki alveg með þær tölur nákvæmar samt.
En ég veit fyrir víst að N1 fær sitt kaffi á mjöööög lágu verði frá birgja (Kaffitár) og að þeir fá sérmerktu bollana + lok gratís með, sem auglýsingu og spons. Svo ekki liggur kostnaðurinn þar.
Þeir bjóða reyndar uppá svona "ársbolla-kort", sem lækkar verðið pr. bolla allverulega (lækkar stöðugt við hverja áfyllingu, en er að sjálfsögðu hreinn gróði fyrir N1 sé það lítið notað af viðkomandi, rétt eins og gamla sagan af árskortum líkamsræktarstöðvanna).
En samt...
Gestur

miðvikudagur, 1. desember 2010

Ótrúleg verðhækkun á kaffi

Mig langaði að segja þér frá ótrúlegri verðhækkun á kaffi á kaffihúsum Súfistans. Ég hef heyrt af umræðu um yfirvofandi hækkun á kaffi og að kaffihúsin myndu þurfa að hækka kaffi sitt verulega vegna hækkana á heimsmarkaðsverði og bjóst því við einhverjum hækkunum. Ég er vön að kaupa mér latte og taka hann með mér og borga fyrir það 380 kr (var um 300 kallinn lengi vel) á meðan hinir sem drukku á staðnum og notuðu sætin og borðin og bollana á kaffihúsinu borguðu 430 kr. Nú hefur verðið á sama lattebollanum hækkað í 480 kr og sama verð er á kaffinu hvort þú takir með þér eða drekkir á staðnum. Hækkunin er 26% á einu bretti. Ég er fastgestur á Súfistanum en mér finnst rosalegt að borga næstum 500 kall fyrir kaffibolla, svo því verður líklega kippt út núna.
Kaffikarlinn

mánudagur, 12. júlí 2010

Rán um hábjartan dag í Hafinu bláa.

Fór í sunnudagsbíltúr með foreldrum mínum og syni, áfangastaður var
Stokkseyrarbakki, fín ferð í góðu verði. Á leiðinni til baka ákváðum
við að stoppa og fá okkur eitthvað í svanginn, kaffihlaðborð á Hafinu
bláa varð fyrir valinu, okkur þótti það reyndar nokkuð dýrt, 1900 kr.
á mannin en létum okkur hafa það. Þær kökur sem ekki voru frosnar voru
gamlar og harðar þannig að við borðuðum ekki nema eina sneið á mann.
Reikninginn takk, 10,600 TÍU ÞÚSUND OG SEX HUNDRUÐ fyrir kaffihlaðborð
fyrir fjóra, jú 4 x kaffihlaðborð= 7600+ 4 x kaffi 3000, kaffið er
ekki innifalið í auglýstu KAFFI hlaðborði heldur kostar gömul
uppáhelling 750 krónur á manninn, mig verkjar ennþá í rassgatið eftir
þessa ferð.
Með kveðju, Sveinbjörn Eysteinsson.

miðvikudagur, 7. júlí 2010

Hressó fær falleinkun

Læt mig hafa það að kaupa mér latte af og til á góðum kaffihúsum fyrir 3-400 kall.
Datt svo inná Hressó í dag, bað um latte með heslihnetusírópi. Fékk einhvern hrikalega rammann, brennheitan kaffidrykk sem smakkaðist hræðilega og reikning með sem á stóð 590 kr!
590 fyrir einn kaffibolla. Ég sendi drykkinn tafarlaust til baka og bað bara um venjulegt kaffi, fékk það og gerði svo upp reikninginn. Ekki tók skárra við.
Uppáhellinginn kostaði 470kr. Venjulegur kaffi á 470kr!
Ég er til í að borga 3-400 krónur af og til fyrir afbragðs kaffi sem er brennt og malað á staðnum og framreitt af fólki sem kann til verka eins og hjá Kaffismiðjunni eða Café Haíti en þetta var hreint og beint móðgun við mig sem viðskiptavin, bæði gæði vörunnar og svo verðið.
Hressó fær falleinkun og fer ég ekki þangað framar.
Ása Jóhanns

föstudagur, 27. nóvember 2009

Bitur reynsla út Bakarameistaranum

Ég verð bara að deila biturri reynslu sem ég varð fyrir hjá þekktri okurbúllu, nefnilega Bakarameistaranum í Mjóddinni.
Mikill kaffiþorsti varð skynseminni ofursterkari og ég kom við þar til að versla mér tvo tvöfalda macchiato.
Þetta voru sannarlega amatöra-macchiatoar, sú sem afgreiddi mig lenti í mesta basli við að freyða mjólkina og fékk loks starfssystur sína til að taka við. Þá var espressoinn búinn að bíða í take-away bollanum í tíu mínútur. Sú seinni náði loks tökum á freyðingunni og eftir kortersbið voru macchiatoarnir tilbúnir, kaldur espresso með rosalega mikilli freyddri mjólk.
Þá var komið að því að borga. „1190 krónur“ sagði stelpan. Ég leiðrétti hana og sagði að ég hefði bara verið með kaffi...
„Já, það kostar 1190 krónur. Það er líka alveg hellings vinna að búa svona til.“
Mér svíður enn í veskið.
Kveðja,
Sandra

föstudagur, 23. október 2009

Okrað í kaffiteríu Þjóðarbókhlöðunnar

Ég missti hökuna niður á búðarborðið í kaffiteríu Þjóðarbókhlöðunnar þegar
ég fór þar um daginn í sakleysi mínu og pantaði mér kaffi latte. Ég sem
ætlaði að gera mér glaðan dag og ákvað að taka mér 20 mínútna pásu frá
bókunum og hoppa með vinunum niður í einn kaffibolla eða svo. Ég sem
fátækur námsmaður átti bágt með að sleppa kortinu mínu í hendur
afgreiðsludömunnar , sem ég áleit hálfgert skrímsli eftir að hafa, stolt á
svip, gefið mér upp verðið á bollanum sem ég hafði pantað: „það gera 450
krónur“. Er þetta alveg eðlilegt? Mig langaði mest til að rífa kortið af
henni og strunsa burt, nema hvað að ég var komin með bollann milli
handanna og gat tæplegast hætt við.
Hverjum datt það í hug að það væri í lagi að hafa verðið á kaffiteríu
Þjóðarbókhlöðunnar, sem er „by the way“ aðallega ætluð námsmönnum, hærra
en á fínum veitingastað á borð við Lækjarbrekku. Það er ekki eins og maður
sé að borga fyrir þjónustu eða maður sé að borga fyrir að sitja í
huggulegu umhverfi, þess vegna get ég ekki áttað mig á því hvers vegna
verðlagningin þarna er svona há.
Ég hef verið að láta þetta fara mikið í taugarnar á mér og hef rætt þetta
við fleiri námsmenn og eru þeir allir sammála. Ein kom með dæmi um það
þegar hún ætlaði að kaupa sér myntur, og þá á ég við svona eins konar
ópalpakka, og hann kostaði 360 krónur á meðan hann kostar 207 krónur í
Hagkaup, og er ekki hægt að segja að Hagkaup sé ódýrast búðin.
Verðlagning búllunnar er fyrir neðan allar hellur og hef ég slitið á öll
mín viðskipti við hana, sem og fleiri sem láta ekki bjóða sér þetta.
Þetta er auðvitað argasti dónaskapur að nýta sér námsmenn á þennan hátt.
Dóra Björk

föstudagur, 21. ágúst 2009

Skrýtið verð í Bónus

Er ekki skrýtið að Gevalia rauður kaffipakki kostar kr 819 án vsk hjá innflytjenda vörunar, þegar samskonar Gevalia kaffi pakki kostar kr 509 með vsk í bónus. Síðan ef þú ferð í minni verslanir þá kostar þessi pakki milli 1000 kr og 1100 kr.
Skrýtið......
Kveðja,
Þórir B

mánudagur, 17. ágúst 2009

Kaffið í Freysnesi



Þann 23. júlí var ég á ferð um suð-austurland og kom við í Freysnesi A-Skaft.
Mér brá í brún þegar ég sá kaffiverðið og fór út í bíl og náði í myndavélina og
hér meðf. er myndin af kaffinu.
Kveðja,
Jens Gíslason