Ég gerði þau mistök fyrir nokkrum vikum að fara á "veitingastaðinn" Yummi Yummi í Smáralindinni. Þarna vorum við mæðgur í verslunarferð og þar sem hungrið fór að segja til sín ákvað sú eldri að fá sér eina með öllu á Bæjarins bestu enda klikkar það aldrei. Litla barninu mínu ætlaði ég að gefa ávaxtamauk úr krukku sem ég hafði keypt í Hagkaupum.
Ég aftur á móti vildi austurlenskan mat og ákvað að prófa Yummi Yummi. Mér fannst heldur dýrt að borga 990 kr. fyrir það sem ég sá vera frekar rýran skammt af núðlum en lét mig hafa það, ég var svo hrikalega svöng.
Ég fer að afgreiðsluborðinu og panta. Bið hann svo um skeið (t.d.plastskeið) svo ég gæti gefið litla barninu mínu að borða, en hana átti hann ekki til. Ég óskaði eftir vatnsglasi, það átti hann ekki til, s.s. glasið, bara einhverja gosdrykki í 1/2 lítra flöskum sem hann seldi dýrt og voru ekki í kæli að ég gæti séð.
Fjandinn hafi það, ég fór og keypti því gos hjá Bæjarins bestu til að skola þessu niður. Svo bíð ég í smá tíma eftir núðlunum.
Ég fæ núðlurnar í boxi, sest niður, fegin að hafa fengið gaffal, sem ég þurfti reyndar að biðja um sérstaklega. Ég opna boxið og við mér blasa núðlur sem hafa POTTÞÉTT verið teknar úr pakkningu úr Bónus, þið vitið þessar pakkanúðlur!! (ég borða svoleiðis stundum heima hjá mér svo ég veit hvað ég var að fá), svo rosalega þurrar og chilikryddaðar að ég gat engan vegin borðað þetta. Ég ætlaði nú heldur betur að skila þessu.
En afgreiðslumanninn/kokkinn var hvergi að sjá þó ég eyddi nokkrum mínútum í að bíða eftir að ég sæi hann til að ná tali af honum. Ég ákvað að ég væri búin að eyða nóg af mínum tíma þarna og fór.
Ég skildi því fjandans boxið eftir opið á borðinu, fullt af núðlum með gafflinum góða sem hafði þjónað því nytsama hlutverki að moka barnamaukinu ofan í svanga litla barnið mitt á meðan ég beið eftir "núðlunum".
Þangað fer ég ALDREI aftur og mun EKKI mæla með þessum stað.
Ég kom við á Bæjarins Bestu við hliðina á þessum stað og fékk mér eina með öllu nema hráum...... Hefði verið fjandans nær að gera það strax.
kv,
Íris
Ég fór þarna síðasta sumar einhvern tímann, ég er steinhissa að þessi staður sé ennþá í rekstri. Þetta var hreinn viðbjóður, rándýr hreinn viðbjóður.
SvaraEyðaSvona á náttúrlega ekki að bjóða fólki. Ég fór á einn núðlustað í dag sem er nú samt óþarfi að nafngreina. En þar keypti ég verstu núðlur sem ég hef á ævi minni smakkað. Enda skilaði ég þeim og fékk endurgreitt.
SvaraEyðaEr þetta sami staður og er efst á Laugavegi , fyrir ofan Hlemm ? Þar keypti ég í vetur verstu núðlur sem sögur fara af. Þær fóru beint í ruslið ...
SvaraEyðaJá hvað er málið með þennan stað - fór í fyrra og keypti núðlur. Þetta var mesti viðbjóður sem ég hef smakkað, án gríns, og gat ég ekki komið niður nema 1 bita. Henti rest. Skil ekki hvernig staðurinn helst í rekstri.
SvaraEyða