mánudagur, 15. nóvember 2010

Hvað kostar fiskurinn?

Á höfuðborgarsvæðinu eru þónokkuð margar fiskbúðir. Úrval er mismikið og framsetning misjöfn. Sumar fiskbúðir eru nútímalegar og gljándi og bjóða upp á framúrsefnulega rétti samhliða hefðbundnari, á meðan aðrar búðir líta út eins og allar fiskbúðir gerðu fyrir 30 árum síðan. Allar búðirnar eiga það þó sameiginlegt að kaupa hráefnið af sama uppboðsmarkaðinum, og það virðist ekki vera stíf verðsamkeppni í fisksölu í Reykjavík. Og þó. Ég athugaði verð á fimm algengum fisktegundum/réttum í átta fiskbúðum og tveim stórverslunum. Þetta eru niðurstöðurnar:



Nokkur verðmunur er á ýsuréttum, plokkfiski og fiskbollum, en það verður að taka með í reikninginn að innihald réttanna er mismunandi eftir búðum. Þessi könnun tekur aðeins mið af verði, ekki gæðum – sumir myndu jafnvel ganga svo langt að segja að hér væri verið aöð bera saman epli og appelsínur.

Samanburður á verði þorsks og skötusels er markvissari. Mestur er munurinn á skötusel. Tvær verslarnir bjóða kílóverð á undir 2000 krónum og er fiskbúðin í Spönginni með besta verðið. Það er 84% ódýrara en hæsta skötuselskílóverðið sem ég fann. Mun minni munur er á þorskflökum, þar er 25% munur á hæsta og lægsta verðinu.

Að lokum má geta þess að fiskur er hollur og góður – staðreynd sem flestum ætti að vera fullkunnugt um – og Íslendingar ættu að borða fisk að minnsta kosti einu sinni í viku, helst tvisvar (eða oftar!)

Dr. Gunni
(Birtist í Fréttatímanum 12.11.10)

4 ummæli:

  1. Fiskur helst 3-4 sinnum viku segi ég

    SvaraEyða
  2. Gestur þorláksson16. nóvember 2010 kl. 05:15

    gott að sjá hversu dýr fiskurinn er hvað ætli verðið á fiskimörkuðunum sé. er kominn hækkunn uppá þriðja hundrað prósenta nú væri gott að geta lifað á loftinnu því hver hefur efni á að borða fisk á svona prísum.

    SvaraEyða
  3. Gestur er munurinn á verðinu á fiski og lambakjöti eitthvað orðið minna heldur en það hefur verið síðustu hvað segjum allavegana 10-15 árin ?

    SvaraEyða
  4. Enn á ný virðist neytendafrömðurinn ekki kunna prósentureikning - þrátt fyrir ábendingu mína við fyrri pistil Gunnars um blekhylki. Það hlýtur að vera krafa að útreikningurinn sé í samræmi við fullyrðingarnar, þótt rangfærslurnar séu heldur minni hér en í fyrrnefndu dæmi um blekhylkin.

    Þrátt fyrir fullyrðingar Gunna um að skötuselur sé 84% ódýrari í Fiskbúðinni í Spönginni heldur en í Gallerí Fisk er raunin sú að Fiskbúðin Spönginni er bara 46% ódýrari en Gallerí Fiskur hvað þessa vörutegund varðar. Hins vegar er Gallerí Fiskur 84% dýrari en Fiskbúðin í Spönginni. Gunnar ýkir hér munin næstum því tvöfallt. Væri fullyrðing Gunnars rétt væri kílóverð skötusels í Fiskbúðinni í Spönginni 526 krónur, sem er víðsfjarri raunveruleikanum. Hins vegar er rétt farið með útreikning í tilfelli þorsksins og er það vel.

    Það hlýtur að teljast eðlileg krafa að menn er skrifa pistla í blöð um neytendamál og gefa sig almennt út fyrir að vera rödd neytenda geti sett fram gögnin sín með skýrum hætti og þannig haft samræmi milli útreikninga og umfjöllunar. Án þess verða niðurstöðurnar í besta falli túlkaðar sem grín og trúverðugleiki þessarar annars þörfu umræðu, dreginn niður í svaðið. Legg ég því til að Gunnar skrái sig annað hvort á kvöldnámskeið í prósentuútreikningi eða leiti ráðlegginga frá sér fróðari mönnum áður en slíkar rangfærslur eru viðhafðar af hans hálfu í framtíðinni.

    SvaraEyða