þriðjudagur, 2. nóvember 2010

Óboðleg „þjónusta“ Frumherja á Akureyri

S.l. föstudag, 29. október, voru síðustu forvöð að fara með bifreið með endastafinn 8 í númeri í aðalskoðun, án sektar. Ég er búsettur á Akureyri og hringdi í skoðunarstofuna Frumherja á fimmtudegi. Þar er mér tjáð að opið sé til kl. 16 á föstudegi og ég þurfi ekki að panta tíma, bara mæta á staðinn. Kem kl. 15 í Frumherja. Þá hafa myndast langar biðraðir bifreiða fyrir utan. Mér er tjáð á skrifstofunni að ekki séu teknar fleiri bifreiðar í skoðun þennan dag. Ég geti komið eftir helgi en þá þurfi ég að greiða 7.500 kr. fyrir að koma of seint! Ung kona sem kemur á eftir mér fær sömu svör og liggur við gráti, hún eigi ekki fyrir sektinni. Ekkert tjáði að rökræða þetta við starfsfólkið. Það var ósveigjanlegt.

Ég var ekki varaður við þessu þegar ég hringdi. Hvers vegna í ósköpunum er verið að auglýsa opnunartíma til kl. 16 og að það þurfi ekki að panta ef fyrirtækið hefur ekki starfsfólk til að afgreiða þá sem koma fyrir kl. 16?! Hversvegna er ekki auglýstur styttri opnunartími og allir komist að sem mæta fyrir lok hans, eða að starfsmenn vinni þá yfirvinnu til að klára?

Hver er sanngirnin í því að hirða 7.500 kr. af kúnnum sem mæta á auglýstum opnunartíma og þurfa að snúa frá án þess að fá þjónustu?

Er þetta eitthvað sem fyrirtæki geta leyft sér í umhverfi þar sem skortir samkeppni?

Með bestu kveðju,
Jóhann Frímann Gunnarsson

17 ummæli:

 1. Finnur Ingólfss þarf að græða meira. Bara senda póst á hann.

  SvaraEyða
 2. Pabbi lenti í því að fara í Frumherja á Selfossi með hestakerru á leiðinni í bæinn í endurskoðun rétt um mánaðarmót og honum var bara sagt að það væru svo svakalega margir sem kæmu um mánaðarmótin að hann ætti bara að fara eftir helgi í bænum og lengdu þeir frestinn um mánuð svo hann þyrfti ekki að fá sekt. Þannig að m.v. þetta þá skil ég ekki þitt dæmi.

  SvaraEyða
 3. Þetta á auðvitað að skrifast á löggjafann líka en góðærislögin um að sekta fólk fyrir að draga að skoða eða að geta ekki skoðað þýða að vond þjónusta skoðunarfyrirtæki fitar Ríkissjóð. 7.500 kr renna til Gosa á Gunnarsstöðum, verndara Sagakapitál og fjármálaráðherra.

  SvaraEyða
 4. 7.500 kr renna í Ríkissjóð og eru sekt en tilgangurinn með þessu var að tryggja afkomu skoðunarfyrirtækja.

  SvaraEyða
 5. Ein lauflétt, af hverju þurftir þú að bíða til 29/10/10 kl: 15:00 að fara með bílinn í skoðun? Vill ekki móðga þig en menn hafa 4 mánuði á ári til þess að skoða ökutækið, í þínu tilfelli 01/07 - 31/10. Þegar að menn mæta klukkutíma fyrir síðasta mögulega séns í skoðun, þá eru þeir að bjóða hættunni heim. Fynnst bara skrýrtið að sjá þessa kvörtun hérna og ég veit ekki hvað fólkið hjá Frumherja á að gera við þessu á það að vinna yfirvinnu til þess að redda þessu eða hætta á umsömdum tíma.

  SvaraEyða
 6. Sammála síðasta aðila að það gengur ekki að allir mæti á síðasta degi enda nægur tími til að fara með bílinn í skoðun. Það er ekki hægt að ætlast til þess að það sé mannafli né aðstaða til að anna því. Ég hef farið með bíl í byrjun árs í skoðun sem átti að fara seinnipart árs og það var ekkert fundið að því.

  En að sama skapi finnst mér að skoðunaraðilinn eigi að geta veitt amk viku frest einu sinni til að gefa viðkomandi séns á að koma aftur án sektar þegar þeir þurfa að vísa fólki frá vegna anna.

  SvaraEyða
 7. Finnur græðir,meir í dag en í gær.

  SvaraEyða
 8. Þú mátt líka fara með bílinn allt að 6 mánuðum fyrir skoðunarmánuð, þó innan almanaksárs.

  SvaraEyða
 9. Frummælanda datt greinilega ekki í hug að aðrir bílaeigendur með endastafinn 8 gætu vera jafn vitlausir og hann, en ég get ekki kallað það að draga það að mæta í skoðun þangað til 60 mínútum fyrir allra síðasta séns annað en vitleysu. Að verða svo brjálaður útí Frumherja af því að þessi áætlun hafi ekki gengið upp bítur bara höfuðið af skömminni.

  SvaraEyða
 10. Látið Finn finna fyrir því og hættið að skipta við Frumherja.

  SvaraEyða
 11. Hvers vegna í ósköpunum varstu að bíða þangað til allra síðasta dag og allra síðasta klukkutíma. Og svo ertu nógu ósvífinn til að skammast út í starfsmennina.

  SvaraEyða
 12. Að koma klukkutíma fyrir síðasta sjens er auðvitað bara heimska! Hlægilegt dæmi um mannesku sem reynir að koma eigin sauðaskap yfir á aðra - og fer svo á netið að kvarta... Dæmigert!

  SvaraEyða
 13. ég lenti í þessu í reykjavík, að það var of löng röð, en þeir settu bara 30 frest á hann

  SvaraEyða
 14. En hvað ég væri til í að fólk myndi hætta að skammast hérna á þessum vef. Það geta verið margar ástæður fyrir því að bíllinn fór ekki í skoðun fyrr - peningaskortur, veikindi...

  Það ætti frekar að setja spurningamerki við það af hverju þetta tiltekna verkstæði virðist ekki hafa boðið 30 daga frest eins og aðrar skoðunarstöðvar innan saman fyrirtækis virðast gera.

  SvaraEyða
 15. Skoðunarstöðvar geta ekki gefið neinn frest varðandi vanrækslugjaldið. Ef þú ert með endurskoðun hins vegar, þá er hægt að framlengja hann á skoðunarstöð að því gefnu að það sé gert innan upphaflega frestsins. Sýslumaðurinn í Bolungarvík er sá eini sem getur lagt á eða gefið undanþágur frá vanrækslugjaldinu.

  SvaraEyða
 16. Aðalskoðun gerir þetta líka. Hættir að taka við bílum þótt enn sé opið. Hvers vegna? Af því að skoðunarkallarnir þurfa að fara heim kl 5!

  SvaraEyða
 17. það kostar soldið mikið að fara með bíl í skoðun, og þess vegna fara margir um mánaðamót þegar þau fá útborgað. Svo bilar eitthvað, einsog td kom gat á pustið, þannig að það tafðist að fara með bil í skoðun. Ég á fullt af svona sögum.

  SvaraEyða