föstudagur, 19. nóvember 2010

Öruggt kynlíf flokkað sem munaðarvara

Á Íslandi eru ótímabærar þunganir landlægar og kynsjúkdómar alltof algengir – þrír til fimm greinast með klamedíu á dag. Einfaldasta lausnin er að nota smokkinn. Áhættuhópurinn er krakkar á unglingsaldri og ungt fólk. Í þessum hópi er lítið verið að spá í neytendamál og því ábyggilega fáir unglingar leitandi bæinn á enda eftir ódýrustu smokkunum. Ekki er ólíklegt að þeir arki bara beint í næstu 10/11-búð þar sem dýrir smokkar blasa nú við þeim á kassanum – til dæmis þrír Durex í litskrúðugum álkassa á 799 krónur eða 12 smokka pakkar sem kosta á bilinu 1.899 – 2.299 kr.
„Afhverju eru smokkar svona dýrir á Íslandi?, er spurning sem kemur upp í hvert einasta skipti sem við förum að fræða framhaldsskólakrakka,“ segir Hólmfríður Helgadóttir hjá forvarnarstarfi læknanema, Ástráði. Félagsskapurinn heimsækir fyrstu bekkinga í nánast öllum framhaldsskólum landsins. „Svarið er að þótt ótrúlegt sé þá eru smokkar flokkaðir sem munaðarvara og því í hæsta skattþrepinu. Við skiljum ekki hvað réttlætir það að flokka öruggt kynlíf sem munaðarvöru, fyrir okkur þá hljómar þetta álíka fáranlegt og að flokka
bílbelti sem munaðarvöru. Auðvitað ættu smokkar að vera skattfrjáls vara,“ segir Hólmfríður.
Hæsta skattþrep þýðir að 25,5 prósenta virðisaukaskattur er á smokkum. Umleitanir hafa staðið yfir síðan 1996 að fella niður lúxustollinn, en ekkert hefur enn gerst í málinu. Það er sláandi dæmi um alvarlegan sofandahátt í stjórnkerfinu. Allir eru þó sammála um að það myndi marg borga sig að lækka virðisaukaskatt á smokkum, því kostnaður af völdum kynsjúkdóma og fóstureyðinga er mjög hár. Með aukinni sölu smokka myndi því sparast gífurlegur kostnaður fyrir þjóðfélagið.
Þrjár tegundir smokka eru til sölu á Íslandi, frá Durex, One og Amor. Það á því að vera hægt að búast við einhverri verðsamkeppni í þessum geira. Í Bónus er ódýrasti 12 smokka pakkinn frá Durex á rétt undir þúsund krónum og 12 Amor smokkar í pakka eru til sölu í Krónunni á svipuðu verði. Á Íslandi má því fá smokka ódýrasta í kringum 80 krónur stykkið, sem er ekki mikið miðað við það ótrúlega vesen sem öryggi á oddinn getur afstýrt.

Dr. Gunni
(Birtist fyrst í Fréttatímanum 19.11.10)

3 ummæli:

 1. Mig langar að benda þér á að það eru fleiri en þrjár tegundir af smokkum. Ég sá nefnilega
  smokka í Tiger þegar ég var þar um daginn og þeir eru "Tiger" smokkar. Sá nú ekki verðið en get ímyndað mér að þeir séu talsvert ódýrari, veit hins vegar ekki hversu vandaðir þeir kunna að vera.
  Kv. Sigrún

  SvaraEyða
 2. Amazon er með þetta afar ódýrt

  http://www.amazon.com/OKAMOTO-Crown-100-Count-Pack/dp/B0029XFWPE
  http://www.amazon.com/OKAMOTO-BEYOND-SEVEN-STUDDED-48-Count/dp/B0029XFWZY

  Senda ekki Durex til íslands en það er nóg af öðrum tegundum í mismunandi pakkningum.

  Veit ekki hvort amazon.co.UK senda Durex til landsins, ætli þeim sé það ekki skylt vegna EES samninga?

  SvaraEyða
 3. Mér langar að leiðrétta þetta, það er eins og er til sölu smokkapakki með 18 stykkjum í pakka á tæpar 500 krónur í Bónus, þeir eru í körfum við kassana svo fólk þurfi ekki að leita!

  SvaraEyða