föstudagur, 26. nóvember 2010

Engiferdrykkir og ódýr fiskur

Engifer-drykkir virðast vera nýjasta heilsuæðið á Íslandi. Nokkrar tegundir eru í boði og er mismikill leyndarljómi yfir tegundum. Drykkirnir eru síður en svo gefnir, sá ódýrasti er af tegundinni Zing og fæst í Bónus á 1.698 krónur, 2 l flaska. Aðrar tegundir eru dýrari, enda leyndardómsfyllri. Ekki veit ég hvers vegna þessi verð eru svona há því innihaldslýsingin gefur ekki tilefni til þessa verðlags. Þvert á móti er hráefnið frekar ódýrt. Kíló af engifer kostar 579 krónur í Bónus, kíló af lime er á 459 kr, kíló af hrásykri á 596 kr og 50 grömm af myntublöðum á 398 krónur. Vatnið kemur svo úr krananum.

Jafnvel mestu eldhúsklaufar eins og ég geta náð upp leikni við að búa til sína eigin engiferdrykki. Ekki þori ég þó að lofa jafn miklum árangri af svona heimagerðum drykkjum og dýru drykkirnir lofa. Það eru fá meinin sem leyndardómsfyllstu engifer-drykkirnir lofa ekki að bæta.

Netið er stútfullt af uppskriftum um engiferdrykki. Magn hráefna fer eftir því hversu sterkan drykk maður vill gera og verður maður að leyfa sér smá tilraunastarfssemi í byrjun. Svona sirka býr maður til sinn eigin drykk:

Engiferrót er söxuð smátt

Sjóðandi vatni helt yfir og þetta kramið svolítið með mortéli til þess að ná bragðinu úr engiferinu.

Limesafa og krömdum myntulaufum bætt í eftir smekk.

Hrásykri bætt í eftir smekk (eða bara sleppt).

Vilji maður fá auka hjálp í baráttunni við kvef kremur maður smátt saxaðan chilli-pipar (og hvítlauk) með engiferinu.

Kælt (eða drukkið heitt eins og te).

En nú að öðru. Nýlega gerði ég könnun á fiskverði á höfuðborgarsvæðinu. Í framhaldi af því fékk ég bréf frá Fiskbúðinni okkar sem framleiðir ferskan fisk fyrir Bónus. Þeim finnst þeir alltaf lenda útundan í verðkönnunum en segjast þó hafa lagt sig fram um að framleiða ódýran og góðan fisk. Kílóverð á roð og beinlausum ýsuflökum í Bónus er 998 kr., en algengt verð í fiskbúðum er á bilinu 1500-1900 kr. Svipaða sögu má segja um fiskibollur (699 kr. – 10% afsláttur við kassa (sama verð frá árinu 1999)) og ýsuréttirnir kosta 998 kr. kg. Bónus virðist því vera með lægstu verðin á ferskum fiski, eins og svo mörgu öðru.

Dr. Gunni
(Birtist í Fréttatímanum 26.11.10)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli