föstudagur, 26. nóvember 2010

Varúð - Matseðillinn á Pizza Hut

Ég vildi bara benda fólki á að hafa verðið í huga er það pantar staðlaðar
pizzur af matseðli Pizza Hut

Þannig kostar stór hawaii pizza (með skinku og ananas) 4.990 krónur.
Stór pizza með skinku og ananas kostar hins vegar 4.650

Eins kostar stór sjávarétta pizza (með túnfisk, rækjum og rauðlauk) 6.130
krónur
En stór pizza með túnfisk, rækjum og rauðlauk kostar 5.230

Það borgar sig að rýna í verðið

Kv. virkur neytandi

Fúl með Krakkahöllina

Ég var svo fúl um daginn þegar ég fór með börnin mín þrjú í Krakkahöllina á
Korputorgi. Það kostar inn um helgar 1000 kr. og það sem mér finnst ömurlegt að
það er enginn systkina afsláttur. Ég var búin að lofa krökkunum að fara svo ég
gat ekki hætt við og borgaði þá fyrir þau en varð hundfúl.
Vanalega þegar maður fer á svona svipaða staði eins og t.d Ævintýralandið í
Kringlunni er afsl.fyrir systkini.
Svo gátu krakkarnir ekki fengið gefins plastmál til að fá sér vatn að drekka
eftir hamaganginn sem mér finnst frekar lélegt þegar það er búið að borga inn.
En annars er þetta mjög sniðugur staður og krakkar hafa mjög gaman af að hamast
þarna en ég á eftir að hugsa mig um áður en ég lofa að fara þangað aftur.
kv. xxx

Engiferdrykkir og ódýr fiskur

Engifer-drykkir virðast vera nýjasta heilsuæðið á Íslandi. Nokkrar tegundir eru í boði og er mismikill leyndarljómi yfir tegundum. Drykkirnir eru síður en svo gefnir, sá ódýrasti er af tegundinni Zing og fæst í Bónus á 1.698 krónur, 2 l flaska. Aðrar tegundir eru dýrari, enda leyndardómsfyllri. Ekki veit ég hvers vegna þessi verð eru svona há því innihaldslýsingin gefur ekki tilefni til þessa verðlags. Þvert á móti er hráefnið frekar ódýrt. Kíló af engifer kostar 579 krónur í Bónus, kíló af lime er á 459 kr, kíló af hrásykri á 596 kr og 50 grömm af myntublöðum á 398 krónur. Vatnið kemur svo úr krananum.

Jafnvel mestu eldhúsklaufar eins og ég geta náð upp leikni við að búa til sína eigin engiferdrykki. Ekki þori ég þó að lofa jafn miklum árangri af svona heimagerðum drykkjum og dýru drykkirnir lofa. Það eru fá meinin sem leyndardómsfyllstu engifer-drykkirnir lofa ekki að bæta.

Netið er stútfullt af uppskriftum um engiferdrykki. Magn hráefna fer eftir því hversu sterkan drykk maður vill gera og verður maður að leyfa sér smá tilraunastarfssemi í byrjun. Svona sirka býr maður til sinn eigin drykk:

Engiferrót er söxuð smátt

Sjóðandi vatni helt yfir og þetta kramið svolítið með mortéli til þess að ná bragðinu úr engiferinu.

Limesafa og krömdum myntulaufum bætt í eftir smekk.

Hrásykri bætt í eftir smekk (eða bara sleppt).

Vilji maður fá auka hjálp í baráttunni við kvef kremur maður smátt saxaðan chilli-pipar (og hvítlauk) með engiferinu.

Kælt (eða drukkið heitt eins og te).

En nú að öðru. Nýlega gerði ég könnun á fiskverði á höfuðborgarsvæðinu. Í framhaldi af því fékk ég bréf frá Fiskbúðinni okkar sem framleiðir ferskan fisk fyrir Bónus. Þeim finnst þeir alltaf lenda útundan í verðkönnunum en segjast þó hafa lagt sig fram um að framleiða ódýran og góðan fisk. Kílóverð á roð og beinlausum ýsuflökum í Bónus er 998 kr., en algengt verð í fiskbúðum er á bilinu 1500-1900 kr. Svipaða sögu má segja um fiskibollur (699 kr. – 10% afsláttur við kassa (sama verð frá árinu 1999)) og ýsuréttirnir kosta 998 kr. kg. Bónus virðist því vera með lægstu verðin á ferskum fiski, eins og svo mörgu öðru.

Dr. Gunni
(Birtist í Fréttatímanum 26.11.10)

mánudagur, 22. nóvember 2010

365 okur?

Það sem mig langar að benda á er áskriftin af Stöð 2 sport 2. Fyrir nóvember mánuð greiddi ég 5.781.- kr. fyrir enska boltann sem er í rauninni brjálæði, en maður lætur sig hafa því áhuginn á enska boltanum er bara það mikill. Ég er ekki með áskrift af öðrum miðlum 365. Það sem vakti athygli mína er desember gjaldið sem sett er á enska boltann, það er 6.066.- kr., það hefur sem sagt hækkað um 285.- kr.

Ætli þetta eigi við um allar stöðvar 365 miðla, þ.e.a.s. desember hækkun? Desember er jú sá mánuður sem maður gæti hugsað sér að eyða í áskrift af t.d. Stöð 2 eins og í mínu tilfelli. Það kæmi ekki á óvart ef þeir hækkuðu desember gjaldskránna hjá sér, án þess að láta kóng eða prest vita. Það væri gaman að kanna það. Skv. heimasíðu þeirra (http://stod2.is/Kaupa-askrift) kostar Stöð 2 og Stöð 2 sport 2 ekki nema 13.530.- kr. núna í desember.

Er þetta ekki bara okur?

Kv, D

Icelandair 65% dýrara en SAS

Mig langaði að koma á framfæri reynslu minni af viðskiptum við Icelandair og SAS.
Ég byrjaði strax í ágúst að leita eftir hagstæðasta verði á flugi fyrir barn fram og til baka milli Stavanger og Keflavíkur yfir jólin. Þar sem ekki var í boði (á þessum tíma) beint flug til Stavanger, þurfti að kaupa einn innanlandsmiða í Noregi, og svo miða frá Osló til Keflavíkur.
Hagstæðasta verðið sem Icelandair gat boðið mér (og þetta var sannreynt nokkrum sinnum) var 111.000 (með fylgd) á ódýrustu mögulegu dagsetninum á bilinu 15. des til 10. jan. Inni í þessu verði er innanlandsflug með SAS frá Stavanger til Osló og millilandaflug með Icelandair frá Osló til Keflavíkur ásamt fylgd alla leiðina.
Þar sem mér þótti þetta í dýrari kantinum ákvað ég að prófa að setja mig í samband við SAS og athuga verð á sama flugi með þeim (ATH sömu leggir og flugvélar). Hjá þeim kostaði pakkinn 67.000.
Mbk,
Svanur Pálsson

föstudagur, 19. nóvember 2010

Öruggt kynlíf flokkað sem munaðarvara

Á Íslandi eru ótímabærar þunganir landlægar og kynsjúkdómar alltof algengir – þrír til fimm greinast með klamedíu á dag. Einfaldasta lausnin er að nota smokkinn. Áhættuhópurinn er krakkar á unglingsaldri og ungt fólk. Í þessum hópi er lítið verið að spá í neytendamál og því ábyggilega fáir unglingar leitandi bæinn á enda eftir ódýrustu smokkunum. Ekki er ólíklegt að þeir arki bara beint í næstu 10/11-búð þar sem dýrir smokkar blasa nú við þeim á kassanum – til dæmis þrír Durex í litskrúðugum álkassa á 799 krónur eða 12 smokka pakkar sem kosta á bilinu 1.899 – 2.299 kr.
„Afhverju eru smokkar svona dýrir á Íslandi?, er spurning sem kemur upp í hvert einasta skipti sem við förum að fræða framhaldsskólakrakka,“ segir Hólmfríður Helgadóttir hjá forvarnarstarfi læknanema, Ástráði. Félagsskapurinn heimsækir fyrstu bekkinga í nánast öllum framhaldsskólum landsins. „Svarið er að þótt ótrúlegt sé þá eru smokkar flokkaðir sem munaðarvara og því í hæsta skattþrepinu. Við skiljum ekki hvað réttlætir það að flokka öruggt kynlíf sem munaðarvöru, fyrir okkur þá hljómar þetta álíka fáranlegt og að flokka
bílbelti sem munaðarvöru. Auðvitað ættu smokkar að vera skattfrjáls vara,“ segir Hólmfríður.
Hæsta skattþrep þýðir að 25,5 prósenta virðisaukaskattur er á smokkum. Umleitanir hafa staðið yfir síðan 1996 að fella niður lúxustollinn, en ekkert hefur enn gerst í málinu. Það er sláandi dæmi um alvarlegan sofandahátt í stjórnkerfinu. Allir eru þó sammála um að það myndi marg borga sig að lækka virðisaukaskatt á smokkum, því kostnaður af völdum kynsjúkdóma og fóstureyðinga er mjög hár. Með aukinni sölu smokka myndi því sparast gífurlegur kostnaður fyrir þjóðfélagið.
Þrjár tegundir smokka eru til sölu á Íslandi, frá Durex, One og Amor. Það á því að vera hægt að búast við einhverri verðsamkeppni í þessum geira. Í Bónus er ódýrasti 12 smokka pakkinn frá Durex á rétt undir þúsund krónum og 12 Amor smokkar í pakka eru til sölu í Krónunni á svipuðu verði. Á Íslandi má því fá smokka ódýrasta í kringum 80 krónur stykkið, sem er ekki mikið miðað við það ótrúlega vesen sem öryggi á oddinn getur afstýrt.

Dr. Gunni
(Birtist fyrst í Fréttatímanum 19.11.10)

þriðjudagur, 16. nóvember 2010

Ódýr ferskur fiskur í Bónus

Ég var að skoða verðkönnunina sem þú gerðir á fiski í fiskbúðunum og tveimur verslunum.
Málið er að fyrirtækið mitt framleiðir ferskan fisk fyrir Bónus og finnst mér við því miður alltaf lenda útundan í verðkönnunum.
Við höfum lagt okkur fram um að framleiða ódýran og góðan fisk.
Verð á Ýsuflökum er td út úr Bónus á 998 kr kg en mjög algengt verð út úr fiskbúð er á bilinu 1700-1990 kr kg (roð og beinlaust).
Fiskibollurnar okkar kosta út úr Bónus 699 -10% afsláttur við kassa(sama verð frá árinu 1999)en algengt verð út úr fiskbúð er 1100-1500 kr kg.
Ýsuréttirnir okkar kosta 998 kr kg út úr Bónus en algengt verð út úr fiskbúð er 1200-1700 kr kg.
Þannig að fólk getur sparað mikla peninga með því að versla fiskinn sinn í Bónus.
Mig langaði bara vekja athygli þína á þessu og lofa okkur kannski að vera með næst.
Með kveðju,
Finnur Frímann
eigandi Fiskbúðarinnar okkar.

mánudagur, 15. nóvember 2010

Hvað kostar fiskurinn?

Á höfuðborgarsvæðinu eru þónokkuð margar fiskbúðir. Úrval er mismikið og framsetning misjöfn. Sumar fiskbúðir eru nútímalegar og gljándi og bjóða upp á framúrsefnulega rétti samhliða hefðbundnari, á meðan aðrar búðir líta út eins og allar fiskbúðir gerðu fyrir 30 árum síðan. Allar búðirnar eiga það þó sameiginlegt að kaupa hráefnið af sama uppboðsmarkaðinum, og það virðist ekki vera stíf verðsamkeppni í fisksölu í Reykjavík. Og þó. Ég athugaði verð á fimm algengum fisktegundum/réttum í átta fiskbúðum og tveim stórverslunum. Þetta eru niðurstöðurnar:



Nokkur verðmunur er á ýsuréttum, plokkfiski og fiskbollum, en það verður að taka með í reikninginn að innihald réttanna er mismunandi eftir búðum. Þessi könnun tekur aðeins mið af verði, ekki gæðum – sumir myndu jafnvel ganga svo langt að segja að hér væri verið aöð bera saman epli og appelsínur.

Samanburður á verði þorsks og skötusels er markvissari. Mestur er munurinn á skötusel. Tvær verslarnir bjóða kílóverð á undir 2000 krónum og er fiskbúðin í Spönginni með besta verðið. Það er 84% ódýrara en hæsta skötuselskílóverðið sem ég fann. Mun minni munur er á þorskflökum, þar er 25% munur á hæsta og lægsta verðinu.

Að lokum má geta þess að fiskur er hollur og góður – staðreynd sem flestum ætti að vera fullkunnugt um – og Íslendingar ættu að borða fisk að minnsta kosti einu sinni í viku, helst tvisvar (eða oftar!)

Dr. Gunni
(Birtist í Fréttatímanum 12.11.10)

Óeðlileg hækkun á barnabílstól hjá N1

Viljum greina frá óeðlilegri hækkun á Multi Tech barnabílstól sem N1 hefur til sölu

Vörunúmer: 400 MLT052624

Verð: 86.355 kr. Eldra verðið var tæp 60.000.- en stóllinn hefur ekki verið til í nokkurn tíma. Höfum beðið eftir nýrri sendingu en þar sem verðið hefur hækkað óeðlilega verður ekkert úr þessum kaupum. Hvað getur eiginlega réttlætt slíka hækkun?

Kveðja,
Sigurður Hreinsson

miðvikudagur, 10. nóvember 2010

Jólamarkaður í Ármúla

Við erum nokkur með jólamarkað í Ármúla 21. Öll varan sem var í Klinkinu er á mikið lækkuðu verði. Leigjum síðan út pláss fyrir alla sem vilja fyrir 2000 kr. daginn.

Erum á facebook.
http://www.facebook.com/pages/Reykjavik-Iceland/Jolamarkadur/139999299382950...

Kveðja,
Svavar

fimmtudagur, 4. nóvember 2010

Byr hækkar um 4 kr.

Hjá Byr, til að fá auðkennisnúmer sent til sín með sms, kostaði það fyrir stuttu kr. 6.- og þeir sögðu það skýrt á Innskráningarsíðu sinni.
Núna segja þeir "SMS Varaleið (kostar skv. verðskrá.),, og í október kíkti ég á verðskránna og það kostaði ennþá kr. 6.-
en í dag kíki ég aftur og það kostar kr. 10.-
Ég veit ekki til þess að viðskiptavinir Byrs hafi verið látnir vita, eða að þeir hafi fengið skilaboð um þetta í gegnum Yfirlit í netbankanum.
Ég vildi koma þessari hækkun á framfæri.
Kv.
Pétur Úlfur

þriðjudagur, 2. nóvember 2010

Óboðleg „þjónusta“ Frumherja á Akureyri

S.l. föstudag, 29. október, voru síðustu forvöð að fara með bifreið með endastafinn 8 í númeri í aðalskoðun, án sektar. Ég er búsettur á Akureyri og hringdi í skoðunarstofuna Frumherja á fimmtudegi. Þar er mér tjáð að opið sé til kl. 16 á föstudegi og ég þurfi ekki að panta tíma, bara mæta á staðinn. Kem kl. 15 í Frumherja. Þá hafa myndast langar biðraðir bifreiða fyrir utan. Mér er tjáð á skrifstofunni að ekki séu teknar fleiri bifreiðar í skoðun þennan dag. Ég geti komið eftir helgi en þá þurfi ég að greiða 7.500 kr. fyrir að koma of seint! Ung kona sem kemur á eftir mér fær sömu svör og liggur við gráti, hún eigi ekki fyrir sektinni. Ekkert tjáði að rökræða þetta við starfsfólkið. Það var ósveigjanlegt.

Ég var ekki varaður við þessu þegar ég hringdi. Hvers vegna í ósköpunum er verið að auglýsa opnunartíma til kl. 16 og að það þurfi ekki að panta ef fyrirtækið hefur ekki starfsfólk til að afgreiða þá sem koma fyrir kl. 16?! Hversvegna er ekki auglýstur styttri opnunartími og allir komist að sem mæta fyrir lok hans, eða að starfsmenn vinni þá yfirvinnu til að klára?

Hver er sanngirnin í því að hirða 7.500 kr. af kúnnum sem mæta á auglýstum opnunartíma og þurfa að snúa frá án þess að fá þjónustu?

Er þetta eitthvað sem fyrirtæki geta leyft sér í umhverfi þar sem skortir samkeppni?

Með bestu kveðju,
Jóhann Frímann Gunnarsson