þriðjudagur, 28. september 2010

Byr og tölvukerfið

Ég er í viðskiptum við Landsbankann en húsfélagið er í viðskiptum við Byr sparisjóð. Ég er búinn að afþakka allann pappír úr Landsbankanum fyrir reikninga og var það ekkert mál. Eini greiðsluseðillinn sem ég fæ sendan heim er frá Byr sparisjóð fyrir mánaðarlegt gjald í hússjóðinn. Þar sem ég fylgist vel með mínum reikningum í einkabankanum hringdi ég í Byr og vildi afþakka pappírinn en það er ekki svo einfalt. Mér var tjáð að tölvukerfi Byr bjóði ekki uppá það að afpanta pappír. Vingjarnleg konan benti mér á það að eina leiðin fyrir mig væri sú að setja þennan reikning í beingreiðslu hjá Landsbankanum. Það kostar um hundrað krónur per greiðsluseðil að vera með reikning í beingreiðslu þannig að vegna þess að tölvukerfi Byr er ekki "up to date" þá á ég að borga fyrir það. Þeir fá mig ekki í viðskipti á næstunni það er allavega klárt!
Kær kveðja,
Hjörleifur

mánudagur, 27. september 2010

Póstur og Sími okra enn

Sem pirraður neytandi veigra ég mér ekki við því að skipta um þjónustuaðila ef mér þykir á mér brotið og spara iðulega með því að leita lægsta verðsins.
Ég keypti mér nýlega gagnakapall fyrir Sony Ericson síma sem kostar hjá Símanum 3.990 krónur. Mér fannst það heldur mikið fyrir eitthvað sem ég gæti vel komist af án og gerði því litla óformlega verðkönnun á netinu. Það borgaði sig klárlega og fann ég gripinn hjá Símabæ á litlar 1.490 krónur.
Verandi ekki í höfuðborginni pantaði ég gripinn í vefverslun Símabæjar og fékk ég hann sendann í póstkröfu. Sendingarkostnaður kom mér þó heldur betur á óvart þar sem ég fékk að borga heilar 1.205 krónur í sendingarkostnað af einu venjulega umslagi af stærðinni A5 sem náði ekki 50 g þyngd!
Það mætti halda að Pósturinn væru þarna að reyna að sporna við viðleitni minni til að spara með því að kaupa af samkeppnisaðila Símans, og ég sem hélt að þetta væri ekki lengur eitt og sama fyrirtækið...
Kveðja, SI

miðvikudagur, 22. september 2010

Neytendabylting

Það sem er að gerast núna í íslensku þjóðfélagi er ekki til þess fallið að skapa hér lífvænlega búsetu. Hver höndin upp á móti annarri. Krafa um að stjórnvöld og alþingismenn geri eitthvað… eitthvað… eitthvað… En hvað með okkur sjálf.?

Eigum við ekki að gera eitthvað. Eigum við að láta bjóða okkur þetta bull endalaust. Ég hvet ykkur samlandar mínir sem eruð í sömu stöðu og ég að líta í spegill og horfast í augu við ykkur sjálf og spyrja ykkur þeirra einföldu spurninga

„ ætla ég að láta bjóða mér þetta“

„ætla ég að láta troða á rétti mínum og kúga mig til hlýðni“

ef svarið er „ nei.. ég ætla ekki að láta bjóða mér þetta „

þá er bara eitt ráð við því. Taka ábyrgð á eigin lífi og vera virk. Standa upp úr stólnum, fara frá skjánum og framkvæma. Saman veitum við stjórnvöldum, fjármálastofnunum og fyrirtækjum það aðhald sem þeim er nauðsynlegt til að hér þrífist fjölbreytt og gott mannlíf.

Byrjum á bönkunum… hættum að skipta við stóru bankana, hættum að skapa þeim tekjur… lokum öllum reikningum, launareikningi, kortum og flytjum okkar viðskipti annað. Það er fullt af litlum Sparisjóðum út um allt land. Að þessu loknu þá hættum við að borga af lánunum okkar hjá þessum stofnunum. Ef þetta dugar ekki til að menn vakni og sjái að það er ekki hægt að bjóða fólki hvað sem er . Þá förum við öll á sama tíma og lýsum okkur gjaldþrota. Ef við öll 40.000 heimili og 5.000 lítil og meðalstór fyrirtæki gerum þetta þá virkar það og bankarnir eru neyddir til að semja við okkur. Færa öll ólöglegu gengislánin yfir í íslenskar krónur á því gengi sem var þegar þau voru tekin. Vextir verði síðan í samræmi við það sem þekkist annarsstaðar í nágrannalöndum okkar. Tekið verði viðmið verðtryggingar síðustu 10 árin fyrir hrun og það meðaltal verði notað við leiðréttingu höfuðstóls. Þetta á eingöngu við um útlán. Látið ekki segja ykkur að þetta sé ekki hægt.

Næst þá stoppum við kennitöluflakk. Hættum að skipta við þau fyrirtæki og stofnanir sem stunda kennitöluflakk. Fyrirtæki sem skipta um kennitölu gera það vegna þess að þau ráða ekki við þær skuldir sem hvíla á gömlu kennitölunni. En hver borgar svo þær skuldir??

Þau koma svo aftur út á markaðinn og keppa við hina sem reyna að standa við sitt. Fyrirtæki lifa ekki án viðskiptavina.. munið það. Hvert viljið þið að launin ykkar fari…? Til stofnana sem ræna ykkur um hábjartan daginn og sniðganga lög eða til fyrirtækja sem hafa aukið skuldabyrgði ykkar til mikilla muna.

Að lokum stoppum við óhóflegar álögur frá ríkisvaldinu … hættum að kaupa þær vörur sem eru með óhóflega háum vörugjöldum og stuðla að hækkun vísitölu.

Að vera virkur neytandi kostar þó nokkra vinnu og er erfitt fyrst en verður svo bara auðveldara. Því fyrr sem stjórnvöld, fjármálastofnanir og fyrirtæki átta sig á því að okkur er alvara og látum ekki bjóða okkur hvað sem er því betra fyrir alla.

Samstaða er mikill máttur…. notum hann!!!!

Agnes Arnardóttir - sjálfstæður atvinnurekandi - birtist fyrst á Lúgunni.

mánudagur, 20. september 2010

Ekki okur - Buy.is

Ég er búin að vera að skoða myndavélar og var t.d að skoða Canon EOS 500D og fannst svimandi verðmunur á þessari vél.

Buy.is: 119.990
Elko: 144.995
Nýherji: 154.900

Flass fyrir vélina, Speedlite 430 Ex II:
Buy.is: 45.990
Elko: 50.397
Nýherji:56.900

Myndavél + flass:
Buy.is: 165.980
Elko: 195.392 (munar 30.402 miðað við Buy.is)
Nýherji: 211.800 (munar 46.810 miðaið við Buy.is)

Mér er alveg sama þó ég þurfi að bíða lengur eftir þessu á Buy.is en að kaupa þetta annars staðar.

Linda Rós

fimmtudagur, 16. september 2010

Hugsi yfir bílaskoðunargjaldi

Ég er hugsi yfir gjaldi sem er farið að leggjast á þá sem eru of seinir með bílana sína í skoðun. Þetta eru um 15 þúsund krónur, skattheimta sem mér skilst að hafi verið samþykkt í tíð síðustu ríkisstjórnar. Nú er það svo að bílafloti landsmanna er að eldast. Þeir sem minnst hafa á milli handanna eru líklegastir til að aka á gömlum bílum sem bila og eiga erfitt með að standast skoðun. Og þess vegna leggst þetta blessaða gjald þyngst á það fólk. Þetta eru reyndar ekki getgátur hjá mér, heldur var þetta niðurstaða úr samtali sem ég átti við starfsmann eins skoðunarfyrirtækisins.
Egill Helgason

miðvikudagur, 15. september 2010

Engu logið um íslenskt siðferði


Þetta held ég að sé það svæsnasta okur sem ég hef séð, svona í smávöruverslunargeiranum. Þetta keypti ég í versluninni Skriðulandi, í Dölunum, í sumar. 10 svartir venjulegir sorppokar, kr 1.900,-. og Frón kexpakki með þremur einföldum röðum kr. 742,-
Já, það er engu logið um íslenskt siðferði...
Lilja Gunnarsdóttir

Yfirþyrmandi álagning!

Ég fór í Sambíó Álfabakka í gær og ætlaða að kaupa mér Topp frá Vífilfell. Ég var rukkaður um 370 kr. í Sælgætissölunni. Mér blöskraði þetta og ætlaði þá að fá mér úr sjálfsalanum sem þarna var og var þar verðið 360 kr, 10 kr ódýrara. Ég hringdi sjálfur í Vífilfell til að kanna hvað ég gæti keypt 18 flösku kippuna á og þar var verðið til mín 2288 kr. Semsagt flaskan á 127 kr. Stór kaupandi er örugglega með mun betri afslátt en ég og er trúlega að borga um 100 kr fyrir flöskuna. Að setja 270 kr álagningu á vatn með kolsýru út í finnst mér vera algert brjálæði. Þetta er lýsandi dæmi um allt sem er að gerast í kringum okkur, álagning á öllu er orðin yfirþyrmandi.
Erlingur Guðbjörnsson

þriðjudagur, 14. september 2010

Lítið af goji í goji djúsi

Fyrir skömmu keypti ég "Goji Berry" djús í Nóatúni. Eins og margir vita eiga Goji-ber að vera afspyrnu holl, verandi full af andoxunarefnum eiga þau að vera vörn gegn nánast öllu mögulegu. Þau eiga sko að vera hollari en sjálf bláberin. Í krafti þessarar vitneskju minnar á töframætti Goji-berjanna ákvað ég að slá til, jafnvel þótt þessi lífsins elexír kostaði hvorki meira né minna en 395 krónur.
Djúsinn var líka bara ágætlega bragðgóður.
En sælutilfinningin breyttist fljótt í óbragð. Á fernunni er nafn djússins, "Goji Berry", mjög áberandi. Fernan er skreytt með smekklegum myndum af þessum berjum og á pakkningunum eru upplýsingar um töframátt Goji berjanna.
Ég hélt s.s. að ég væri að kaupa djús sem væri a.m.k. aðallega úr Goji berjum.
Mér brá því þegar ég rak augun í (ruglingslegu) ensku innihaldslýsingunni. Þar sagði nefninlega að aðalinnihaldið væri vatn og "Fruit Juices from Concentrate and Pressed 30% (Grape, Passion Fruit, Pressed Goji Berry, 5%)" Hvernig átti maður að skilja þetta? Það var ekki fyrr en maður stautaði sig fram úr hinum tungumálunum að sannleikurinn kom í ljós. Þessi "Goji Berry" djús var bara að 5% Goji.
Mér finnst ég hafa verið illa plataður. Það er ekki séns að ég hefði greitt um 400 krónur fyrir djúsinn ef ekki hefði verið fyrir áberandi mynd af Goji berjum á umbúðunum og umfjöllun um Goji berin. Svo var bara 5% þessarar rándýru vöru Goji ber.
Eiga ekki að vera lög sem vernda okkur fyrir svona viðskiptaháttum?
Sigurður

Límbandsokur í Húsasmiðjunni

Fór í Húsasmiðjuna um daginn og keypti pakkalímband frá Tesa, 66 metra rúllu. Gekk ég út með tvær rúllur, eina brúna og eina glæra og kostaði stykkið 930 krónur. Ég hugsaði "þetta er nú frekar dýrt" en lét mig hafa það. Fór síðan að taka bensín á N1 og rak þá augun í sömu rúllu á 310 krónur og því er verðið hjá ríkisrekna risafyrirtækinu 300% af því sem varan kostar á bensínstöð (sem almennt séð eru dýrar!).
Kær kveðja,
ÓS

miðvikudagur, 8. september 2010

Þjónusta bílafyrirtækja - B & L

Mig langar að deila með einni sögu af bílaviðgerð.
Fyrirtæki okkar á gamlan Renault Kangoo, sem fékk grænan miða hjá bifreiðaskoðun í fyrra þar sem eitthvað þurfti að laga bremsur, jafnvægisslár og öxulhosur. Við fórum með hann til B&L / Ingvars Helgasonar og báðum um viðgerðaráætlun skv. þessum athugasemdalista. Okkur var tjáð að kostnaður væri um 300.000 kr að gera við gripinn. Það varð til þess að við lögðum honum og hugðumst henda honum þar sem við mátum verðmæti hans minna en viðgerðarkostnaðinn.
Það var svo á dögunum að ég þurfti að láta gera við gamlan Hyunday Atos, sem dóttir mín ekur. Ég var brenndur af reynslu minni af B&L svo ég fór á bílaverkstæði í hverfinu mínu, Bílaverkstæði Sigurbjörns Árnasonar, Flugumýri 2 í Mosfellsbæ. Þar fékk ég skjóta og góða þjónustu fyrri sanngjarnt verð, að ekki sé talað um fyrirmyndarumhverfi, sem það fyrirtæki hefur skapað, enda verðlaunað af Mosfellsbæ fyrir umgengni á lóð. Ég ákvað því að dusta rykið af Kangoonum okkar og biðja Sigurbjörn að gefa mér viðgerðaráætlun. Hann tjáði mér að hann ætti að geta gert við bílinn fyrir innan við 65 þúsund. Reikningurinn hljóðaði síðan uppá 61 þúsund krónur, eða um 1/5 af þeirri upphæð, sem B&L áætlaði.
Nú er ég ánægður Kangooeigandi en mitt helsta vandamál er þó það að ég þarf að keyra framhjá B&L daglega tvisvar á dag. Að öðru leyti tel ég rétt að svo stöddu að forðast það fyrirtæki, allavega ef maður ætlar að láta gera við bílinn sinn.
Ég læt afrit af tölvupósti þessum berast framkvæmdastjóra B&L til upplýsinga.
Mér fannst rétt að segja þessa sögu, þó aðallega til þess að hrósa Sigurbirni fyrir sanngjarna og góða þjónustu og fyrirmyndarumhverfi bílaverkstæðis.
Kær kveðja,
Jón Pálsson

mánudagur, 6. september 2010

Fáránlega dýr hjonabandssæla í Nettó

Fór Nettó um helgina og ætlaði að kaupa hjónabandssælu en hætti snarlega við.
Frá Kristjáns bakarí var hún á 949 krónur, og svo var hægt að fá eina frá Myllunni á 619 krónur en mér fannst það litlu skárra.
Kv, SG