Mig langar að koma á framfæri kvörtun vegna þjónustu í verslun Krónunnar á
Akranesi. Ástæðan fyrir því að ég skrifa þér er sú að kvartanir mínar við
starfsfólk verslunarinnar hafa ekki borið árangur og ég er orðin
langþreytt á að horfa á vanrækslu þeirra bitna á neytendum. Ég er nýlega
flutt hingað á Akranes en hafði áður lagt það í vana minn að versla í
Krónunni út á Granda í Reykjavík. Þar þótti mér þjónustan góð og
vöruúrvalið til fyrirmyndar. Eftir að ég flutti hingað þá hef ég hins
vegar rekið mig á það ítrekað að varningur í hillum verslunarinnar er
annað hvort ekki verðmerktur eða rangt verð gefið upp (þ.e.a.s. ég er
rukkuð um hærra verð þegar ég kem til að borga á kassanum). Auk þess hef
ég tvisvar sinnum verið búin að kaupa vöru og áttað mig svo á því þegar ég
var komin heim að varan var útrunnin, í bæði skiptin um tæpan mánuð!
Vissulega hef ég margoft sagt við sjálfa mig að nú hætti ég að versla í
Krónunni en staðsetning verslunarinnar og opnunartími hafa þó orðið til
þess að ég fer þangað oftar en mig langar. Mig langar að koma á framfæri
við fólk að vera muna alltaf að líta yfir kassastrimilinn þegar það
verslar, sérstaklega þegar það verslar í Krónunni á Akranesi. Það getur
margborgað sig!
Bestu kveðjur og þakkir fyrir gott framlag til neytendamála,
Ásdís Einarsdóttir
Engin ummæli:
Skrifa ummæli