mánudagur, 12. mars 2012

Stjörnur.is - neytendur teknir í nefið

Ég hef oft hugsað um það hvað væri gott ef Íslendingar sameinuðust um að nota einhvern af erlendu vefjunum - eða stofnuðu sinn eigin, þar sem hægt er að gefa stjörnur og komment vegna þjónustu fyrirtækja, lækna o.s.frv. Þegar ég sá að kominn væri vefur sem héti stjörnur.is var ég fyrst ánægð en varð síðan fyrir miklum vonbrigðum. Þarna sýnist mér verið að taka íslenska neytendur enn einu sinni í nefið og mér finnst við eigum að reyna að vekja athygli á því strax.
Neytandi sem vill skrifa umsögn um fyrirgæki eða þjónustu, gerir það líklega m.a. vegna þess að hann ber hag annarra neytenda fyrir brjósti. En um leið og hann setur texta inn á vefinn, afsalar hann sér rétti til að nota sömu orð á öðrum vettvangi! Og eigendur vefjarins sem fá lögverndaðan höfundarétt, mega nota ummælin á hvern þann hátt sem þeim sýnist! Ég trúi því ekki að þetta sé neytendum í hag - eða til þess gert yfir höfuð að þjóna neytendum. Því miður má gera ráð fyrir að afar fáir lesi skilmálana á vefnum. Eða hvað?

Kær kveðja
Bryndís

Af vefnum:
Stjörnur.is er í eigu Já Upplýsingaveitna hf. sem sjá jafnframt um rekstur vefjarins.

Með því að láta Já í té umsögn um fyrirtæki og/eða atvinnurekanda og vörur hans og þjónustu, veitir notandi vefsíðunnar, umsagnaraðili og/eða höfundur umsagnarinnar því hér með Já ótakmarkaðan, einhliða rétt til nýtingar og birtingar umsagnarinnar á þeim vettvangi og með þeirri aðferð og tækni sem Já þóknast, þar á meðal á vefsíðunni Já.is, auk þess sem sá aðili veitir Já fullan rétt til að gera önnur eintök af umsögn hans. Fellur sami aðili samhliða frá eigin rétti til nýtingar og birtingar umsagnarinnar á öðrum vettvangi og eintakagerðar af henni og nýtur hann þess réttar ekki eftir að hann hefur sent Já umsögn sína til birtingar, hvorki sjálfur né til framsals annarra aðila. Birting, nýting og eintakagerð umsagna sem er að finna á vefsíðunni er því öðrum aðilum en Já með öllu óheimil án skriflegs samþykkis Já. Brýtur slík notkun gegn lögvernduðum höfundarrétti Já og kann meðal annars að varða bótaskyldu.

3 ummæli:

  1. Takk fyrir að lesa skilmálana, það er líklegast fáir sem gera það.

    Þessir skilmálar eru annars fáránlegir. Að maður geti orðið bótaskyldur fyrir að endurtaka sín eigin orð annarsstaðar, ótrúlegt að þetta megi.

    SvaraEyða
  2. Mér þætti gaman að sjá fyrirtækið Já kæra einstakling fyrir að endurtaka sömu orð og hann notaði á síðu þeirra. Ég myndi allavega mæta í réttarsalinn og fylgjast með af áhuga.

    SvaraEyða
  3. Annað sem ég sá í þessu og dregur töluvert úr trúverðuleika þessara síðu er það að þær síður sem hafa verið efstar eða háa einkunn eru með auglýsingar á síðunni , finnst það ýta undir keyptar umsagnir eða allavega fæ ég þá tilfinningu að eitthvað sé ekki eins og það sýnist.

    SvaraEyða