sunnudagur, 18. september 2011

Varið ykkur á 365 miðlum

Í siðasta mánuði sagði ég upp áskriftinni minni að Fjölvarpinu. Ástæðan var mjög algengar digital truflanir (jafnvel á 5 – 10 sekúntna fresti) auk þess sem einstakar rásir voru að detta út í 2 – 3 tíma og upp í nokkra sólarhringa, sem er mjög pirrandi sérstaklega þegar það gerist í miðri bíómynd.

Ég skilaði myndlyklinum til Vodafón og hringdi í 365 og sagði upp áskriftinni. Þetta var 20. Júlí og mér var sagt að krafan fyrir ágúst væri farinn frá þeim til VISA og þeir gætu ekki stoppað hana.

Ég hafði samband við þjónustufulltrúa hjá Landsbankanum og bað um að krafan yrði stöðvuð. Það var einhverjum vandkvæðum bundið svo þjónustufulltrúinn ráðlagði mér að láta þessa kröfu fara í gegn og fá hana síðan endurgreidda hjá 365 í ágúst.

Ég hringdi svo í 365 um miðjan ágúst, en nei. Þjónustufulltrúinn sagði „hvað veit ég nema þú sért með annan afruglara“. Ég bað hann að kíkja á það hjá sér í tölvunni hvort ekki væri búið að loka áskriftinni minni og sagði hann svo vera en fór svo að tala um skilmála. Það yrði að segja upp áskriftinni fyrir 11. dag mánaðar. Ég reyndi að finna skilmálana frá því ég gerði samning um áskriftina árið 2004, það eru auðvitað þeir skilmálar sem gilda, en fann ekki.

Hafði aftur samband við þjónustufulltrúa hjá Landsbankanum til að freista þess að hindra að greiðslan færi til 365. Þjónustufulltrúinn, Guðrún heitir hún, kunni engin ráð en bauðst til að hringja til VISA og kanna málið. Hún hringdi í mig nokkrum mínútum síðar og sagði að hún hefði strax fengið þau svör að þetta væri ekki hægt og sagði að hjá VISA væri auðheyrt að þetta vandamál með 365 væri vel þekkt. Það eru því líkur á að ég þurfi að sæta því að borga 365 fyrir þjónustu sem ég get ekki og vil ekki nota. Þó að þessi 5000 kall skipti litlu máli þá er það skítt að fyrirtæki beiti svona bolabrögðum gagnvart viðskiptavini til margra ára.

Ég keypti áskrift að sambærilegum stöðvapakka frá Skjáheimi (Skjáreinn og síminn) á sama verði og Fjölvarpið (áskrift + myndlykill), þrátt fyrir að hjá Skjáheimi fæ ég miklu fleiri stöðvar og allar helstu stöðvar með seinkunarrás(+). Og þvílíkur munur á myndgæðum enda sent í gegnum símalínu meðan Fjölvarpið fer í gegnum loftnet.

Svona stöðvapakkar, þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi, eru nauðsyn á hverju heimili. Munið bara að kaupa hann ekki hjá 365, þið munuð sjá eftir því.

Kv/Ásbjörn.

6 ummæli:

  1. Ég er áskrifandi að fjölvarpinu(landsbyggðarútgáfunni, sent yfir UHF) og hef líka orðið var við svona frost og að sjónvarpsrásir detti út upp úr þurru og það eina sem eftir er svartur skjár.

    Ég veit að þetta gerist ekki á sjálfum erlendu rásunum, þó svo að þær séu sjálfar allar stafrænar. Þannig að um er að ræða vandamál í tæknibúnaði 365 miðla og hvergi annarstaðar.

    Ég mun þó aldrei lenda í vandræðum með VISA eins og hérna er talað um. Þar sem ég er ekki með slíkt kort lengur.

    SvaraEyða
  2. Varstu í alvöru að leita að 7 ára gömlum skilmálum???? Bendi þér að lesa 14. grein skilmála 365:

    "365 áskilur sér rétt til þess að breyta áskriftarskilmálum þessum, gjaldskrá ofl. Þær breytingar skulu kynntar áskrifendum með að minnsta kosti eins mánaðar fyrirvara á vefsíðunni www.stod2.is sem og með öðrum sýnilegum hætti á viðkomandi áskriftarstöðvum. Þar skal kynnt í hverju breytingarnar felast og eftir atvikum eru þar veittar upplýsingar um rétt áskrifanda til þess að segja upp gildandi áskriftarsamningi vegna breytinganna."

    Svo er auðvelt að fá dagskrá 365 yfir símalínu (ADSL) eða ljósleiðara.

    SvaraEyða
  3. Hefur tekið mig allt að þrjá mánuði að stöðva reikningsfærslu fyrir áskriftarsjónvarp, hjá fleiri en einum söluaðila takk fyrir. Sama má segja um auka-afruglara á heimilinu, minnir að hafa fengið rukkun í tvo eða þrjá mánuði eftir að honum var skilað inn.

    Síðan þurfti ég að ganga á eftir þessum ofteknu reikningum í að minnsta kosti mánuð ef ekki tvo í viðbót.

    Svörin eru eins hjá þeim öllum, bara smá misskilningur, afsakið, þetta verður bakfært á næsta kortatímabili. Það sem var svo ekki gert, þvert á móti var bara reikningsfært áfram.

    Prófið svo að geyma eina greiðslu eins og einn dag fram yfir eindaga. Viti menn, viðbrögðin mælast nú í klukkustundum og allt rétt reiknað ;-)

    Fróðlegt væri að samtök á borð við Neytendasamtökin gerðu smá tilraun með eins og tvö hundruð áskrifendum. 100 segja öllu upp, 100 leggja áskriftinni í eins og þrjá mánuði. Enginn hringir inn leiðréttingar. Bíða svo í eina sex mánuði eftir því að sjá hlutfall þeirra sem fá rétta þjónustu.

    SvaraEyða
  4. Heyrðu nú mig Ásbjörn minn, við hverju býst þú eiginlega þegar þú verslar við glæpamanninn Jón Ásgeir? Einhverju öðru en því sem hefur komið úr hans smiðju frá upphafi.

    Held að sómakært fólk ætti barasta að setja peningana sína eitthvað annað en í tortólasöfnuina hans. Skammist ykkar svo fyrir að versla við glæpamenn !!!!

    SvaraEyða
  5. @Robbi:
    Samt spurning hvort þetta hafi verið í skilmálunum þegar hann skrifaði undir sinn þjónustusamning.

    Ef það hefur ekki verið ákvæði um að þeir gætu breytt skilmálum fyrirvaralaust og án undirritun nýs samnings, þá gilda gömlu skilmálarnir.

    SvaraEyða
  6. gömlu skilmálar gilda ekki þar sem bent er á að þeir eru breytingum háðir og taka þá nýjir við. þetta er staðlaður varanagli hjá öllum fyrirtækjum sem selja áskriftir. breytingar á skilmálum sem tilkynntir eru taka við af þeim sem þú hefur skrifað undir þar sem í þeim er þetta breytingar ákvæði sett svo ekki þurfi að láta viðskiptavini skrifa undir alltaf þegar breytingar verða á verðum á þjónustu. þeir skilmálara sem þú skrifaðir undir eru ógildir við fyrstu breytingu sem þeir setja fram í krafti þessara 14gr. og við notkun á þjónustu og greiðslu á reikningum ertu búinn að samþykkja nýja skilmála þar sem þér gefst færi á að segja upp þjónustu án t.d. riftunargjaldi ef svo væri þar sem breyting á skilmálum felur í sér "uppsögn" af þeirra hálfu á gamla samningi.

    NB ég er ekki að vinna hjá 365 :)

    SvaraEyða