þriðjudagur, 27. apríl 2010

Bremsuklossar - næstum 100% verðmunur

Lenti í skemmtilegu um daginn. Átti sér stað á laugardegi kl. hálf 2. Var með bílinn minn í viðgerð og var að fara að kaupa bremsudiska. Fer á N1 (þar sem Bílanaust var á höfðanum; lokar kl. 2), náði rétt svo inn fyrir dyrnar og spyr um bremsudiskana og stykkið kostaði um 10.000 kr. Þeir sögðust eiga þá en leituðu og leituðu og fundu ekkert (sem betur fer).
Þá fer ég í næstu verslun og fyrir valinu varð AB-varahlutir (ská á móti). Þeir voru ekki lengi að finna þetta drasl og 2 diskar kostuðu 12 þús.
Næstum því 100% verðmunur.
Vildi bara láta vita ;)
Atli Þór

sunnudagur, 25. apríl 2010

Góð þjónusta hjá Heimilistækjum, Akureyri

Tekið af www.er.is

Ég fór í Heimilistæki á Akureyri í dag og keypti mér þvottavél á tilboði
hjá þeim. Svo þegar við erum búin að setja vélina upp og tengja og allt
klárt ætla ég að fara að þvo, þá blikka bara einhver villuboð á skjánum á
vélinni og skv. leiðarvísinum var þetta það alvarlegt að hún yrði að fara
á verkstæði. Þegar þarna kom við sögu var klukkutími frá því að búið var
að loka búðinni. Ég ákvað þó að hringja í sölumanninn bara til að láta
hann vita af þessu og að það væri þá von á mér á mánudaginn með vélina til
baka. Ég baðst innilega afsökunar á því að vera að hringja í hann eftir
vinnutíma og hann sagði það vera allt í góðu. Hann segir mér svo að hafa
samband við verslunarstjórann og gaf mér upp símanúmerið hans. Ég hringdi
í verslunarstjórann og sagði honum frá vélinni, hann spyr mig þá hvar ég
eigi heima, því hann ætli bara að fara og ná í nýja vél, koma með hana
heim, tengja hana fyrir mig og taka fyrri vélina til baka. 30 mín síðar er
hann kominn með vélina, búinn að tengja hana og hún komin af stað. Hann
bað mig afsökunar á því að ég hefði fengið bilaða vél og sagði mér svo að
þetta væri ekki eins vél heldur týpan fyrir ofan.

Ég tengist ekki höfundi. Mér fannst bara rétt að þetta rataði til þín til
að fagna þeim fyrirtækjum sem leggja sig fram við að veita góða þjónustu.
Tryggvi

laugardagur, 17. apríl 2010

Vesen með KB ráðgjöf

Unnusta mín sótti um lífeyrissjóðssparnað hjá kb banka fyrir 2 árum síðan þegar hún var stoppuð í kringlunni af sölumanni á vegum kb (nú arion) . Hún skrifaði þar undir samning, og var látin vita að hún þyrfti að fara með hann til atvinnurekanda síns, til að þetta yrði nú allt saman virkt og hún færi að borga í þennan sparnað.

Hún gerði það aldrei, enda sögðu foreldrar hennar henni að þetta væri bara bull og hún sleppti því. Núna 2 árum síðar fékk hún 3 færslur að það væri búið að taka af henni frá kb í vista lífeyrissjóðssparnað, svo að hún hringdi þangað og spurði hvað væri í gangi og þá var henni sagt að það hefði sennilega verið hringt í hana aftur til að staðfesta þetta sem var reyndar aldrei gert, svo var sagt að manneskjan sem að við vorum þá að tala við vissi ekki um þetta,það yrði hringt í okkur af manni sem vissi allt um þetta.

Svo hringdi ungur drengur í okkur sem að ég fór að tala við og sagði honum að ég vissi allt um þetta dæmi, hafði verið að vinna þarna áður, og við vildum ekkert með þetta hafa, þá kallaði þessi starfsmaður mig hálfvita, þetta væri mjög sniðugt fyrir konuna mína, og ég væri bara hálfviti að reyna að svara fyrir hana, hann vildi bara tala við hana ( svo greinilegt að maður má ekki vita um þau mál sem þeir eru að ljúga í fólk) svo ég leyfði honum bara að ræða við konuna, þar sem hann hélt áfram að ljúga að henni og hún áfram að segja að hún vildi ekki halda áfram í þessu, vildi bara láta skrá sig úr þessu.

Svo ég sagði við konuna mína, skelltu bara á hann og fáum að tala við einhvern sem ræður þarna. Og þá sagði hann við konuna mína, " ég held að kærastinn þinn ætti að fá sér einhver róandi lyf og hætta þessum barnastælum" KB ráðgjöf væri ekkert tengt arion banka, væri meira að segja með aðra kennitölu heldur en arion, svo þótt þessi banki væri í veseni, þá væru engin tengsl á milli Arion banka og Kb ráðgjafar, og ég veit að það er ekki satt.

Nóg með það, við höfðum samband við framkvæmdarstjóra KB Ráðgjafar, og hann tjáði okkur að þessi starfsmaður hefði fengið munnlega aðvörun, og allur peningurinn yrði lagður inn á okkur í síðastalagi á föstudaginn 16 apríl. Ekkert gerðist svo við fórum aftur í símann og þá var okkur tjáð að það væri enginn yfirmaður í KB Ráðgjöf og við þyrftum bara að koma til rvk á mánudaginn 19 apríl, en ekki nema að þeir myndu hringja í okkur, já við erum semsagt búsett á akranesi. Nú erum við bara fólk úti í bæ að berjast í bökkum og vitum ekkert hvert á að leita, en ég mundi eftir þessari síðu, og spyr bara, er þetta eðlilegt? Getum við eitthvað gert, eða er bara verið að taka okkar peninga upp í skuld?
Gunnar og Viktoría

föstudagur, 16. apríl 2010

Moltukassar á okurprís

Íslenska gámafélagið býður uppá danska moltukassa af gerðinni Humus

http://www.gamur.is/index.php?option=content&task=view&id=18&Itemid=42

Hringdi og fékk verð isk 34.000 (átti að vera á þessu verði fyrir VSK en
var tilbúinn gefa 'tilboð' og selja á þessu verði m. vsk)

Eftir stutta leit á netinu fann ég sama kassa á danskri vefsíðu

http://www.renosyd.dk/produkter-og-priser/produkt/11

kostar dkk 660 ~= isk 15.000 (510 + 'ormarör' á dkk 150)
528 fyrir vsk ~= isk 12.000

Ef þetta er ekki okur þá veit ég ekki hvað. Það virðist vera svipað okur á
öðrum sambærilegum kössum.
Tómas

miðvikudagur, 7. apríl 2010

Hvar er samkeppnin í 3G?

Nú er ég nýbúinn að kaupa mér MacBook Pro vél svo maður geti tekið skrifstofuna með sér í sumarbústaðinn og fleira. Ég er búinn að vera að kynna mér þessa 3G netlykla sem símafyrirtækin auglýsa mikið. Ég verð að segja að ég bara veit ekki hvar ég ætla að fá mér svona lykil. Mér finnst samkeppnin á þessum 3G netmarkaði ekki vera nein hjá þessum fyritækjum. Var að skoða Nova heimasíðuna og þar kostar þetta 1990 kr á mánuði og innifalið 5gb. Alveg sama sagan hjá Vodafone, sama verð og sama gagnamagn. Svo er Síminn að bjóða pakka sem t.d heita 3G netið 3 og 3G netið 4. Í pakka númer 3 hjá þeim bjóða þeir 3 gb niðurhal fyrir 1.590 og svo 7gb fyrir 3.090. Búinn að skoða heimasíður allra símafyrirtækjanna. Tal virðist ekki bjóða uppá svona netlykla.
En eitt finnst mér alveg mjög kjánalegt hjá öllum þessum fyrirtækjum, allstaðar er innanlands download talið með. Ef maður er að skoða íslenskar heimasíður t.d. með ljósmyndum á þá eyðir það innanlandsdownloadinu. Það vantar nauðsynlega að eitthvað af þessum fyrirtækjum ákveði að efla til meiri samkeppni. Greinilegt að það er enginn að reyna að vera ódýrari eða með neitt betra en annar. Ég man nú þegar erlent download kostaði alltaf heilan helling hérna í denn. Þá kom fyrirtækið Hive á markaðinn og fór að bjóða ókeypis erlent niðurhal. Og það fyrirtæki breytti að mínu mati allri samkeppninni og þjónustunni til hins betra því þá fóru hin að bjóða þetta líka eða létu fylgja með 70gb t.d.
Þannig ég spyr, hvar er samkeppnin í þessu 3G neti, allir að selja þetta á sama verði og bjóða það sama, ég hef ekki hugmynd um hvar ég ætla að kaupa þetta 3G net. Var að pæla í að kaupa það þar sem það væri ódýrast en þetta er á sama verði allstaðar (samráð?)
G. Ásgeirsson

Annar kostnaður & greiðslugjald

Þegar ég sótti póstinn í morgun beið mín greiðsluseðill frá Íslandsbanka.
Rukkun vegna sjúkraþjálfunar. Rukkunin sundurliðast svona:
Höfuðstóll 817 krónur Annar kostnaður 250 krónur Greiðslugjald 220 krónur = 1.287 krónur.
Innheimtuþóknun Íslandsbanka fyrir að senda út eina rukkun og póstleggja
hana 470 krónur eða 57,5 % álag á höfuðstólinn.
Ekki veit ég hvað Íslandsbanki kallar þetta en ég kalla þetta okur.
Tryggvi

Smurt á verð prentara

Ég er að leita mér að prentara og googlaði því hverjir væru bestir núna.
Efstur tróndi ansi álitlegur bleksprautuprentari frá HP: Officejet 8000
þráðlaus. Ég kíkti á síðuna hjá Opnum kerfum en þar var ekkert verð að
finna á honum. Ég googlaði því aðeins meira og á þeim síðum sem voru að
selja græjuna kostaði hún í kringum 120 pund eða 200 dollara. Ekki
erfitt að umreikna það í u.þ.b. 20-25 þúsund krónur. Ég hringdi svo í
opin kerfi og spurði hvað hann kostar hjá þeim. Svarið: 55.000 þúsund
krónur!
Opin kerfi smyrja sem sagt 100% ofan á verðið - ef þetta er ekki okur þá
veit ég ekki hvað. Mér fannst þetta svo ótrúlegt að ég hringdi til að
fullvissa mig um að þetta væri rétt og starfsmaðurinn staðfesti það.
kv,
Jón Pétur

mánudagur, 5. apríl 2010

Vodafone í feitum bitum um páskana

Reikningur fyrir netþjónustu útgefinn 26. mars, gjalddagi sama dag,
eindagi 2. apríl greiddur í heimabanka í dag 5. apríl, (annan í páskum).
Upphæð reiknings kr. 2.010,- + vanskilagjald kr. 598,-
Flest öll fyrirtæki, bankar þar á meðal, hafa þá starfsreglu að falla frá
vanskilagjaldi beri eindaga reikninga upp á helgar eða stórhátíðir, enda
sé reikningur greiddur á fyrsta opnunardegi sem væri þá á morgun 6. apríl.
Svo virðist sem fyrirtækið Vodafone leggi sig eftir að hafa sem mest af
viðskiptavinum sínum á frekar auðvirðilegan hátt. - Sjá skrif mín frá
17. mars sl.: http://okursidan.blogspot.com/2010/03/leiga-fyrir-postholf-hja-vodafone.html
Kveðja, Gunnar Geir

sunnudagur, 4. apríl 2010

Hrifinn af Músík og meira á Selfossi

Mig langar að hrósa versluninni Músík og meira (MM) á Selfossi sem selur geisladiska, tölvuleiki og DVD ásamt því að vera með umboð fyrir NOVA á Selfossi. Ég er mikill tónlistaraðdáandi og kaupi alltaf diska í staðinn fyrir að dánlóda sem er mjög dýrt sport hér á Íslandi. Hef því alltaf þurft að fara í bæinn (er búsettur á Selfossi) til að versla tónlist. En í MM má finna allar nýjustu plöturnar ásamt eldri klassík á lægra verði en í Skífunni sem einokað hefur tónlistarmarkaðinn á Íslandi í fjölda ára. Stundum hefur munað allt að 700 krónum á nýjum plötum. Auk þess er gott úrval af DVD á fínu verði (Simpsons-seríurnar eru t.a.m. yfirleitt á sama verði eða jafnvel lægra en í öðrum búðum). Það er frábært að hafa svona verslun hér á Selfossi þar sem efla þarf virkilega verslun og þjónustu enda er bærinn þjónustumiðstöð Suðurlands.
Kv, Stefán H.

25 sinnum dýrara í BYKO en Húsasmiðjunni

Mig langaði að segja frá ævintýri mínu í dag. Þannig var að ég fór í BYKO til að kaupa haus á símasnúru. Þetta er lítið plaststykki framleitt í gríðarlegu magni. Ég fann þetta í BYKO og sá tvær pakningar. Annars vegar eitt stykki í pakka á 252 krónur og hins vegar 100 stykki í pakka á 4.115 krónur. Sem sagt ef ég þurfti 100 stykki kostaði stykkið mig rúmar 41 krónu. En mig vantaði bara 10 stykki þannig að ég spyr afgreiðslumann hvort ekki sé til pakkning þarna á milli. Hann segir að þetta sé það eina í boði. 10 stykki myndu kosta mig 2.520 krónur eða vel rúman helming af því sem 100 stykki kosta. Mér fannst þetta skelfilega dýrt og ákvað því að rúlla í Húsasmiðjuna þó ég væri ekkert sérlega bjartsýnn um að þeir væru nokkru skárri. En þar get ég keypt í stykkjavís eins og mig vantar. Stykkið þar kostar 10 krónur. Ég kaupi því 10 stykki og fæ í þokkabót 10% afslátt og borga því 90 krónur fyrir herlegheitin í stað 2.520 króna í BYKO. Ég hef sjaldan komið jafn ánægður út úr Húsasmiðjunni og vona bara að sú ánægja með þá endist lengi.
Kveðja,
Sigurgeir

föstudagur, 2. apríl 2010

Bökur og kóla

Ég ákvað að nýta mér tækifærið í gær og panta mér bökur á 10 ára verði
hjá Eldsmiðjunni svona síðasta kvöldið sem það stendur til boða.
Ég ákvað að vera ekkert að versla gos hjá þeim þar sem það hlyti nú að
vera ódýrara í verslun. Já, jafnvel þó að verslunin sem væri næst mér og
opin væri okurbúllan 10-11. Ég tölti því þangað á meðan ég beið eftir að
pizzurnar væru tilbúnar og keypti mér 2L af Pepsi á 367 kr. Það var ekki
fyrr en nokkru seinna sem það rann upp fyrir mér hversu illa ég var
svikinn því 2L af gosi hjá Eldsmiðjunni kosta 350 kr.
En forlögin bættu mér þessar 17 krónur heldur betur upp þegar eitthvað
klúðraðist í kerfinu hjá Eldsmiðjunni og sms til að tilkynna mér að
pizzan væri á leið í ofnin skilaði sér ekki. Þau létu mig fá 2
hálfvolgar pizzur á verði einnar, þeirrar ódýrari í sárabætur.

Samantekt.
Stór mínus á 10-11 fyrir að vera dýrari á gos heldur en Eldsmiðjan.
Stór plús á Eldsmiðjuna fyrir að vera rausnarlegir við úrlausn mistaka
sem eru ekkert endilega þeirra.
Kv. Kristján