Sýnir færslur með efnisorðinu íslenskt. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu íslenskt. Sýna allar færslur

þriðjudagur, 7. desember 2010

Ódýrasti jólakjóllinn og okrið hjá sumum!

Ég keypti mér jólakjólinn nú um síðustu helgi og langar að deila því með ykkur.

Ég byrjaði á því að fara á Laugaveginn af því þar er svo mikið af íslenskri hönnun. Eftir að hafa heimsótt nokkrar verslanir þar gat ég nú bara eiginlega ekki meira því mig var farið að svíða svo í augun undan verðmiðunum! Ég veit að maður á að reyna að styðja íslenskt en guð minn góður!! Einföld blússa á nærri fimmtíu þúsund kall! og kjólar sem kosta morð... get ekki ímyndað mér að það séu margir aðrir en útlendingar sem hafi efni á íslenskri tísku þessa dagana.

Ég ákvað því að kíkja í Kringluna og leita að einhverju sem veskið mitt þolir. Eftir að hafa heimsótt nokkrar búðir kíkti ég inn í nýja búð sem heitir Emami. og viti menn.. flottur jólakjóll á viðráðanlegu verði. Ég skoðaði einn silkikjól sem var á tilboði á 25 þúsundkall, það var hægt að breyta honum alveg endalaust. Ferlega sniðugt. Ég keypti hann samt ekki því ég fann annan sem ég féll alveg kylliflöt fyrir, rosalega flottur jólakjóll í svörtu silki og ég borgaði 26.900 kr fyrir hann (hann var ekki á tilboði). Það var líka hægt að breyta honum þannig að ég get verið í hinum á aðfangadag, breytt honum svo bara fyrir áramótin og notað hann svo enn og aftur í fermingunum án þess að nokkur fatti neitt! Þetta er sko jóladíll ársins.. að kaupa kjól sem hægt er að nota aftur og aftur.

En það sem kom mér mest á óvart að þegar ég var á kassanum þá sagði stelpan mér að Emami væri íslensk hönnun!! Hvernig geta þeir verið með eðlileg verð í búðinni sinni á meðan búðirnar sem ég heimsótti á Laugaveginum eru gjörsamlega í ruglinu með sín verð?!

Niðurstaðan: ódýrasti jólakjóllinn er sennilega í Emami búðinni í Kringlunni. Allavegana ef þú vilt kaupa íslenska hönnun.

Kveðja,
Guðrún

miðvikudagur, 2. desember 2009

Danskir drykkir á LSH

Mig langaði að vekja athygli á og vonandi vekja fólk til umhugsunar á því hvernig standi á því að það er einungis boðið upp á danska framleiðslu á drykkjarsöfum á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi. Mikið er talað um að styrkja íslenskt og spara gjaldeyri en þarna er LSH að eyða einhverjum X milljónum á ári í að flytja inn Rynkeby safana til að hafa á deildum og í matarteríum, bæði handa sjúklingum og starfsmönnum.
Ég get nú ekki ímyndað mér að það sé dýrara að panta Trópí, Flórídana eða aðra „íslenska“ framleiðslu og þar með styrkja íslenskan iðnað.
Vildi endilega koma þessu á framfæri!
Gleðileg jól,
Matta

miðvikudagur, 2. september 2009

Súpuokur í Hrauneyjum

Systir mín var á ferðalagi í óbyggðum fyrir stuttu síðan. Í Hrauneyjum er veitingarekstur eins og flestum er kunnugt og pantaði hún sér kjötsúpu sem kom ásamt einni brauðsneið, þurri, en ekkert kjöt var sjáanlegt í súpunni,.
Hún lét sér þetta þó vel líka og súpan var í sjálfu sér ágæt svo langt sem það náði, en dýrt fannst henni drottins orðið þegar reikningurinn birtist: Tvö þúsund krónur kostaði dýrðin. Sjálf borðaði ég kjötsúpu- með kjöti í og nógu af brauði með, í Borganesi, fyrr í sumar, á stað sem hefur haft þessa ágætisfæðu á matseðli sínum til margra ára, og greiddi ég fyrir hana tæpar ellefu hundruð krónur og fannst það mjög sanngjarnt.
Kannski gestgjafinn í Hrauneyjum noti evrur í sínum útreikningum, þó manni finnist krónur passa betur fyrir okkur Íslendinga enn sem komið er.
Er sammála öðrum sem hafa tjáð sig hér á síðunni um að íslensk vara í verslunum er allt of dýr og fólk kinokar sér við að kaupa hana og velur fremur innfluttar vörur. Finnst kaupmönnum ekkert athugavert við það ? Að íslenskt hækki meira en erlent er ekki eðlilegt í dag. Þeir ættu að skammast sín.
Edda

föstudagur, 28. ágúst 2009

Veljum íslenskt?

Ég er sammála honum Jóni hér á síðunni varðandi óskiljanlegt verð á ísl. vörum.
Það er nánast sama hvaða vörutegundir eru bornar saman sú íslenska er alltaf dýrari, vilji maður kaupa íslenskar vörur til að efla íslenskt efnahagslíf er eins gott að hafa nóg milli handanna. Því miður finnst mér verðlagningin aðeins vera okur og hafa lítið sem ekkert að gera með gengi krónunnar. Mig langar að taka nokkur dæmi : sumar tegundir skyrs og jógúrts hafa hækkað um næstum helming á einu ári, er ekki örugglega verið að mjólka ísl.kýr og notast við ísl. ódýra orku og ísl. ódýrt vinnuafl?
Það sama er uppi á teningnum varðandi ís í ísbúðunum, nærtækasta dæmið er að barnaís með dýfu og nammi kostar nú 320 kr í ísbúðinni í Garðabæ og leyfi ég mér að halda að þetta sé um 50% hækkun frá því um áramót.
Ég hef einnig borið saman verð á kartöflumjöli, púðursykri og ýmsri þurrvöru frá Kötlu saman við innfluttar vörur og því miður munar svo miklu að ég kaupi alltaf innfluttu vöruna.
Svo er það íslenska sælgætið það finnst mér einnig hafa hækkað svakalega.
Ég fór að kaupa stílabækur í Office 1 og þar kostaði ísl. stílabókinn 220 kr á meðan ég gat fengið helmingi þykkri innfluttabók með gormum á 115 kr.
Svo verð ég að fá að nefna brauð og bakarí sem hafa aðgang að ódýrasta rafmagni Í Evrópu og eru líka með ódýrt vinnuafl, hvað í ósköpunum réttlætir verð á sérbökuðu brauði ( 500.kr) eða snúði (190kr.) jafnvel þó hveitið hafi hækkað, ekki hef ég trú á að hveitikostnaður vegi svo mikið í framleiðslukostnaðnum, a.m.k virðast pizzustaðir geta haldi verðinu niðri þrátt fyrir gengið.
Síðast en ekki síst langar mig að skrifa um 66 gráður norður, föt sem íslendingar keppast um að sýna sig og börnin sín í þrátt fyrir kreppu. Verðlagningin þar er komin út úr öllu korti og jafnvel þó ég viðurkenni að þær séu góðar held ég að því miður hafi þeir komist upp með þessa verðlagningu útaf snobbi í almenningi. Þessar vörur hafa lengi verið tákngervingur ísl. fataframleiðslu eins og þær eru t.d í ferjunni Smyril line, þar er horn í fríhöfninni sem hefur að geyma allt það besta í fatahönnun frá norðurlöndunum en þegar kom að ísl.horninu gat maður ekki annað en skammast sín fyrir að vera íslendingur, verðlagningin er þvílík að maður roðnaði sérstaklega þar sem við erum því miður þekktust fyrir peningagrægi erlendis þessa dagana. Vörurnar frá 66 undirstrikuðu það vel og m.a.s held ég að þær séu ekki lengur framleiddar hér.
Eins og áður sagði þó að fólk vilji velja íslenskar vörur þá er það einfaldlega ekki hægt og því miður sé ég engin rök fyrir þessari verðlagningu nema græðgi.
Ragna

miðvikudagur, 26. ágúst 2009

Smá pæling frá Jóni

Í allri þessari orrahríð á klakanum verðlega séð get ég ekki annað en blöskrað verðlag á íslenskri framleiðslu. Upp að vissu marki er hægt að skilja miklar hækkanir á innfluttri vöru, en ég hefði haldið að það væri akkur fyrir landann að verðleggja sína framleiðslu skynsamlega. Þessir hlutir kosta orðið það sama og þeir innfluttu! Er ég hér aðallega að tala um verð á matvöru og öðru sem heimilin þarfnast. Reyndar hefur verið í mörg ár skrýtið verðlag hér á landi. Flest innlend framleiðsla í öðrum löndum er undantekningarlaust ódýrari en sú innflutta, en hér á landi hefur þetta verið öfugt!
Bara smá pæling.
Kv. Jón