miðvikudagur, 27. júní 2012

Dýrt Pepsi í Vestmannaeyjum


Við fórum í dag til Vestmannaeyja og komum við á veitingarstað sem heitir Café María. Við vorum með 4 börn og báðum um 2 ltr. flösku af gosi á borðið þar sem við töldum það vera hagstætt. Þegar við borguðum kostaði flaskan af 2ja ltr. Pepsi 1.200 kr. Þetta er svipað verð og hægt er að fá sex 2ja. ltr. flöskur á í Bónus. Ótrúleg verðlagning og ljóst er að við komum ekki oftar við þarna er við skreppum til Eyja.
 
kv. Jórunn Helena

mánudagur, 25. júní 2012

Heimskuleg verðlagning apóteka


Fór í Lyfjaval til þess að leysa út svefnlyf, 10 töflu spjald í pakka og rak upp stór augu þegar ég fekk ca 1400 kr rukkun við afgreiðsluborðið því að fyrir fullan skammt (30 töflur) hef ég vanalega borgað nokkrum hundraðköllum minna. 


Eins er farið í Apótekaranum þegar ég í fússi fór þangað til að fá töflurnar á betri kjörum. Er eðlilegt að borga meira fyrir minna og minna fyrir meira? Skrýtið!


Ágúst

miðvikudagur, 20. júní 2012

Hvernig á að velja fullkomið avakadó

Hver hefur ekki lent í því að kaupa ónýtt avakadó? Hér er athyglisvert blogg um málið (á ensku) og hugsanlegt að þú lendir aldrei í því aftur að kaupa ónýtt avakadó ef þú tileinkar þér "tæknina"...
Dr. Gunni

mánudagur, 18. júní 2012

Auglýsingablekking Hagkaupsverslananna


Hagkaup auglýsir  "Tax Free" daga   þar sem virðisaukaskattur er felldur niður af ÖLLUM  fatnaði.  Svo að ég skunda  með fjölskylduna að versla skó fyrir sumarið.  Fundum öll þessa fínu skó og meira segja eitt strigaskópar á  tilboði, kr. 3.990.- í staðkr. 5.990.-
Glöð og ánægð með skóval okkar höldum við að afgreiðslukassa, en þar bíða okkar tvöföld vonbrigði.  Tilboðið átti ekki vð alla strigaskóna í þessari hillu (sem að voru allir á sama verðinu), nei bara eitt vörunúmer, en þessi ákveðna vörutegund tók sem svaraði um einum fimmta af hilluplássinu.  
Nú jæja,  það verður þá að hafa það,  virðisaukaskatturinn reiknast þó af.   En NEI,  í huga stjórnenda Hagkaups verslana  telst skófatnaður EKKI FATNAÐUR  !!! Er þetta í lagi ? Maður spyr sig. Ég er mjög ósátt með að hafa verið blekkt með þessum villandi auglýsingum.  Ég gat ekki hugsað mér að hætta við þessi skókaup, þar sem börnin mín voru svo alsæl og glöð með flottu skóna sína, og lét því þetta yfir mig ganga heldur en að takast á við vonbrigði og grát barnanna minna vegna ástæðu þess að ég vildi hætta við kaupin.  Hagkaup á að sjá sóma sinn í að taka fram í auglýsingum sínum, ef að eitthvað er undanskilið frá almennu hugtaki, samanber skófatnaður sé ekki hluti af fatnaði.  Þetta er álíka fáránlegt eins og að auglýsa afslátt af matvöru, en undanskilja frosinn mat.  Ég get allavega ekki fundið rökstuðning fyrir því að skór séu ekki hluti af fatnaði fólks.  Í mínum huga, og þeirra sem ég þekki, falla skókaup undir það að fata sig upp.  Ég verð nú að segja að ég sé ekki marga ganga um skólausa á götum úti. Það er nú frekar að maður sjái fólk spóka sig léttklætt að ofan en að það gangi um berfætt í bænum.
Eins þegar tilboð er auglýst á ákveðnum stað, (eins og tilboðsmiðinn á hillurekkanum) en á ekki við allar vörur á þeim stað, á að afmarka það með sér standi (eða körfu) svo að það leiki ekki vafi á því hvað er verið að selja á þessu sér tilboði.   Í mínum huga er þetta klárlega  auglýsingablekking.

Anna Rudolfsdóttir

þriðjudagur, 12. júní 2012

Bíóin vilja að þú étir skít


Í stað þess að skrifa hjartnæman inngang um nauðsyn vatns til að viðhalda lífi á jörðu ætla ég að koma mér beint að efninu. Nú hafa nokkur kvikmyndahús tekið upp á því að vísa vatnsbetlurum frá sjoppunni og senda þá í staðinn með glas inn á klósett. Jafnvel þó þeir versli í sjoppunni. Vatnsbetlararnir mega fá gos og popp, nachos og ís, súkkulaði og hlaup (gegn greiðslu að sjálfsögðu), en ef þeir vilja óbragðbætt vatn verða þeir að sækja það úr klósettvaskinum. Lystaukandi ekki satt?

Ég lenti í þessu síðast í gær. Keypti stórt gosglas fyrir annan en bað um vatn fyrir mig (línurnar sko). Afgreiðslustúlkan var alveg til í að taka við fullt af peningum frá mér fyrir gosinu, en hún var ekki til í að snúa sér við og gefa mér vatn úr krananum, sem var bæðevei jafnlangt frá henni og gosmaskínan. Þegar ég afþakkaði klósettglas spurði hún mig hvort ég ætlaði þá bara að fá gosið. Ég velti því fyrir mér hvort það sé algengt að fólk hafi ekki lyst á því að sækja vatn inn á bað og kaupi þess í stað kolsýrt flöskuvatn á uppsprengdu verði.

Er nauðsynlegt að vera svona rosalega gráðugur? Voru svona margir að biðja um vatn úr krananum að afgreiðslan fór öll úr skorðum? Þarf bíóið að fá greitt fyrir hvert einasta handtak sem starfsfólkið gerir, og ef það er ekki hægt að setja verðmiða á það (eins og kranavatn) þá er það ekki í boði? Má ekki líta á það þannig að bíógestir séu búnir að greiða fyrir vatnsgreiðann með því að kaupa popp, já eða bara bíómiðann sinn? Finnst forkólfum kvikmyndahúsanna þeir í alvörunni vera að gera kúnnunum rosalegan greiða ef þeir leyfa starfsfólki sínu að gefa þeim vatn? Varla myndu þeir hleypa mér inn með vatnsflösku að heiman?

Og af hverju viljum við síður fara með tómt glas inn á klósett? Jú vegna þess að þar mígur fólk og skítur. Fólki er ráðlagt að geyma tann-burstann sinn ekki nálægt salerninu vegna þess að þar svífa allskonar sýklar og gerlar um sem óæskilegt er að berist í munn. Maður getur rétt ímyndað sér hversu margfalt fleiri míkróskópískir moðerfokkerar eru í loftinu á almenningsklósetti en á baðinu heima. Allavega ef styrkleiki þvag- og saurlyktar er einhver vísbending. Það má því orða það sem svo að með því að senda viðskipti sína inn á klósett með glas séu kvikmyndahúsin að segja þeim að éta skít.

Haukur Viðar Alfreðsson - birtist upphaflega hér.

mánudagur, 4. júní 2012

Sundlaugin í Kópavogi: Fullt verð í tvo potta!


Ég fór í sundlaug Kópavogs í gær (sunnud). Þar kostar sundferðin heilar 550 kr og
skipti það engu máli þótt verið væri að þrífa laugina og alla pottana nema
tvo. Þannig að ég sumsé greiddi 550 kr fyrir aðgang að tveimur pottum og
standbekkjum. Það var engin tilkynning um að þrif stæðu yfir!

Til samanburðar þá er ekki svo langt síðan að Laugardalslaugin var
endurgerð og þá var aðeins opið í tvo eða þrjá potta þar og þá var nú
einfaldlega ókeypis í sund.

Fannst ég bara verða að benda á þetta því mér var svo stórlega misboðið.
kv. Bára