þriðjudagur, 12. júní 2012

Bíóin vilja að þú étir skít


Í stað þess að skrifa hjartnæman inngang um nauðsyn vatns til að viðhalda lífi á jörðu ætla ég að koma mér beint að efninu. Nú hafa nokkur kvikmyndahús tekið upp á því að vísa vatnsbetlurum frá sjoppunni og senda þá í staðinn með glas inn á klósett. Jafnvel þó þeir versli í sjoppunni. Vatnsbetlararnir mega fá gos og popp, nachos og ís, súkkulaði og hlaup (gegn greiðslu að sjálfsögðu), en ef þeir vilja óbragðbætt vatn verða þeir að sækja það úr klósettvaskinum. Lystaukandi ekki satt?

Ég lenti í þessu síðast í gær. Keypti stórt gosglas fyrir annan en bað um vatn fyrir mig (línurnar sko). Afgreiðslustúlkan var alveg til í að taka við fullt af peningum frá mér fyrir gosinu, en hún var ekki til í að snúa sér við og gefa mér vatn úr krananum, sem var bæðevei jafnlangt frá henni og gosmaskínan. Þegar ég afþakkaði klósettglas spurði hún mig hvort ég ætlaði þá bara að fá gosið. Ég velti því fyrir mér hvort það sé algengt að fólk hafi ekki lyst á því að sækja vatn inn á bað og kaupi þess í stað kolsýrt flöskuvatn á uppsprengdu verði.

Er nauðsynlegt að vera svona rosalega gráðugur? Voru svona margir að biðja um vatn úr krananum að afgreiðslan fór öll úr skorðum? Þarf bíóið að fá greitt fyrir hvert einasta handtak sem starfsfólkið gerir, og ef það er ekki hægt að setja verðmiða á það (eins og kranavatn) þá er það ekki í boði? Má ekki líta á það þannig að bíógestir séu búnir að greiða fyrir vatnsgreiðann með því að kaupa popp, já eða bara bíómiðann sinn? Finnst forkólfum kvikmyndahúsanna þeir í alvörunni vera að gera kúnnunum rosalegan greiða ef þeir leyfa starfsfólki sínu að gefa þeim vatn? Varla myndu þeir hleypa mér inn með vatnsflösku að heiman?

Og af hverju viljum við síður fara með tómt glas inn á klósett? Jú vegna þess að þar mígur fólk og skítur. Fólki er ráðlagt að geyma tann-burstann sinn ekki nálægt salerninu vegna þess að þar svífa allskonar sýklar og gerlar um sem óæskilegt er að berist í munn. Maður getur rétt ímyndað sér hversu margfalt fleiri míkróskópískir moðerfokkerar eru í loftinu á almenningsklósetti en á baðinu heima. Allavega ef styrkleiki þvag- og saurlyktar er einhver vísbending. Það má því orða það sem svo að með því að senda viðskipti sína inn á klósett með glas séu kvikmyndahúsin að segja þeim að éta skít.

Haukur Viðar Alfreðsson - birtist upphaflega hér.

8 ummæli:

  1. Heil ritgerð en það kemur hvergi fram hvar þetta er?

    SvaraEyða
  2. Ég lenti fyrst í þessu í Laugarásbíó fyrir kannski 3 árum, var með hópi af fólki og allir að kaupa popp, gos og sælgæti. Ég drekk ekki gos en ákvað að vera þyrst þegar mér var beint inná salernið. Veit vel að það er pempíuskapur í mér en ég er nú samt verslandi viðskiptavinur.

    SvaraEyða
  3. Sambíóin gera þetta allavega og Laugarásbíó.

    SvaraEyða
  4. Bara að benda á það að það er ekki vatnskrani hjá stelpunum í sjoppunni í Laugarásbíó. Bara krani inni á salerni.

    SvaraEyða
  5. Það kemur nú fyrir að ég fari í bíó í Bíó Paradís á hverfisgötunni (gamli regnboginn) þar amk er ekkert mál fyrir mig að biðja um vatn í sjoppunni og þau láta mann alveg fá það með bros á vör jafnvel þó ég sé ekki einusinni að versla í sjoppunni að öðru leiti. Og ég veit það fyrir víst að þau eru ennþá að gera það og ekkert vesen, ég var að sjá myndina Bernie með Jack Black þar á mánudaginn var og þá fékk ég mitt vatn og ekkert vesen :)

    SvaraEyða
  6. HAHAHA ertu eitthvað þroskaheftur þetta er nákvæmlega sama vatnið auminginn þinn, þú getur bara náð í það sjálfur fyrst þú færð gefins glas.

    SvaraEyða
  7. Þeir eru bara að biðja um að þú komir með drykki að heiman!

    SvaraEyða
  8. Kem bara með flösku af góðu kranavatni með smá sítrónu í veskinu og málið búið.Það eina sem heldur mig(því miður) frá að fara í bíosali er þessi poppkornlikt og allir að háma í sig ,með óþægilegu truflun. Afhverju þurfa allir að háma í sig drasl meðan þeir sjá eina mind???? Skil ekki þessa hrikalega menningu að borða í bíóum.

    SvaraEyða