fimmtudagur, 23. febrúar 2012

Niðurlæging í bíó

Afhverju er oft hálfgerður bömmer að fara í bíó á Íslandi? Fyrst náttúrlega auglýsingafargan í 20 mín og svo oft allskonar rugl á sýningunni. Myndin ekki í fókus, alltof lágt stillt, allt í rugli með textann eða meira að segja að það er ekki slökkt í salnum (hér greinir kvikmyndagagnrýnandinn Haukur Viðar Alfreðsson frá ömurlegri reynslu í Kringlubíói, sem að hans mati er lélegasta bíó landsins).

Maður er að borga sig inn og því er lágmark að bíóin hafi basic hluti í lagi. Eins og að slökkva í salnum þegar myndin hefst!

Svo er annað mál – sem bíóin bera litla eða enga ábyrgð á - að sumir bara kunna ekki að fara í bíó. Eru blaðrandi saman út alla myndina (kannski búnir að gleyma að þeir eru ekki heima í stofu), eða talandi í farsíma og sms-andi lon og don. Lenti í þessu um daginn að síminn hjá einni í næstu röð hringdi og hún byrjaði að tala í símann (í stað þess að slökkva bara eins og hún hefði átt að gera - Hæ, heyrðu ég er í bíó og get ekki talað... Hvað segirðu? Bla bla bla...)

Fokking óþolandi!
Dr. Gunni

9 ummæli:

  1. Ég tek heilshugar undir hvert orð enda er bíórekstur fákeppnismarkaður sem neytendur þurfa hér að þola undir hreinu virðingarleysi svo jaðri við mannfyrirlitningu þegar allt er upp talið.

    Og eigum við að reikna út álagningu þeirra á gos, popp og sælgæti?

    Hvorki meira né minna en dýrustu sjoppur landsins, enda í vernduðu umhverfi.

    SvaraEyða
  2. Mig minnir þegar ég fór í bíó út í Bretlandi 2001 hafi nammið þar ekkert verið ódýrara en í bíóum hér heima.

    SvaraEyða
  3. Það er auðvitað rándýrt að kaupa sér gos og popp og nammi í bíósjoppum, en já, þannig er það líka í Englandi og Bandaríkjunum. Svo er heldur ekkert svo ódýrara inn þar - oft jafnvel dýrara. Ég var aðallega að setja út á þetta fúsk sem viðgengst hérna, að geta ekki komið myndinni skammlaust á tjaldið. Jú og svo eru hléin og auglýsingaflóðið ekki ril að bæta það, en mér skilst að "fólk vilji hafa þetta svoleiðis" (allavega hléin).

    SvaraEyða
  4. Það eru sérlega slitin og rifin sætin í kringlubíó, nokkur alveg án áklæða, fer ekki þangað aftur.

    SvaraEyða
  5. Það var könnun gerð fyrir nokkrum árum og það kom í ljós að 70% vilja hafa hlé. Ég ætla að vona að það hafi breyst eitthvað til hins betra.
    Bara útaf hléi, auglýsingum, og því að ekki er hægt að kaupa númeruð sæti, þá downloda ég öllu. Fer í bíó 2-3 á ári ef það er eitthvað sem er betra að sjá á bíótjaldi heldur en í sjónvarpi.

    SvaraEyða
  6. Ég fór eitt sinn í Kringlubíó, allt í góðu, á spennumyndina Harsh Times með Christian Bale. Hlé og myndin hefst að nýju. Eftir rúmlega 15 mín hættir myndin skyndilega, allt verður svart og svo byrjar að telja niður, 5, 4, 3, 2, 1, (tala með hring utanum) og myndin byrjar, nema eitthvað er þetta skrítið, rétt áðan var Bale í fullu fjöri en núna er hann að deyja? (ef þið kannist við þessa mynd þá deyr Bale í endann)
    Skjárinn aftur svartur, tölurnar telja niður, og myndin byrjar á réttum stað.

    SvaraEyða
  7. síðasta málsgrein er stærsta ástæðan fyrir því að ég er hætt að fara í bíó. Íslendingar kunna einfaldlega ekki að bera virðingu fyrir náunganum, kíkja á símann í miðri sýningu, senda sms, svara í símann og heldur áfram að spjalla, eða kjafta við manneskjuna við hliðina á sér eins og það sé heima í stofu.

    Dónaskapurinn og tilætlunarsemin sem maður þarf að upplifa í bíósölum hér á Íslandi er til skammar.

    Fyrir utan almenna kurteisi vil ég líka sjá númeruð sæti og hléin burt. Ennþá betra væri mismunandi miðaverð eftir því í hvaða sal myndin er. Finnst fáránlegt að borga sama verð fyrir að sjá myndina í oggulitlum sal og það kostar að fara í stærstu salina með bestu hljómgæðin.

    SvaraEyða
  8. Það sem mér finnst mest pirrandi er þegar auglýsingar sem sýndar eru áður en myndin byrjar eru spilaðar svo hátt að maður getur ekki spjallað við sessunautin. Maður er neyddur til að horfa og hlusta á auglýsinguna.

    SvaraEyða