fimmtudagur, 16. febrúar 2012

Fyrirtaks þjónusta í Oasis!

Alltof oft er kvartað, stundum má hrósa.
Ég keypti angorupeysu í Oasis í Kringlunni, trúlega milli jóla og nýárs. Heim komin varð ég þess vör að peysuskömmin fór skelfilega úr hárunum og til að gera illt verra var hún hvít. Til að gera langa sögu stutta beitti ég öllum mínum húsmóðurráðum og hæfileikum til 30 ára, en allt kom fyrir ekki. Peysan hélt áfram að skilja eftir hvíta slóð hvar sem hún kom, í fötunum mínum, húsgögnum og m.a.s. í þvottavélinni. Ég þurfti að láta vélina ganga tóma þegar ég var búin að þvo peysuskömmina í 14. sinn í von um að ástandið lagaðist, svo mikil loðna gekk úr henni. Ég frysti peysuna. Engin breyting.
Í morgun ákvað ég að prófa að fara með peysuna í verslunina og segja mínar farir ekki sléttar en gerði mér ekki miklar vonir um góðar viðtökur, þar sem svo langt var um liðið. Fyrir tilviljun hafði ég geymt kvittunina sem er ekkert endilega sjálfgefið að fólk geri.
Ég bar upp erindið og var því tekið af stakri ljúfmennsku, mér boðið að velja mér eitthvað í staðinn eða fá inneignarnótu fyrir upphæðinni.
Svona eiga sýslumenn, eða verslunarfólk, að vera!
Nanna Gunnarsdóttir þýðandi

1 ummæli:

  1. Gaman að heyra svona góðar neytendasögur til tilbreytingar :)

    SvaraEyða