laugardagur, 17. desember 2011

Raun eldsneytisnotkun bílaBensínverð er hátt hér á landi og enn hærra í Noregi. Bensín og dísilbílar eru alltaf að verða betri og betri og eyða minna og minna, það er staðreynd. Hinsvegar er það þannig að mælingar fara fram eftir sérstöku prófi sem búið er að setja upp og allir bílar eru mældir eftir. Þannig má fá "réttar" niðurstöður um eyðslu. Bílaframleiðendur "mastera" aðferðina við að mæla eyðsluna og þá fellur bíllinn í þennan eða hinn flokkinn eftir eyðslu og magni mengunar. Síðan tökum við neytendurnir við þessum ágætu bílum og höldum út í raunveruleikann okkar með ís á rúðum, vindi og snjó og rigningu og slabbi og öllu öðru sem venjulegur grár hversdagleikinn býður okkur uppá af þéttdekkuðu borði vandamála og vesenis.

Bíllinn okkar er svo þegar allt kemur til alls ekki eins eyðslugrannur og stóð í flotta litabæklingnum. Ég keypti á þennsluárunum góðu pickup sem var sagður eyða 18-20 lítrum á hundraðið en raunveruleikinn var 30+ Þá var skottið fullt af peningum hjá öllum og menn keyrðu sem enginn væri morgundagurinn. En nú er öldin önnur og allir sem ég þekki eru að velta fyrir sér hverjum túr, samnýta ferðir, fækka ferðum og spara eins og hægt er. Það má auðvitað segja að þetta sé á margan hátt gott en þetta er líka leiðinlegt, þ.e. að geta ekki um frjálst höfuð strokið og ferðast á milli staða án þess að horfa á bensínmælinn húrra niður og vita að það kostar 10 til 20 þúsund að fylla næsta tank.

Langar að deila upplýsingum sem ég sá frá Noregi en þar tóku menn sig til og mældu eyðsluna í 20 algengustu bensínbílum á markaðnum og þá kemur sannleikurinn í ljós.
Efstu 10 bílarnir eru með 41% eyðslu umfram það sem upp er gefið (í fína bæklingnum!)
Efstu 15 bílarnir eru með 36% eyðslu umfram það sem upp er gefið
Meðaltal allra 20 bílanna er 30% hærra en upp er gefið.

Er þetta eitthvað sem við könnumst við?

Eyðslan er sennilega svipuð hér á landi enda svipaðar aðstæður landfræðilega og veðurfarslega.

Það er ekki alltaf allt eins og það stendur í bæklingnum.

Hér er linkur á greinina sem er skrifuð á vef rafbílasambandsins í Noregi: http://elbil.no/miljo/552-ikke-bare-elbil-som-kan-forvirre.

Kv, Sighvatur Lárusson

1 ummæli:

  1. Þetta er svo sem ekkert nýtt. Bílarnir eru mældir innan dyra við kjörhita!

    SvaraEyða