fimmtudagur, 8. desember 2011

Okur í blómabúðinni Dalvegi

Ég fór inní vínbúðina á Dalvegi nú undir kvöld og keypti þar eina rauðvínsflösku sem ég ætlaði að færa vinkonu minni í afmælisgjöf. Mér datt í hug að líta við í blómabúðinni við á móti vínbúðinni og kaupa þar nokkra súkkulaðimola í poka og biðja þau um að skella flöskunni í sellófan.
Ég valdi mér poka með fimm eða sex súkkulaðihúðuðum kirsuberjum sem kostuðu heilar 795 krónur, ákvað að láta mig hafa það og vonaði að vinkonan myndi njóta molanna í botn. En þegar afgreiðslustúlkan rukkaði mig um 1190 krónur sagði ég stopp, hingað og ekki lengra. Fyrir hvað var ég að borga 395 krónur. Jú fyrir einn metra af sellófanpappír og 70 cm. af gjafabandi!! Ég spurði hvort hún ætlaði að virkilega að rukka fyrir þetta smáræði nærri 400 krónur og þá bætti hún við að það væri líka fyrir vinnuna! Hvaða vinna spurði ég enda hef ég sjálfsagt aldrei pakkað nokkru jafn illa inn og hún!
Ég lét ekki bjóða mér þetta (keypti reyndar okursúkkulaðið) bað hana um að taka flöskuna úr þessum ljótu umbúðum, gekk yfir í vínbúðina aftur og pakkaði sjálf inní sellófan og hnýtti slaufu án þess að borga krónu fyrir það!
kv. Ingibjörg.

35 ummæli:

  1. Það þurfa auðvitað að vera myndir með af innpökkuninni, bæði fyrri og seinni, svo hægt sé að meta faglegt- og um leið fagurlegt gildi 400 krónanna í þessu tilfelli. Orðin segja ekkert enda smekkur fólks misjafn.

    Voru súkkulaðihúðuðu kirsuberin handgerð? Voru þau í gjafaumbúðum? Hvernig?

    Þetta þarf að liggja fyrir áður en hægt er að taka afstöðu gagnvart því hvort þarna var á ferðinni okur eða bara einhver fýlupúki að versla sem kvartar yfir öllu. Eða eitthvað þarna á milli.

    SvaraEyða
  2. Það hefur nú tíðkast nokkuð lengi hjá blómabúðum að rukka sérstaklega fyrir innpökkun á vörum sem ekki eru keyptar hjá þeim (eða innpökkun upp á nýtt á tilbúnum blómabúntum), og rétt hefði verið að spyrja sérstaklega um það hvort það kostaði aukalega að fá starfsmann til að pakka inn fyrir sig. En svo ættu upplýsingar um slíkt líka að sjást á áberandi stað, og margar verslanir hafa það þannig.

    SvaraEyða
  3. Mér finnst þetta hljóma frekar eins og væl heldur en kvörtun. Þú fórst í blómabúð til að kaupa nammi, ég held að flestir yfir 4 ára aldri vita að blómabúðir selja nammi ekkert ódýrt og svo kemur vælið yfir að þú hafir þurft að greiða heilar 395 krónur fyrir efniskostnað og vinnu við að pakka inn fyrir þig.

    Af hverju í ósköpunum ættu blómabúðir ekki að rukka fyrir innpökkun og efniskostnað? Hver ákvað að blómabúðir ættu að pakka inn ókeypis fyrir fólk og gefa þeim pappír og selló?

    SvaraEyða
  4. Jamm, sammála síðasta ... hljómar soldið sem væl. 400 kall fyrir innpökkun í selló með slaufu? Sjálfsagt mál og eiginlega bara ódýrt.

    1 - 0 fyrir Blómabúðinni.

    SvaraEyða
  5. Hreinlega bara væll... skekkir myndina á raunverulegt okur

    SvaraEyða
  6. Hreinræktaður nirfill hér á ferð sem áttar sig ekki á því að vinna er hluti kostnaðarins. Ætti að mínu mati að skammast sín!!!

    SvaraEyða
  7. 2-0 fyrir blómabúðinni

    SvaraEyða
  8. Bara frekja í þessari konu að ætlast til að fá þetta frítt. 400kr er sanngjarnt fyrir þessa vinnu.
    Verslunin fær kanski 200-300 krónur fyrir súkkulaðið, eiga þau svo að tapa á innpökkuninni?

    SvaraEyða
  9. Sæl Ingibjörg. Ég er afgreiðslu stúlkan sem stóð fyrir þessu "okri" og vil bara benda þér á að þetta er sett verð hjá búðinni og ég fæ ekkert um það ráðið. En hinsvegar sellofanið kostar, bandið kostar og já vinnan kostar líka þú ferð ekki i klippingu og býst við að vinnan sé gerð frítt og gildir það sama um aðrar verslanir. ég var aldrei dónaleg og brosti allan tíman meðavið þessi viðbrögð hja þér útaf 395krónum... ég er búin að vera vinna hérna í 3ár og lendi liggurvið daglega í að pakka inn flöskum og tel mig allveg hafa vit fyrir hvað ég er að gera og er fólk oft hæstánægt með innpökkunina. Vil líka koma því á framfærir að þú spurðir ekki um verðið fyrirfram á innpökkuninni og ef þú heldur að vinnan sé frí þá já eins og eg sagði þér það er sellófan og band i vínbuðinni og þér er velkomið að gera það sjálf. en við getum ekki búist við að fólk komi með hluti utan frá sem við pökkum inn og fái það svo frítt! Ég er alls ekki að meina þetta í neinum dónaskap en mér finnst þetta full langt gengið þegar fullorðin kona er að væla undan 395krónum.

    p.s. súkkulaðið sem þú keyptir er handgert og mjög gott já það er soldið dýrt en við kaupum það líka dýrt :)

    Kær kveðja, Afgreiðslu stúlkan í blómabúðinni :)

    SvaraEyða
  10. ROCK STIG fyrir afgreiðslustúlkuna!

    SvaraEyða
  11. Mig óskaplega held ég að sú sem skrifaði þetta væl sé leiðinleg.. Hvað heldur þú eiginlega að það kosti að hafa starfsmann í vinnu, borga leigu og annað sem fylgir því að reka verslun eða þjónustu líkt og þá sem þú gengur að í blómabúðum?

    400 krónur fyrir efni og innpökkun á vöru sem þú kemur með að utan er bara alls ekkert óeðlilegt verð

    SvaraEyða
  12. Blómabúðin vinnur þetta mál allan tímann vegna þess að þetta blogg á sér enga stoð

    SvaraEyða
  13. Frekja og ekkert annað í þessari konu! Ég færi ekki með alla pakkana sem ég keypti til einhverrar blómabúðar og ætlaðist til að láta þau pakka því inn frítt fyrir mig. Hver er þá fjandans tekjulind hjá blómabúðinni? Þau fá tekjur á því að selja blóm og aðra muni inní búðinni. Einnig er fólk sent á námskeið eða lært í skreytingum sem gerir þeim kleift að rukka fyrir sín vinnubrögð.

    SvaraEyða
  14. Ótrúlega vona ég að þú þekkir ekki foreldra mína Ingibjörg. Hef ekki lesið jafn mikkla frekju og yfirgang í langan tíma. Þú átt ekki skilið að eiga 400 krónur yfir höfuð, vinsamlegast komdu þér inn á hæli.

    SvaraEyða
  15. Tek ofan fyrir afgreiðslustúlkunni :)

    Ég er að vinna í búð og finnst frábært að veita þjónustu og sjá ánægða viðskiptavini. Hins vegar er alveg ótrúlegt hvað margir viðskiptavinir sýna mikla frekju og dónaskap. Lenti t.d. í einum í dag sem sagðist hafa keypt ónýta vöru. Hann var ekki með ónýtu vöruna með sér og ekki með kvittun og vildi fá nýja vöru í staðinn og aðra vöru frítt með sem sárabætur. Ég útskýrði fyrir honum að ég hefði ekki leyfi til að framkvæma þetta af því að hann var ekki með vöruna eða kvittun. Hann trompaðist og hótaði að fara með þetta í blöðin og Neytendasamtökin og kæra okkur. Dettur fólk bara virkilega í hug að fara í búð og heimta nýja vöru og meira í viðbót en hafa ekkert í höndunum. Svona frekja er mjög algeng og verslunarfólk þarf að láta ótrúlegustu hluti yfir sig ganga. Svo er fólk geðveikt hissa að enginn nema unglingar og útlendingar nenni að vinna í búðum fyrir þessi skítalaun sem eru í boði og skítlega framkomu næstum daglega.

    Þetta kemur kannski blómadæminu ekki beint við en mig langaði bara að segja frá þessu. Takk fyrir og góða helgi allir :o)

    SvaraEyða
  16. Nákvæmlega. Þetta er bara eðlilegt verð. Frekjan og yfirgangurinn sem gengur yfir starfsfólk í verslunum er alveg ótrúlegur. Það er bara eins og sumir geðbilist hreinlega þegar kemur að verslunarferðum skv. minni reynslu sem afgreiðslumanneskja. Þetta er klárlega ekki dæmi um okur heldur bara mjög eðlilegt verð miðað við veitta þjónustu og ástand.

    SvaraEyða
  17. Ég hef staðið við búðarborð í 20 ár og segi hiklaust að auðvitað er það bara dónaskapur að ryðjast inn í verslun með dót frá þriðja aðila og heimta ókeypis þjónustu. Ég gæti alveg eins boðið viðkomandi að moka búðartröppurnar hjá mér fyrir ekki neitt.

    Ingibjörg er bara dæmi um venjulega frekjudós.

    Ingibjörg verður að gera sér grein fyrir því að það kostar mig 2000 kall á tímann hið minnsta að halda úti starfsmanni við búðarborð í sérverslun. Korterið kostar 500 kall. Þessi kona stal þarna nokkur hundruð kalli af einhverjum kaupmanni til þess eins og rakka hann svo niður vegna eigin yfirgangs.

    Mjög ómerkilegt finnst mér. Ingibjörg verður að hugsa þetta aftur og læra

    SvaraEyða
  18. Uss,komentin eru góð og er sammmála öllum sem vinna við verslunarstörf.Hef unnið við ferðaþjónustu sem margir kunnar reyndu að klaga eftir ferðir til að fá endurgreiðslur,til dæmis þeir sáu einga hvali,í siglingum og vildu fá endurgreitt.Hér er annað mál sem ég get ekki dæmt en ég hef notað þessa blómabúð oft og satt að seigja hef ég alltaf verið ánægð.Góð koment frá afgreiðslustúskunni.

    SvaraEyða
  19. Ingibjörg þú ættir að sjá sóma þinn í því að biðja þessa afgreiðslustúlku afsökunnar á þessum dónaskap.

    Rosalega vorkenni ég bara afgreiðslustúlkunni að lenda á svona dónalegum kúnna!!!!!!!!!!

    SvaraEyða
  20. Mér finnst ég oft heyra fólk beinlínis hrósa sjálfu sér og monta sig af því að það hafi sagt þetta og þetta við afgreiðslufólk. Svona eins og það sé að upphefja sjálft sig og telji sér til tekna að koma illa fram við afgreiðslufólk. Mér finnst það fáranlegt og það segir meira um dónalega kúnnan en afgreiðslufólkið. Það er nefnilega mikill munur á því að standa á rétti sínum sem neytandi og því að sýna starfsfólki dónaskap, hroka og frekju. En því miður virðast sumir kúnnar halda að það þurfi dónaskap, hroka og frekju til að ná sínu fram en það er mikill misskilningur. Afgreiðslufólk er örugglega bara eins og flest fólk að því leyti til að það er miklu ánægjulegra að gera kurteisu og indælu fólki greiða en öskrandi dónum.

    SvaraEyða
  21. Ingibjörg kaus að greiða ekki tæpar 400kr fyrir sellófan og gjafand. Það fæst frítt nokkrum metrum frá búðinni sem hún var stödd í.

    Sé engan dónaskap í færslunni hennar. Sé talsvert af honum í athugasemdunum hér fyrir ofan. Henni eru gerð upp orð og athafnir sem fær mann til að spyrja sig hvort hér pósti bara þeir sem tengast rekstrinum sem um ræðir.

    Ef neytanda ofbíður verð og þjónusta þá fer hann annað, og það sem meira er, hann hefur alltaf rétt fyrir sér.

    SvaraEyða
  22. Það er nú bara þanning að kúnninn hefur sjaldnast rétt fyrir sér!!

    SvaraEyða
  23. Öllu þessu hefði samt verið forðað ef blómabúðin væri með merkingu þar sem kæmi fram að það kostaði X mikið að pakka inn.

    Finnst samt 400kr. frekar mikið fyrir innpökkun, verð ég að segja. Finnst að allt svona eigi að vera í hlutföllum við það sem fólk verslar. Burtséð frá því hvort kúnni komi með flösku inn og láti pakka henni inn þá kemur hún í búðina og VERSLAR konfektið. S.s. er paying costumer.

    Ég er sjálfur verslunarmaður og hefði sennilega gefið eftir pakkninguna. Þessar fjögurhundruðkrónur hefðu komið margfalt tilbaka með ánægðum viðskiptavin...

    Ekki að ég sé að lasta afgreiðslustelpuna. Hún er bara að gera sitt og gerir það býsna vel. En stundum má gefa eftir til þess að v.v. telur sig hafa "sigrað"

    SvaraEyða
  24. Mér persónulega finnst það dónaskapur að neita að greiða fyrir verk, sem búið var að vinna. Þ.e. afgreiðslukonan var búin að pakka þessu inn og búin að leggja vinnu, tíma og efni í innpökkunina samkvæmt því sem Ingibjörg segir.

    SvaraEyða
  25. Æi, alltaf leiðinlegt að sjá fólk fara út í svívirðingar eins og einhverjir gera hér, t.d. þessi sem segir að Ingibjörg eigi að fara á hæli. Sá/sú sem segir svona er hálfgerður hælismatur sjálf(ur) að mínu mati, sjálfri/sjálfum sér til skammar og skuldar nú Ingibjörgu afsökunarbeiðni.

    Ég er reyndar sammála flestum hér að kvörtun í þessu tilfelli er laaaaangt yfir strikið ... en ... á sama tíma finnst mér samt allt í lagi að hún komi fram. Þá verður til ágætur grundvöllur til að ræða málið og kasta á það ljósi, hvort sem fólk er sammála eða ekki.

    Og Ingibjörg, hvort sem hún hefur rétt eða rangt fyrir sér (að ég veit ekki hverra dómi), á fullan rétt á að segja hvað henni finnst/fannst og ef henni fannst þetta okur þá var það bara það sem henni fannst og þessi vettvangur er þá fínn til að fá fram aðrar og fleiri hliðar.

    En sleppa svívirðingum og persónuárásum. Eru ekki allir búnir að fá sig fullsadda af slíku eitri? Ekki nota nafnleysið sem skjöld til að særa. Það eru bara gungur sem gera það.

    SvaraEyða
  26. Og ... bara bæta því við ... að sá sem skrifar hér fyrir ofan og sér "engan dónaskap" í færsluni hjá Ingibjörgu ætti nú að skoða hana betur því auðvitað er það rakinn dónaskapur að segja í færslunni að afgreiðslustúlkan hafi pakkað "illa" inn og að þetta hafi verið "ljótar umbúðir". Mjög dónalegt að segja svona og Ingibjörgu ekki til sóma.

    Ingibjörg dæmdi sig þarna sjálf. En það þýðir samt ekki að svívirðingar á móti séu réttlætanlegar.

    SvaraEyða
  27. Sá sem er að röfla hér um að kúnninn hafi alltaf rétt fyrir sér ætti aðhugsa sig um. Hann er í raun að segja að fólk megi ausa hverju sem er yfir afgreiðslufólk og leggja eigin siðgæði og samvisku til hliðar um leið.

    Dæmi hver....

    SvaraEyða
  28. Kúnninn hefur alltaf rétt fyrir sér, líka þegar hann hefur rangt fyrir sér.
    Það er eins og sumu fólki í þjónustustörfum hér á landi sé fyrirmunað að skilja þessa einföldu vinnureglu.

    SvaraEyða
  29. Mér finnst 395 kr vissulega frekar mikið fyrir þessa innpökkun. Hægt væri þó að forðast svona "vesen" með því einfaldlega að láta það koma fram hvað innpökkun kostar, mér finnst það eiginlega sjálfsagt. Margar athugasemdir hér fyrir ofan eru fulldónalegar, t.d. er einn sem segir henni að fara á hæli. Er það nú ekki fullmikið? Allir hafa rétt á því að segja skoðun sína og kvarta.

    SvaraEyða
  30. Sjálfsagt að rukka fyrir þjónusu sem þessa. - Hvernig getur fólk ætlast til að þjónusta sem þessi sé frí eða á einhverju tombóluverði sem hugnast viðskiptamanni. Rugl.

    SvaraEyða
  31. Verðið skiptir engu máli í þessu dæmi en spyrji menn ekki áður en innpökkun hefst að verðinu þá eru menn í raun búnir að eiga viðskiptin og ber að borga fyrir veitta þjónustu. Starfsmaðurinn í blómabúðinni fór langt fram úr því sem henni bar þegar hún tók flöskuna úr umbúðunum og rukkaði ekki fyrir þjónustu sem búið var að veita!!!!!!!

    Þetta er bara alveg eins og ein kona sem ég var með fékk sér ís á veitingastað,borðaði ísinn en sagðist svo ekki ætla að borga ísinn því hún hafði ekki pantað þennan tiltekna sem hún var þó búin að borða. Þjónustan var veitt og búið að nýta hana og þá skulu menn líka borga.

    SvaraEyða
  32. Að biðja afgreiðslustúlkuna um að taka vörurnar úr innpökkuninni sem hún var að enda við að gera, finnst mér svakaleg ókurteisi.
    Ingibjörg hefði nú þá átt að spyrja fyrst hvað kostaði að láta pakka inn, en eins og afgreiðslustúlkan útskýrði, þá er það staðlað verð og hún fékk ekki neinu um það ráðið.
    Afgreiðslufólk þarf oft að standa undir ókurteisi fólks og stundum er það mjög erfitt fyrir tilfinningarnar því öll erum við nú bara venjulegt fólk undir starfshlutverki okkar.

    SvaraEyða
  33. fyrir ykkur risaeðlunar sem taka stefnunni "viðskiptavinurinn hefur alltaf rétt fyrir sér" einsog einhverjum heilögum sannleik sem öll þjónustufyrirtæki eiga að lifa eftir, þá hef ég þetta að segja, þessi stefna leiðir oftast að verri þjónustu til viðskiptavina, myndar gremju hjá starfsfólki, dónalegir kúnar fá betri þjónustu en kurteisir kúnar o.s.fl. Þetta er léleg stefna og samskipti undir henni eru afar fölsk og þóknast engum nema frekjudollum, sumum viðskiptavinum er betra að segja upp.

    SvaraEyða
  34. Furðu mikið um athugasemdir í þessu innleggi með uppnefnum og skætingi. Ætli þetta séu "þjónustulundaðir" starfmenn þjónustufyrirtækja hér á landi? Ekki eru rökin uppá marga fiska, nánar tiltekið engin.

    SvaraEyða
  35. Maður á að mæta dónalegum og ósanngjörnum viðskiptavinum með jákvæðni og brosi en umfram allt festu. Það er erfitt að vera reiður eða pirraður þegar viðbrögðin við því eru allt að því algjör andstæða þess.

    Dæmi af einum ungum afgreiðslumanni sem var óvanur var á þessa leið.

    Kúnni einn var að fara að leigja hlut og til þess þurfti á þeim tíma víxil sem tryggingu. Kúnninn varð alveg brjálaður og sagði við afgreiðslumanninn "Þú getur tekið þennan víxil og troðið honum upp í rassgatið á þér".
    Svar afgreiðslumannsins yfirveguðum og rólegum var "Ég skal athuga það".

    SvaraEyða