laugardagur, 17. desember 2011

Raun eldsneytisnotkun bíla



Bensínverð er hátt hér á landi og enn hærra í Noregi. Bensín og dísilbílar eru alltaf að verða betri og betri og eyða minna og minna, það er staðreynd. Hinsvegar er það þannig að mælingar fara fram eftir sérstöku prófi sem búið er að setja upp og allir bílar eru mældir eftir. Þannig má fá "réttar" niðurstöður um eyðslu. Bílaframleiðendur "mastera" aðferðina við að mæla eyðsluna og þá fellur bíllinn í þennan eða hinn flokkinn eftir eyðslu og magni mengunar. Síðan tökum við neytendurnir við þessum ágætu bílum og höldum út í raunveruleikann okkar með ís á rúðum, vindi og snjó og rigningu og slabbi og öllu öðru sem venjulegur grár hversdagleikinn býður okkur uppá af þéttdekkuðu borði vandamála og vesenis.

Bíllinn okkar er svo þegar allt kemur til alls ekki eins eyðslugrannur og stóð í flotta litabæklingnum. Ég keypti á þennsluárunum góðu pickup sem var sagður eyða 18-20 lítrum á hundraðið en raunveruleikinn var 30+ Þá var skottið fullt af peningum hjá öllum og menn keyrðu sem enginn væri morgundagurinn. En nú er öldin önnur og allir sem ég þekki eru að velta fyrir sér hverjum túr, samnýta ferðir, fækka ferðum og spara eins og hægt er. Það má auðvitað segja að þetta sé á margan hátt gott en þetta er líka leiðinlegt, þ.e. að geta ekki um frjálst höfuð strokið og ferðast á milli staða án þess að horfa á bensínmælinn húrra niður og vita að það kostar 10 til 20 þúsund að fylla næsta tank.

Langar að deila upplýsingum sem ég sá frá Noregi en þar tóku menn sig til og mældu eyðsluna í 20 algengustu bensínbílum á markaðnum og þá kemur sannleikurinn í ljós.
Efstu 10 bílarnir eru með 41% eyðslu umfram það sem upp er gefið (í fína bæklingnum!)
Efstu 15 bílarnir eru með 36% eyðslu umfram það sem upp er gefið
Meðaltal allra 20 bílanna er 30% hærra en upp er gefið.

Er þetta eitthvað sem við könnumst við?

Eyðslan er sennilega svipuð hér á landi enda svipaðar aðstæður landfræðilega og veðurfarslega.

Það er ekki alltaf allt eins og það stendur í bæklingnum.

Hér er linkur á greinina sem er skrifuð á vef rafbílasambandsins í Noregi: http://elbil.no/miljo/552-ikke-bare-elbil-som-kan-forvirre.

Kv, Sighvatur Lárusson

Reynslusaga af Baðhúsinu

Langar að deila með ykkur reynslu minni af Baðhúsinu, í von um að geta komið í veg fyrir að fleiri lendi í því sama.
Í ágúst 2010 fór ég ásamt vinkonu minni niður í Baðhús því nú skyldi komið sér í form. Vinalegur maður tók á móti okkur og kynnti okkur alls kyns freistandi tilboð. Við ákváðum loks að taka tilboði sem að hljóðaði upp á 12 mánuði af líkamsrækt. Þessi samningur myndi síðan bara renna sjálfkrafa út að þessum 12 mánuðum liðnum, ef við endurnýjuðum hann ekki. Svona kynnti þessi vinalegi maður okkur samninginn.
Okkur leyst svona líka vel á það, svo við skrifuðum undir. Höfðum enga ástæðu til að vantreysta þessum manni, hann var jú starfsmaður fyrirtækis sem hafði gott orð á sér. Næstu mánuði æfðum við þarna, greiddum samviskusamlega fyrir hvern mánuð og létum vel af.
Í júlí 2011 fór ég út á land í sumarfrí og kom aftur í ágúst sama ár. Ég var ekki alveg að koma mér aftur í líkamsræktargírinn svo ég fór ekkert aftur í Baðhúsið. Sem hlaut að vera í lagi, þetta var 12.mánuðurinn og ég hafði ekki endurnýjað samninginn svo að hann hlaut að vera bara útrunninn, eins og maðurinn sagði. Ég fékk samt sem áður rukkun frá þeim, en taldi að um mistök væri að ræða svo ég aðhafðist ekkert frekar.
Í september kom önnur rukkun, og svo önnur, uns mér fóru að berast innheimtuskröfur frá Motus. Þar sem ég skildi ekki hvað var verið að rukka mig um, vissi ekki betur en að samningurinn væri útrunninn, hafði ég því samband við Baðhúsið því mér datt helst í hug að samningurinn hefði endurnýjast sjálfkrafa, og maðurinn hefði gleymt að segja mér frá því.
Þá kom í ljós að á þessum samningi var 3ja mánaða uppsagnafrestur sem ENGINN hafði minnst á. Ég hefði þar af leiðandi átt að segja upp á 9.mánuði. Vinalegi maðurinn hafði semsagt ekki gleymt að minnast á það, hann einfaldlega laug því blákalt að okkur að við værum að skrifa undir samning sem að rynni sjálfkrafa út að 12 mánuðum liðnum. Svo vegna þess að ég treysti þessum manni til að sinna sínu starfi að þá skrifaði ég undir, og sit nú uppi með ítrekanir frá Motus og skuld til næstu 3ja mánaða, skuld fyrir 3 mánuði sem að ég er ekki að nýta mér hjá þessu fyrirtæki.
Allt vegna þess að vinalegi maðurinn taldi það í góðu lagi að segja mér bara það sem best hljómaði. Ég las því miður ekki smáa letrið. Hann sagði mér ekki frá þessu smáa letri. Mín mistök. Ég sagði formlega upp hjá þeim í október, skrifaði undir uppsagnarpappír og hélt að það dygði. Nei ég þarf að borga fram í janúar 2012 og ég hef ekki stundað líkamsrækt þarna síðan í júlí 2011. Ég þarf að borga því að maðurinn laug að mér og ég asnaðist til að trúa honum.
Ég hafði enga ástæðu til að vantreysta honum svo ég skrifaði undir án þess að lesa fyrst. Þetta er tapaður peningur fyrir mig, peningur sem skiptir fyrirtækið sjálfsagt litlu, en skiptir mig miklu máli. Ég fæ þennan pening ekki til baka en ég er að vona að með þessari frásögn get ég varað aðra við, og komið í veg fyrir að aðrir geri sömu mistök og ég og vinkona mín. Svo mín skilaboð eru einföld: Ekki trúa orði sem þér er sagt þegar þú kynnir þér tilboðin hjá þeim, sittu frekar í klukkutíma eða lengur og lestu samninginn niður í minnsta letur. Það margborgar sig. Það er alltaf smáa letrið. Þau kjósa frekar að segja þér það sem best hljómar.

Kv. Verulega óánægður viðskiptavinur !

fimmtudagur, 8. desember 2011

Okur í blómabúðinni Dalvegi

Ég fór inní vínbúðina á Dalvegi nú undir kvöld og keypti þar eina rauðvínsflösku sem ég ætlaði að færa vinkonu minni í afmælisgjöf. Mér datt í hug að líta við í blómabúðinni við á móti vínbúðinni og kaupa þar nokkra súkkulaðimola í poka og biðja þau um að skella flöskunni í sellófan.
Ég valdi mér poka með fimm eða sex súkkulaðihúðuðum kirsuberjum sem kostuðu heilar 795 krónur, ákvað að láta mig hafa það og vonaði að vinkonan myndi njóta molanna í botn. En þegar afgreiðslustúlkan rukkaði mig um 1190 krónur sagði ég stopp, hingað og ekki lengra. Fyrir hvað var ég að borga 395 krónur. Jú fyrir einn metra af sellófanpappír og 70 cm. af gjafabandi!! Ég spurði hvort hún ætlaði að virkilega að rukka fyrir þetta smáræði nærri 400 krónur og þá bætti hún við að það væri líka fyrir vinnuna! Hvaða vinna spurði ég enda hef ég sjálfsagt aldrei pakkað nokkru jafn illa inn og hún!
Ég lét ekki bjóða mér þetta (keypti reyndar okursúkkulaðið) bað hana um að taka flöskuna úr þessum ljótu umbúðum, gekk yfir í vínbúðina aftur og pakkaði sjálf inní sellófan og hnýtti slaufu án þess að borga krónu fyrir það!
kv. Ingibjörg.

miðvikudagur, 7. desember 2011

Laukur í Krónunni

Mig langar bara að benda á eitt lítið verðdæmi á matvöru sem margir nota mikið af. Þannig er að í Krónunni er yfirleitt bara hægt að kaupa þrjá innpakkaða lauka í einu og er sagt að þetta séu ,,sérvaldir laukar“. Við athugun mína kom í ljós að kílóverðið á þessum lauk er 568 kr. Venjulegt verð á lauk annars staðar er um 100 kr. á kíló. Varðandi merkinguna ,,sérvaldir laukar“ þá hef ég aldrei fundið mun á þessum lauk í Krónunni og lauk keyptum annars staðar, nema kannski að þeir séu aðeins oftar eitthvað skemmdir. Því reyni ég að forðast að kaupa lauk á fimmföldu verði í lágvöruversluninni Krónunni.

Sigurður Einarsson

laugardagur, 3. desember 2011

180.000 í Epli, 500$ á Ebay

Ég var að skoða þessa verklegu iPod dokku hjá Epli í dag en fannst verðið
frekar hátt.
http://www.epli.is/aukahlutir/hljod-og-mynd/bowers-wilkins/zeppelin-air.html

Ég kíkti á Ebay en þar kostar sama tæki ríflega 500 dollara.

Mér skilst að það kosti 10-15% að selja á Ebay og svo vill söluaðilinn fá
einhverja álagningu líka svo það er ekki óvarlegt að áætla að heildsölugangverð
tækisins sé innan við 400 USD EÐA 50. Þús án flutn. og gjalda.

En að tækið sé komið í 180.000 hér heima er brandari. Kannski á að reyna að
selja þetta sem ofurgræju en umsagnir á netinu segja klárlega að tækið henti
ekki sem "primary" tónlistartæki fyrir heimilið. Þetta er öflug dokka en alls
ekki neitt meistarastykki sem kemur í stað hljómflutningstækja.

Ebay er kjörinn vettvangur fyrir alla neytendur til að sjá hvort það sé verið
að snuða á sér. Út frá Ebay verðum má alltaf áætla erlent heildsöluverð og
þaðan má svo svo reikna innlenda álagningu gróflega.

Það borgar sig oft að hugsa sig 2svar um sko....

Kveðja,
UD

Mogginn hækkar smáauglýsingarnar

Vek athygli á hækkun smáauglýsinga í Morgunblaðinu upp á 80 %....úr kr. 1588 í kr. 2890. Er þetta hægt?
Þorsteinn

föstudagur, 2. desember 2011

„Ódýr þjónusta“ í Glóey

Ef það er eitt sem við eigum ekki að láta yfir okkur ganga er það ódýr þjónusta! Ég er í hönnunarnámi í Iðnskólanum í Hafnarfirði og þurfti að versla ljósabúnað í lampa sem ég er að gera.

Ég byrjaði í Glóey og segi farir mínar ekki sléttar af þeirri reynslu. Ég gekk inn í verslunina að búðarborðinu og beið í dágóða stund áður en maðurinn bak við borðið veitti mér athygli. Hann bauð mér þurrlega góðan daginn og ég bar upp erindi mitt. Hann sagði að þetta væri ljósabúð, þeir seldu tilbúin ljós. Ég spurði hann á móti hvort þeir væru ekki að selja ljósabúnað til rafvirkja og jú það gerðu þeir viðurkenndi hann. Ég spurði hann því hvort það myndi ekki gagnast mér og þá yppti hann öxlum hægt og rólega og horfði á mig með óræðnum svip. Ég sagðist þá bara leita eitthvað annað og gekk rakleiðis yfir til samkeppnisaðilans, Rafkaup, hinum megin við götuna og fékk frábæra þjónustu!

Ég hef sjálf unnið í þjónustustarfi sl 15 ár og hef aldrei upplifað annað eins áhuga- og sinnuleysi í þjónustu. Mér finnst líklegt að þetta hafi verið eigandinn sjálfur og mér dettur ekki í hug að benda honum sjálfum á þetta. Með þessari færslu minni vil ég minna fólk á að sætta sig ekki við "ódýra þjónustu" og sniðganga þau fyrirtæki sem þykir ekki vænt um viðskiptavini sína!

Kveðja,
Ása Lára