mánudagur, 16. júlí 2012

Tal - loks komin samkeppni í 3G

Fyrir rúmlega tvemur árum síðan sendi ég bréf hingað á Okursíðuna og talaði um það að samkeppnin í 3G neti væri engin, sama verð allstaðar og það skipti í raun engu máli hvert maður færi í viðskipti því allstaðar fengi maður sama gagnamagn fyrir sama verð.

Ég var að fletta Fréttablaðinu í gær og rakst þá á ansi skemmtilega auglýsingu frá Tal. Já, það er komin samkeppni á 3G markaðinn loksins! En auglýsingin frá þeim hljómaði þannig að ef maður væri með gsm símann hjá þeim í áskrift gæti maður keypt sér 10 gb gagnamagn fyrir 500 kall.


Ég átti ekki orð til í eigu minni að sjá það að nú væri komin samkeppni.
Þegar ég sá þessa auglýsingu dref ég mig beint í Tal og flutti númerið yfir til þeirra frá Vodafone.
Ég er búinn að vera með pakka hjá Vodafone sem heitir Vodafone 250 og hef verið að borga á mánuði fyrir það 2980 kr á mánuði, okei mér fannst það nú svo sem ekkert svo hrikalegt og með fylgdi 100 mb gagnamagn. Ég nota það mikið 3G í símanum að það var svo fljótt að fara framyfir að ég var yfirleitt að borga á mánuði samtals 5000 kall, fyrsti 3þúsund kallinn fyrir mánaðargjaldið og svo hækkaði 3G notkunin það mikið að það varð auka 2þúsund kr í kostnað.

Hjá Tal var ég að fara í pakka sem heitir 6 vinir, hann er á 1.890 kr á mánuði. 1000 sms og 1000 mínútur og svo kemur rúsínan í pylsuendanum að ég þarf bara að bæta við 500 kalli við þetta verð á mánuði til þess að fá 10gb gagnamagn.

Svo eru það 3G netlyklarnir (pungarnir) sem var það sem ég var fyrst og fremst að tala um í bréfi sem ég sendi hingað á síðuna fyrir já rúmin tvemur árum síðan. Samkeppnin var ekki nein en núna er Tal að bjóða uppá áskriftarleið fyrir 3G netlyklanna og þar getur maður borgað á mánuði 2.495 kr. og fengið 30gb gagnamagn. Þessi 30gb hjá vodafone kosta hinsvegar 4990 kr. Þannig að Tal er 100% ódýrari en Vodafone.

Ég fagna þessu að maður sé loksins að sjá samkeppni í þessum málum, ég skipti amk frá vodafone og yfir í Tal í gær bæði 3G netlyklinn og gsm áskrift og mér reiknast að ég sé að spara 4-5 þúsund kall á mánuði með því.

Ég ætla að láta það fylgja með að ég hef heyrt það frá fólki sem hefur verið hjá Tal að þjónustan þar sé alveg skelfileg, sjálfur hef ég bara ekki reynslu af þeim og veit það ekki en ákvað að prufa þetta samt fyrst maður er að sjá 4-5 þúsund króna sparnað á mánuði með þessu. Þannig þetta er allaveganna yfir 50 þúsund króna sparnaður á ári fyrir mig. Held ég sætti mig við það fyrir lélegri þjónustu (ef satt reynist að hún sé léleg)

Hér er færslan sem ég sendi inná okursíðuna í apríl 2010.
http://okursidan.blogspot.com/2010/04/hvar-er-samkeppnin-i-3g.html

Það gleður mig rosalega að það sé loksins alvöru samkeppni í þessu.

G. Ásgeirsson

laugardagur, 14. júlí 2012

Stöð 2 - enginn les smáa letrið


Ég var að hringja í Stöð 2 í dag (13. júlí) til að segja upp sjónvarpsáskriftinni minni. Fékk þá að vita að ég þarf að borga, ekki bara fyrir allan júlímánuð, heldur einnig fyrir allan ágústmánuð. Ég þarf sem sagt að borga næstum tvo mánuði af sjónvarpsáskrift sem ég hef engin not fyrir, þar sem ég er fluttur í annað húsnæði og kominn með áskrift hjá Símanum. Mér var sagt að þetta væri svona í notendaskilmálum sem ég hafi samþykkt og það má vel vera, en það breytir því ekki að þetta hljóta að vera mjög óeðlilegir viðskiptahættir og þörf að vekja athygli á þessu. Svo les auðvitað enginn smáa letrið spjaldanna á milli - það vita það allir.

Pétur Jónasson

þriðjudagur, 3. júlí 2012

Vond þjónusta hjá TAL


Aldrei versla við TAL! Ég sagði upp netþjónustu minni þann 6 júní en af því gerði það eftir mánaðarmót er ég rukkaður fyrir heilan mánuð.
Sem sagt 7000 kr fyrir 6 daga sem ég var ekki einu sinni tengdur. Ég bað þá um að gefa mér slaka á að borga heilan mánuð en það var ekki hægt að taka eina krónu af reikningum.
Þegar maður fær svona lélega þjónusta lætur maður aðra vita. Það er bara þannig!
Þórólfur

Okurlán


Ég er nýbúinn að gera þau heimskulegu mistök að taka lán hjá einu
smálánafyrirtækjana. Þar sem ég átti ekki kost á að greiða upp lánið innan
tveggja mánaða þá var það sent í innheimtu. Höfuðstóllinn var upphaflega
50.000 krónur en skuldin er í dag 100.000 krónur með öllum kostnaði eða
100% álag á höfuðstól. Má þetta?
Skoðum aðeins hvernig þetta er reiknað. Sé tekið 10.000 króna lán sem er
algengasta upphæðin þá er reiknað með 1% vöxtum á dag og 600 króna
kostnaði. Hljómar býsna freistandi ekki satt? En bíðum nú við. Ef við
reiknum þetta á ársgrundvelli þá erum við að borga 1) höfuðstólinn 10.000
krónur 2) kostnað uppá 600 krónur og 3) 365 * 1% eða 365% vexti.

10.000 * 0,01 = 100 * 365 = 36.500 krónur. Að ári liðnu þá er ég að borga
47.100 krónur til baka. Ekki alveg jafn freistandi.

Skoðum annað dæmi.
Tökum 30.000 krónur að láni í eitt ár.

30.000 * 1% = 300 krónur í vexti á dag * 365 = 109.500 krónur BARA VEXTIR.
Samtals heildarendurgreiðsla 140.100 krónur.

Dágóð ávöxtunarleið fyrir þann sem rekur svona fyrirtæki.
Er svona löglegt?
Er virkilega ekkert hægt að gera til að banna svona starfsemi eða þá koma
skýrari böndum yfir hana til að takmarka hversu háa vexti má rukka?

Kv.
Tryggvi